Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti vill staðfesta það sem kom hér fram í máli hv. 8. þm. Reykv. að þessum tilmælum var beint til forseta að reynt yrði að hafa þessa umræðu ekki langt fram yfir miðnætti. Ef útlit yrði fyrir að henni mundi ekki ljúka á þeim tíma, þá yrði henni frestað. Það var aldrei neitt formlegt samkomulag um þetta atriði, en að sjálfsögðu hafði forseti hug á því að reyna að stefna að því að þessari umræðu gæti lokið. En nú vill forseti benda á það að þegar hv. 8. þm. Reykn. hóf sína ræðu þá var klukkan 15 mínútur yfir 11 og þegar hann lauk sinni ræðu var hún 15 mínútur yfir miðnætti þannig að það var komið fram yfir þennan tíma og það var ekki útlit fyrir að margir væru á mælendaskrá og þess vegna hafði forseti gert ráð fyrir því að hægt væri að ljúka þessari umræðu á skikkanlegum tíma, þ.e. innan klukkutíma frá miðnætti. Nú hefur þingskapaumræða staðið í 15 mínútur þannig að við erum að nálgast það að klukkan verði 1.
    En forseti vill jafnframt benda hv. þm. á að á næsta fundi verða ríkisfjármálin á dagskrá og það ætti ekki að verða stórt vandamál fyrir hv. þm. að ræða um þau mál sem hér hafa komið upp í huga manna að þeir þurfi að ræða frekar, þ.e. um landbúnaðinn, því að hann hlýtur óbeint að tengjast þeim málum sem þar verða rædd, ríkisfjármálum.