Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns fá að taka undir með hv. 2. þm. Vestf. að mér þykir 20. gr., eins og hún er nú orðin, stórhættuleg og gefur möguleika til þess að keyrt sé yfir minni hluta í þinginu, hver sem hann er hverju sinni. Ég vara eindregið við því að þessi grein fái að standa óbreytt.
    En ég kem hér fyrst og fremst upp til að mæla fyrir brtt. sem ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 7. En áður en ég geri það vil ég þakka hv. nefnd fyrir það að taka tillit til nokkurra af þeim brtt. sem ég sendi inn til nefndarinnar og hafa hlotið náð fyrir augum hennar. Það hafa þær hins vegar ekki allar og tvær af þeim brtt. leyfi ég mér að flytja á sérstöku þskj.
    Sú fyrri gerir ráð fyrir því að nefndir skuli fjalla um allar brtt. sem fram koma innan tiltekins tíma. Ég man að þegar umræða um þessi mál fór fram á síðasta þingi voru það m.a. rök í málinu að vinnubrögð yrðu bætt og yrðu til muna mikið betri í nefndum en verið hafa fram til þessa. Ég tel að það sé liður í því að bæta enn betur nefndarstarfið að allar brtt. fari til nefnda og fái umfjöllun og skoðun í nefndum. Það hefur ekki tíðkast til þessa að nefndir hafi skoðað brtt. en ég tel að það sé réttur þingmanna að svo sé. Þess vegna leyfi ég mér að flytja þá brtt. sem er nr. 1 á þskj. 7. Ég ætla ekki að lesa allan þann texta en vil þó taka fram að nefnd ber ekki að fjalla um brtt. sem koma fram síðar en við 3. umr. um lagafrv. eða síðari umr. um þáltill.
    Í öðru lagi er ég með brtt. við 57. gr. þar sem er heimild forseta að takmarka umræður við þrjá tíma sem hefur verið í þingsköpum og hefur lítið verið beitt. Ég er hins vegar hræddur um að þegar þingið er komið í eina málstofu og tími verður naumur þegar 63 þingmenn eiga að fara að fjalla um lagafrv. með ótakmörkuðum ræðutíma að þá verði farið að líta til þessarar greinar og henni hugsanlega beitt. Þess vegna útvíkkaði ég þetta og gerði brtt. um að heimildin yrði fjórir og hálfur tími. Það miðaði ég einfaldlega út frá neðri deild sem hafði þrjá tíma áður og hlutfalla það upp í fjóra og hálfan. Ef maður hins vegar gerði þetta á móti efri deild þá ætti hlutfallið og tíminn að vera sex tímar.
    Ég tel brýnt að hafa þetta inni sem ákveðinn varnagla þannig að umræður verði þá alla vega ekki skertar meira en þessu nemur.
    Hæstv. forseti. Ég var með fleiri till. Ég var t.d. með till. varðandi áheyrnarfulltrúa að þeir skyldu vera eins og orðið segir og eins og það er skýrt í orðabók að þeir skyldu vera fulltrúar sem sætu fundi en hefðu ekki málfrelsi. Ég hef sjálfur reynslu af því að áheyrnarfulltrúar taka upp jafnvel meiri og minni hluta fundartíma nefnda og finnst mér það alveg óviðunandi. Áheyrnarfulltrúar geta komið sínum sjónarmiðum fram í gegnum formenn nefnda og eins hér í þingsölum. Ég mat það svo að slík till. hefði ekki stuðning. En ég vona að menn hafi víðsýni til að veita þessum tveimur brtt. brautargengi.