Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Kannski ætti ég að segja að ég væri ögn snortinn yfir því mikla lofi sem hv. þm. hefur borið á þann sem hann kallar efnilegasta leiðtoga vinstri hreyfingarinnar forðum daga sem skrifaði eitursnjallar greinar í fáséð og fátækt blað og hafði rétt fyrir sér í öllum meginatriðum. Það rifjast upp fyrir mér að það er kannski engin furða, eftir þessa lýsingu á hinum pólitíska gæðingi, að hv. þm. hafi líka fyrir aðeins örfáum vikum orðið til þess að bjóða þessum sama manni forsætisráðherrastól í ríkisstjórn sem hann vildi beita sér fyrir að mynda. Sennilega er það til marks um það að álit hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar á formanni Alþfl. hafi þrátt fyrir allt ekkert breyst.
    Um viðreisnarstjórnina örfá orð. Ég mun hafa byrjað afskipti af stjórnmálum í blaðaskrifum á árinu 1964. Ég byrjaði þau afskipti með blaðagreinum í blaði sem hét Frjáls þjóð þar sem ég skar upp herör gegn hugmyndafræðilegum arfi forustumanna Sósíalistaflokksins, krafðist þess að framkvæmt yrði sögulegt uppgjör við fordæðuskap þeirra hugmyndafræðilegu gjaldþrotamanna sem þar stýrðu búi, vildi beita mér fyrir því að þeir sem væru raunverulegir jafnaðarmenn í þáverandi samsteypu sem hét Alþýðubandalag gerðu annað tveggja að taka forræði á þeim pólitíska vettvangi og vísa þessum gömlu kommum út þar sem þeir ættu heima eða færu úr þessu Alþýðubandalagi og reyndu að búa til grundvöll fyrir nýjum jafnaðarmannaflokki.
    Ég er alveg sannfærður um það að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gæti notað allan þennan vetur til þess að lesa ekki síður snjallar greinar og mjög skorinorðar sem höfðu þetta að meginstefnu. En þeir sem helst voru til andsvara voru ýmsir þeirra sem enn eru framarlega í flokki hv. þm., formanns Alþb., og þótti þetta hinn versti málflutningur og töldu það fráleitast af öllu að kröfur væru hafðar uppi um það að Sovéttrúboðið íslenska, eftir alla þeirra klofningsiðju í íslenskri vinstri og verkalýðshreyfingu á röngum forsendum, þar sem þeir höfðu rangt fyrir sér í öllum grundvallaratriðum, yrði gert upp við það pólitíska þrotabú.
    Þessu til staðfestingar er kannski rétt að nefna það að eitt stærsta málið sem kom upp undir lok viðreisnarferilsins var spurningin um inngöngu Íslands í EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu. Það vill svo til að það mun hafa verið Björn Jónsson sem beitti sér fyrir því að gera þann sem hér stendur að fulltrúa Samtaka frjálslyndra og vinstri manna í því nefndarstarfi sem þá undirbjó það mál af hálfu íslenskra stjórnvalda. Og ég held að ég ýki það ekkert þegar ég segi að ég hafi átt allverulegan þátt í því að þessi stjórnmálasamtök, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, tóku afdráttarlausa afstöðu með því að Íslendingar ættu að gerast aðilar að Fríverslunarsamtökunum, EFTA, þar sem aftur á móti Alþb. sem heild var eindregið andvígt þessu. Og taldi þetta eins og núna vera

landsölu, vera framsal á sjálfstæði, vera uppgjöf á íslensku sjálfstæði. Með öðrum orðum: Allir sömu orðalepparnir og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og félagar hans halda hér uppi nú þegar við ræðum um samninga við Evrópubandalagið um Evrópskt efnahagssvæði. Þeir höfðu rangt fyrir sér í því þá eins og þeir hafa rangt fyrir sér núna.
    Annað. Þegar viðreisnarstjórnin fór frá eftir að Alþfl. varð fyrir áfalli í kosningum 1971 sögðu sumir að hún hefði verið felld, viðreisnarstjórnin hefði verið felld, meiri hluta hennar hnekkt af Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Það er að vísu eitthvað til í því. En í raun og veru er ég þeirrar skoðunar að viðreisnarstjórnin hafi fyrst og fremst dáið úr þreytu, uppdráttarsýki. Hana hafi þrotið erindið. Hún skildi að vísu vel við eftir áföllin sem ríkisstjórnin varð fyrir, og þjóðin varð fyrir 1967 og 1968, komið sæmilegt jafnvægi. En engu að síður voru hugmyndir hennar að nokkru leyti upp urnar og sér í lagi var skilningsleysi hennar á nauðsyn þess að Íslendingar beittu sér fyrir útfærslu landhelginnar. Það held ég að hafi verið hennar banabiti.
    En í þessu viðfangi er rétt að hafa það í huga að Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru stjórnmálahreyfing sem varð til í uppgjöri við gömlu Moskvukommana í Alþb. Samtök frjálslyndra og vinstri manna urðu til vegna þess að menn eins og Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson áttu ekki samleið með þessum forustumönnum í Alþb., var gert þar ólíft reyndar, og hurfu þaðan á braut undir merki kröfunnar um að nauðsynlegt væri að hreinsa til, gera upp þessa arfleifð. Þeir komust að sömu niðurstöðu og Jón Baldvinsson forðum daga 1938 að undir merkjum mannanna frá Moskvu mundi íslensk vinstri hreyfing vissulega bíða ósigur.
    Samtök frjálslyndra og vinstri manna fengu fimm þingmenn, fengu það sem menn kalla stundum oddaaðstöðu til stjórnarmyndunar. Og þá er kannski rétt að rifja það upp að þá eins og oft áður vildu menn túlka þessi kosningaúrslit sem kröfu kjósenda um nýja vinstri stjórn, þ.e. alþýðubandalagsforingjarnir gömlu túlkuðu þessi kosningaúrslit, sem voru að því er samtökin varðaði uppgjör við þá, sem kröfu um það að nú yrði mynduð ríkisstjórn með þátttöku kommúnista. Og því miður, og það voru alvarleg mistök, var það svo að forustumenn Samtaka frjálslyndra og vinstri manna höfðu ekki nægt traust á sjálfum sér, ekki nægilegt pólitískt sjálfstraust til þess að hafna þessu, að undanteknum einum manni sem að vísu var ekki þar í fremstu röð. Ég var kominn í pólitíska útlegð vestur á firði og átti ekki þarna aðra aðild en þá að ég átti sæti í einhverju sem kallað var flokksstjórn, eða miðstjórn, SFV. Ég kom á fundi þar sem þessi stjórnarmyndun var til umræðu og ég lét bóka það sérstaklega á þeim virðulega fundi að ég teldi þetta mjög misráðið; að Samtök frjálslyndra og vinstri manna ættu annað erindi í pólitík en að álpast inn í vitlausa vinstri stjórn undir forustu Framsfl. og með þátttöku gömlu kommanna með vitlaust prógramm í farteskinu. Og Samtökin ættu ekki að gleyma því höfuðhlutverki sínu og þeim tilgangi sínum að beita sér fyrir sameiningu jafnaðarmanna. Ég mælti með því að Samtökin byðu að vísu Ólafi Jóhannessyni hlutleysi, ef hann gæti skapað hér minnihlutastjórn um skeið, en sneru sér síðan að því meginverkefni sínu að taka upp viðræður við Alþfl. til þess að vinda bráðan bug að sameiningu flokkanna.
    Þetta lýsir kannski afstöðu minni til viðreisnarinnar sem var á þessum tíma sem hv. þm. var að vitna til á þann veg að viðreisnarstjórnin væri merkileg umbótastjórn í efnahagsmálum framan af, hefði að vísu þrotið erindið undir lokin. Hef ég í engu breytt afstöðu minni til þess, samanber afstöðu mína til inngöngunnar í EFTA á sínum tíma, samanber einnig afstöðu mína til þessarar stjórnarmyndunar 1971. Og þó að ég ætli ekki að fara hér með það úr þessum ræðustóli, þá minnist ég ákaflega vel samtala sem ég átti við Björn Jónsson um þá stjórnarmyndun og reyndar við Hannibal Valdimarsson og veit reyndar núna að báðir fullyrtu eftir á að það hefðu verið alvarleg mistök þegar þeir gengu til þeirrar stjórnarmyndunar.
    Til þess að orðlengja ekki frekar um þetta þá ætla ég að bæta einu við. Svo er mál með vexti að ungur og efnilegur stjórnmálafræðingur, menntaður úr Manchester, gaf einu sinni út smákver sem mun hafa verið að stofni til bókarkafli í alþjóðlegt fræðirit um samsteypustjórnir þar sem hinn ungi prófessor, dr. Ólafur Ragnar Grímsson, var að setja fram nýstárlegar kenningar, eða kenningatilbrigði skulum við kalla það, um samsteypustjórnir. Og tók einkum og sér í lagi dæmi af einni samsteypustjórn íslenskri. Það var viðreisnarstjórnin sem hann tók sem dæmi um þessa kenningu sína, dæmi um það hvernig farsællega hefði til tekist í stjórnarsamstarfi sem skýrði það hvers vegna þessi samsteypustjórn hefði enst svo lengi, sem skýrði það m.a. hvers vegna þessi ríkisstjórn hefði náð svo eftirtektarverðum og jákvæðum árangri um meginverkefni sitt sem var að opna Ísland fyrir straumum samtíðarinnar og endurskipuleggja íslenskt atvinnulíf eftir að hafa tekið hér við mjög úreltu og reyndar gjaldþrota haftakerfi frá fyrri tíð. Þetta er ákaflega athyglisverð ritsmíð og sýnir aðeins eitt, að þegar prófessor dr. Ólafur Ragnar Grímsson er að leggja fræðilegt mat í stjórnmálum, setja fram kenningar og tilgátur og rökstyðja það, þá er hann ekki ofstækisfyllri en svo að hann tekur þessa viðreisnarstjórn sem dæmi um árangursríkt stjórnarsamstarf ólíkra flokka. Segir ekki meira af því að svo stöddu.
    Til mín var beint örfáum spurningum. Fyrst er það að hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson nefndi í ræðu sinni Schmidtmeier, formann þingmannasamtaka EFTA, austurrískan þingmann, og hafði eftir honum einhver orð sem hann taldi vera til marks um það að höfundurinn, Schmidtmeier, teldi nauðsyn á því að innan EFTA væri stofnað til sérstakra þingsamtaka, ef ég skildi hann rétt, til þess að vega upp á móti þeim missi í valdi þjóðþinga sem væntanlegur samningur um Evrópskt efnahagssvæði fæli í sér.
    Nú er það svo að ég vil ekki rengja hv. þm. um tilfærð ummæli og hef ekki séð þau sjálfur. Ég nefni

að það er áreiðanlega hægt að fara í öll þjóðþing EFTA - landanna og finna til einhver ummæli einhverra manna eins og t.d. í Alþingi Íslendinga um það að þar eru menn sem telja að þessi samningur feli í sér eitthvert framsal á valdi þjóðþinga. Það er hins vegar ekki afstaða þingmannasamtaka EFTA, ekki ráðgjafarnefndar EFTA. Innan EFTA starfa tvær ráðgjafarnefndir, önnur ráðgjafarnefnd aðila vinnumarkaðarins og hin þingmannanefndin. Ég hef setið fundi með báðum þessum ráðgjafarnefndum oft og iðulega og séð frá þeim þeirra ályktanir. Hvergi í neinni ályktun sem ég hef séð frá þessum aðilum hefur því verið haldið fram að þessi fyrirhugaði samningur feli í sér afsal á valdi þjóðþinga.
    Hitt er alveg rétt að menn hafa talað um það í þingmannanefndinni að það væri æskilegt að koma á nánara samstarfi milli fulltrúa þjóðþinga EFTA - ríkjanna, bæði innbyrðis sem og við Evrópuþingið af hálfu Evrópubandalagsins. Það hefur hins vegar ekkert með þetta mál að gera, þ.e. hugsanlegt ágreiningsefni um það hvort um væri að ræða eitthvert framsal á valdi þjóðþinga. Um það hef ég ekki annað að segja en það að þessi samningur felur ekki í sér neitt slíkt valdaafsal og þau rök eru gamalkunn hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Málið er einfaldlega það að sá samningur verður aldrei að löggerningi nema þjóðþingin samþykki hann. Það verða engar nýjar reglur eða ný lög innleidd á grundvelli þessa samnings nema með því móti að þjóðþingin samþykki það. Það verða engar ákvarðanir teknar í stofnunum innan EFTA nema með samstöðu þannig að hvert einstakt aðildarríki hefur þar neitunarvald. Og þessi rök eru alveg ómótmælanleg sönnun þess að í þessum milliríkjasamningi felst ekkert afsal á löggjafarvaldi þjóðþinganna né heldur valdi ríkisstjórna umfram það þá sem tíðkast varðandi reglugerðarsetningu um tæknileg atriði.
    Ef það er svo að umræddur þingmaður hafi á því aðra skoðun, þá er mín afstaða einfaldlega sú að sú skoðun er röng og styðst ekki við rök. Ég hef hvergi nokkurs staðar séð neina ályktun frá þingmannasamtökum EFTA sem tekur undir þessa skoðun.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson beindi til mín einni eða tveimur spurningum. Fyrri spurningin var sú hvort Alþfl. hefði fallið frá afstöðu sinni varðandi endurskoðun búvörusamnings og varðandi það að stefna að því að taka upp gjaldtöku fyrir veiðileyfi í áföngum á komandi árum. Svarið við því er einfaldlega nei. Alþfl. hefur ekki fallið frá því. Og mætti ég kannski vitna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Fyrst um landbúnaðarmál. Í þessari stefnuyfirlýsingu segir, með leyfi forseta:
    ,,Markmiðum sínum hyggst ríkisstjórnin ná m.a. með eftirfarandi aðgerðum:
    3. Með mótun landbúnaðarstefnu er hafi að leiðarljósi lægra verð til neytenda, bætta samkeppnisstöðu bænda, ekki hvað síst með lækkun verðlags, lægri ríkisútgjöld og gróðurvernd. Þetta felur m.a. í sér breytingar á vinnslu - og dreifingarkerfi landbúnaðarvara í framhaldi af endurskoðun búvörusamnings.``

    Að mínu mati getur þetta naumast skýrara verið. Í tíð fyrri ríkisstjórnar neitaði Alþfl. að fallast á eða standa að þeim drögum að búvörusamningi sem undirrituð voru af fyrrv. hæstv. landbrh. Hann rökstuddi það með greinargerð sem lögð var fram í ríkisstjórn þar sem búvörusamningsdrögin voru gagnrýnd og settar fram kröfur um það hvernig þyrfti að halda þessari vinnu áfram og hverju þyrfti að bæta við til þess að Alþfl. gæti talið þetta ásættanlegt. Sérstaklega lögðum við þar áherslu á nauðsyn þess að aflétta leifum einokunar í vinnslu - og dreifingarkerfi til þess að reyna að tryggja betur það lofsverða markmið að ná verðlækkunum til neytenda í framkvæmd eins og er vikið að í stefnuyfirlýsingunni. Við erum þess vegna prýðilega ásáttir við þá stefnumörkun sem hér hefur farið fram. Við það er síðan að bæta að meðan á stjórnarmyndunarviðræðum stóð, þótt þær stæðu yfir skamman tíma, var unnið sérstakt stefnuskjal um landbúnaðarmál sem er ítarlegra, lýsir þessu betur og er hugsað sem innlegg í þá hvítbók sem lýst hefur verið yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að verði lögð fram fyrir upphaf þings í haust. ( HÁ: Um stefnuræðuna.) Að því er varðar stefnuræðuna sjálfa skal það tekið fram að sá sem hér stendur óskaði ekki eftir því að lesa hana yfir, telur það ekki sitt hlutverk, treystir hæstv. forsrh. fyllilega til þess að semja sinn texta sjálfur og túlka fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þá stefnu sem þingflokkar beggja flokka hafa komið sér saman um að fylgja fram. ( Gripið fram í: Er það oftúlkun?) Ég hef svarað þessari spurningu, hv. þm.
    Að því er varðar sjávarútvegsmálin, þá er kannski ástæða til þess að víkja hér enn að stefnuyfirlýsingunni. Þar segir að ríkisstjórnin hyggist ná markmiðum sínum með mótun sjávarútvegsstefnu sem nær jafnt til veiða og vinnslu, hamlar gegn ofveiði, eflir fiskmarkaði, treystir byggð og stuðlar að hagræðingu. Og þar sem stjórnskipuleg staða sameignarákvæðis laga um stjórn fiskveiða er tryggð. Í stefnuræðu forsrh. var rækilega fjallað um þennan þátt stefnuyfirlýsingarinnar, sérstaklega að því markmiði að gera virka 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna um sameignarákvæðið.
    Nú er það svo að það eru skiptar skoðanir í öllum stjórnmálaflokkum, jafnvel líka Framsfl., um fiskveiðistjórnina. Og það er alveg ljóst að sú stefna sem Alþfl. hefur gert að sinni hefur ekkert verið samþykkt fyrir fram í þessu stjórnarsamstarfi út af fyrir sig, þ.e. sá þáttur stefnunnar sem er tillagan um það að taka upp gjaldtöku fyrir veiðileyfi í áföngum á næstu árum, henni hefur ekki verið hafnað. Því er hins vegar ekki slegið föstu að hún skuli koma til framkvæmda. Ástæðurnar fyrir þessu eru einfaldar. Eins og menn vita er kveðið á um það í lögum að stefnt skuli að endurskoðun á núverandi skipan fiskveiðistjórnunar eftir tiltekinn tíma. Það sem við komum okkur saman um í þessari stefnuyfirlýsingu var að setja upp nefnd milli stjórnarflokkanna og nota þannig þann tíma sem líður áður en endurskoðunin kemst á dagskrá til þess að fara yfir alla þá gagnrýni sem fram hefur komið á ýmsa annmarka núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis sem og þær hugmyndir sem fram hafa

verið settar af hálfu stjórnarflokkanna og nýta tímann til þess að fullmóta stefnu um breytingar á sjávarútvegsstefnunni, bæði að því er tekur til veiða og vinnslu. Samkomulag okkar var um það að þessi nefnd skyldi verða öflug, hún skyldi verða skipuð þremur mönnum frá hvorum flokki. Um það var samkomulag okkar í millum að Alþfl. skyldi hafa tilnefningarrétt að því er varðaði formann, en það skyldi verða samkomulagsmál. Þetta er eins og fram kom í ræðu forsrh.
    Við erum hér að tala um stefnu sem tekur bæði til veiða og vinnslu, þ.e. við erum ekki eingöngu að tala hér um fiskveiðistjórnunina sjálfa, kvótakerfið eða breytingar á því. Við erum einnig að tala um aðra þætti málsins eins og hér er vikið að: Eflingu fiskmarkaða til þess að reyna að gefa íslenskri fiskvinnslu jafnan rétt, jafna aðstöðu til þess að bjóða í hráefnið á við erlenda fiskvinnslu. Við munum vafalaust einnig víkja að áhrifum væntanlegra samninga um Evrópskt efnahagssvæði með þeim tollaívilnunum fyrir unnar fiskafurðir og hvernig nýta megi þær breytingar sem lyftistöng fyrir fiskvinnsluna um landið. Við erum einnig að tala um markaðsmál og sölumál. Með öðrum orðum heildarstefnu í sjávarútvegi að því er varðar bæði veiðar og vinnslu.
    Sérstaklega var um það spurt hvort Alþfl. væri fallinn frá, eins og það var orðað, kröfum sínum um það að lækka útgjöld á næstu fjárlögum um 4 milljarða til landbúnaðarmála samkvæmt búvörusamningnum eða hvort krafan um upptöku veiðileyfa skyldi koma til framkvæmda strax á næsta fjárhagsári. Að því er þessi mál varðar er það einfaldlega svo að það kemur fyrst og fremst í hlut núv. hæstv. fjmrh. að verkstýra undirbúningi fjárlaga á næsta ári. Þegar hafa verið lagðar fram með skýrslu fjmrh. upplýsingar um stöðu þeirra mála nú. Þær upplýsingar eru þess eðlis að öllum má ljóst vera að það verður vandasamt verk að koma saman fjárlögum ef stefna á að jöfnuði í ríkisfjármálum strax á næsta fjárlagaári. Það er hins vegar alveg ljóst að með opnun íslenska hagkerfisins, ekki síst opnun fjármagnsmarkaðarins, þá eiga stjórnvöld nánast ekki önnur tæki á sínu valdi, ef þau vilja halda hér stöðugleika og festu í stjórnarfari og þar á meðal reyna að tryggja stöðugleika í gengi, en að gera það með því að beita tækjum sem heita jöfnuður í ríkisfjármálum og ríkisbúskap og með því að draga úr óheyrilega mikilli lánsfjárþörf hins opinbera. Mér segir þess vegna svo hugur um að þær hugmyndir sem við höfum lýst séu þess eðlis að við munum fljótlega reka okkur á það að við getum ekki náð jöfnuði í ríkisfjármálum nema með því að fylgja fast fram þessari stefnuyfirlýsingu sem kveður á um það að lækka ríkisútgjöld vegna landbúnaðarmála. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það líka að það mundi auðvelda hæstv. fjmrh. mjög hans vandasama verk ef samkomulag gæti tekist um það að stíga fyrstu skrefin, eða við getum sagt annað skrefið í þá átt að taka upp gjaldtöku fyrir veiðileyfi t.d. í þeim tilvikum þegar veiðileyfum er úthlutað til útgerðarmanna sem ekki nýta þau en selja hins vegar öðrum í ágóðaskyni.

Menn hafa nefnt mismunandi tölur í þessum efnum sem er ekki aðalatriði málsins heldur hitt að þessi viðskipti eru mikil. Það er þegar tekin upp eins konar gjaldtaka fyrir veiðileyfi í formi verslunar með kvóta, ýmist innan ársins eða jafnvel með endanlegri sölu.
    Með öðrum orðum, þetta er mál sem snýr að ríkisfjármálunum, ekki bara þessum atvinnuvegum einum út af fyrir sig. Þar sem vandinn í ríkisfjármálunum er jafnmikill og við höfum nú upplýsingar um er ég ekki í nokkrum vafa um það að menn hljóta að taka alvarlega þær hugmyndir og þær ábendingar sem hér hefur verið lýst vegna þess að þær kunna að vera algerlega óumflýjanlegar ef við ætlum okkur að tryggja hér og varðveita stöðugleika og festu í efnahags - og atvinnulífi.
    Virðulegi forseti. Ég tel að með þessum svörum hafi ég svarað þeim spurningum sem til mín var beint.