Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins út af því að menn hafa verið hér að vitna í svokallað samkomulag á fundi formanna þingflokka og forseta í morgun, að rétt er að upplýsa að það var ekkert samkomulag um að ljúka þessum umræðum á miðnætti. Það var hins vegar svona ábending um að það kynni að vera æskilegt og heppilegt, ábending sem kom frá hv. formanni þingflokks Framsfl. og sem enginn sá ástæðu til þess að andmæla neitt sérstaklega. ( Utanrrh.: Svona almennt vinnuverndarsjónarmið.)
    En mér þykir nú vera svolítið annar gállinn á
hv. 8. þm. Reykn. heldur en var þegar hann hímdi hér í stóli fjmrh. fyrir nokkrum vikum síðan. Hann situr nú hér fyrir aftan forsrh. og kallar mjög fram í eins og hann reyndar gerði nú stöku sinnum meðan hann var fjmrh., en m.a. lét hann það fram koma hér í ræðu sinni um þingsköp að hann hefði ekkert á móti því að hæstv. umhvrh. tæki hér til máls, hann hafði bara ekkert á móti því. ( Gripið fram í: Náðarsamlegast.) Náðarsamlegast ætlaði hann að fallast á það að hæstv. umhvrh. fengi nú að taka hér til máls. Það var vissulega mjög fróðlegt að fá þá blessun og þá náð af hálfu hv. 8. þm. Reykn. Ég er viss um að hæstv. umhvrh. þykir mikið til um það.
    En varðandi það sem mönnum fór í milli í morgun þá var af minni hálfu ekkert samkomulag um það og ég bendi á að af hálfu þess manns sem mætti fyrir Alþb. á sambærilegan fund fyrir helgi var talað um að það mætti jafnvel sameina þessar umræður, umræður um skýrslu fjmrh. og það sem eftir væri af stefnuræðu forsrh., við skyldum bara sjá til hvort það gengi ekki upp. Það hefur ekki komið á daginn að menn hafi verið tilbúnir til þess þannig að ég vil bara lýsa því yfir að af okkar hálfu eða af minni hálfu sem formanns þingflokks Sjálfstfl. er ekkert samkomulag um að ljúka þessum fundi nú og mín vegna má þessi umræða halda hér áfram eitthvað lengur.