Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Frsm. stjórnskipunar- og þingskapanefndar (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Stjórnskipunar- og þingskapanefnd hefur fjallað um frv. til stjórnarskipunarlaga. Eins og hv. þm. er kunnugt þá er þetta frv. samhljóða frv. sem var flutt af hv. þáv. þm. Ólafi G. Einarssyni, Páli Péturssyni, Málmfríði Sigurðardóttur og Stefáni Valgeirssyni og var samþykkt á síðasta þingi, og er lagt fyrir Alþingi skv. 79. gr. stjórnarskrárinnar.
    Það liggur í eðli þessa máls að Alþingi getur gert annað tveggja, að hafna því eða samþykkja það. Sú nefnd sem hefur fjallað um málið er sammála því að það beri að samþykkja þetta frv. og staðfesta það. Hv. þm. er kunnugt um efni þess og þær miklu breytingar sem það hefur í för með sér.
    Í fyrsta lagi er um að ræða verulega þrengingu á rétti til að gefa út bráðabirgðalög.
    Í öðru lagi mun Alþingi samkvæmt þessu frv. starfa í einni málstofu.
    Í þriðja lagi mun Alþingi héðan í frá, ef frv. þetta verður samþykkt, koma saman fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag.
    Í fjórða lagi munu samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður, alþingiskosningar fara fram eigi síðar en í lok kjörtímabils og skv. 15. gr. skal upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði talið frá mánaðamótum.
    Rétt er að taka það fram að það ber að sjálfsögðu að skilja svo að því er varðar næstkomandi kosningar, ef þær verða að loknum fjórum árum, að átt sé við þriðja laugardag í aprílmánuði.
    Við sem áttum sæti í þessari nefnd unnum jafnframt sameiginlega með hv. stjórnskipunar- og þingskapanefnd Nd. að yfirferð á frv. til laga um þingsköp Alþingis. Ég tel ekki rétt að fjalla um það mál fyrr en það kemur formlega hér til deildarinnar sem væntanlega getur gerst síðar í dag, en vil aðeins ítreka það að nefndin er sammála um það að mæla með því að frv. þetta verði samþykkt.