Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það kom einnig fram í frásögn formanns þingflokks Alþb. að í þeim samningum sem gerðir voru milli formanna þingflokka og forseta var talað um að þessum fundi mundi ljúka í síðasta lagi um miðnætti.
    Nú hefur það gerst í þessum umræðum hér eftir miðnætti að hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., hefur upplýst það að Alþfl. hafi ekki vitað neitt um það hvað stóð í stefnuræðu forsrh., a.m.k. hafi formaður Alþfl. ekki kynnt sér ræðuna fyrir fram og tekur ekki ábyrgð á því sem hæstv. forsrh. segir að sé fjórða meginverkefni þessarar ríkisstjórnar, svo að ég vitni orðrétt í stefnuræðuna. Það er auðvitað alveg ljóst að þegar það er upplýst hér skömmu eftir miðnætti að annar af stjórnarflokkunum, a.m.k. formaður hans, hafði ekki kynnt sér né tekið ábyrgð á þeirri stefnuræðu sem hér var flutt efnislega, þá er komin upp alveg ný staða í þessum umræðum.
    Við sem höfum tekið þátt í umræðunni til þessa, og mér er kunnugt um að það á við ýmsa þingmenn sem ekki eru hér staddir í kvöld, höfum talað ávallt á þann veg að stefnuræðan sé sameiginlegt verkefni, sameiginleg tilkynning ríkisstjórnarinnar, hún sé ekki einkatexti forsrh., hún sé stefnuræða ríkisstjórnarinnar. Hún er kynnt sem slík og þjóðin hlustaði á hana sem slíka. Nú kemur það bara í ljós að Alþfl. frábiður sér alla ábyrgð á þessari stefnuræðu. Það er algerlega ný staða í þessum umræðum. Og í ljósi þess, virðulegi forseti, óska ég eftir því að þessari umræðu sé nú frestað. Ég tel óhjákvæmilegt að tala aftur í þessari umræðu eftir þá ræðu sem hæstv. utanrrh. flutti hér, ekki vegna þess sem hann sagði um hina sögulegu upprifjun þó að ég gæti ýmislegt sagt um það, né heldur það sem hann sagði um hina ágætu fræðiritgerð, sem hann þarf greinilega að lesa aftur því hún snerist fyrst og fremst um það hvers vegna sumar ríkisstjórnir eru langlífar en aðrar skammlífar en ekki um stefnuna. En ég tel óhjákvæmilegt að umræðan haldi áfram í ljósi þess sem hér hefur verið sagt, það sé ógerlegt að ljúka henni nú. Ég ætla ekkert að leggjast gegn því að umhvrh. flytji sína ræðu hér, en síðan tel ég óhjákvæmilegt að umræðunni sé frestað þannig að hún geti haldið áfram á morgun og allur þingheimur geti þar til hún hefst á ný gert sér grein fyrir þeirri merku yfirlýsingu sem hér kom fram, að formaður Alþfl. lýsti þeirri afstöðu að hann hefði ekki kynnt sér stefnuræðu forsrh. og Alþfl. hefði ekki samþykkt þann texta né hann verið borinn undir Alþfl.