Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Í þeirri þingnefnd sem um þetta fjallaði var allgott samkomulag og náðist saman sjónarmið nefndarmanna um þær brtt. sem fyrir liggja, a.m.k. í megindráttum. Ég vil gjarnan fyrir mína parta þakka fyrir mjög lipurlega stjórn á störfum nefndarinnar og það starf sem þar fór fram.
    Ég kom nú aðallega í þennan ræðustól til þess að ræða athugasemd sem hér kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Reykv. tók síðan undir. En ég sé mér til leiðinda að hvorugur þeirra er í þingsalnum. Hér eru vitaskuld fáir í þingsal sem sýnir að hv. alþm. hafa ekki ákaflega mikinn áhuga fyrir því máli sem hér er á dagskrá og má það merkilegt heita. En það er því merkilegra þegar einstakir þingmenn koma með allmiklum þjósti upp í ræðustól til að gera athugasemd og hlýða svo ekki á þau svör sem hægt er að gefa við slíkum athugasemdum eins og hér gerðist með hv. 2. þm. Vestf.
    Mitt tilefni til að koma hingað í ræðustólinn er að segja það að athugasemd þessa hv. þm. var tilefnislaus. En hann á þó þá afsökun að í nál. nefndarinnar á þskj. 5 er prentaður texti sem gefur misskilningi á fæturna og sá texti í nál. er ekki í samræmi við textann í lagagreininni, hvorki eins og hún var upphaflega orðuð né eftir brtt. sem flutt er af hálfu nefndarinnar, og á slíkum mistökum er eðlilegt að biðja afsökunar.
    Eins og lagagreinin hljóðar miðað við brtt. nefndarinnar, þá er hún svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndarfundi skal ekki halda þegar þingfundur stendur yfir. Frá þessu má þó víkja ef nefndarmenn samþykkja og forseti hreyfir ekki andmælum.``
    Þessi lagagrein, svohljóðandi eftir brtt. nefndarinnar, þýðir það að aðalreglan er auðvitað sú að nefndarfundi skuli ekki halda meðan þingfundur stendur yfir, en í þessu er þó frávik ,,ef nefndarmenn samþykkja`` og nefndarmenn eru bæði úr meiri og minni hluta. Þannig að það er ekkert tilefni til þess að gefa því á fæturna að meiri hlutinn geti kúgað minni hlutann í þessu efni. Og það er auðvitað eðlilegt að forseti samþykki slíka tilhögun. En það hefur auðvitað margsinnis komið fyrir í störfum Alþingis á undangengnum árum að nefndarfundir eru haldnir t.d. hér í hliðarherbergjum, örstuttir nefndarfundir meðan þingfundur stendur yfir, með samþykki allra nefndarmanna. Og það er margföld reynsla fyrir því að starf til að mynda fjvn. er það viðamikið að þar verður að halda fundarstarfi áfram þó þingfundir standi yfir en það verður auðvitað að gerast með samþykki nefndarmanna. Og ef ekki til að mynda minni hlutinn samþykkir, þá getur auðvitað meiri hlutinn haldið áfram sínu starfi í slíkri nefnd, þeirri miklu vinnunefnd, ef það fer ekki í bága við vilja forseta þingsins. Þessi grein, eins og hún hljóðar eftir brtt. nefndarinnar, tekur af tvímæli um þetta og gefur því ekki á nokkurn hátt á fæturna að það sé meiningin að kúga minni hluta nefndar einhverju sinni í þessum efnum. Þess

vegna var athugasemd hv. 2. þm. Vestf. tilefnislaus.
    Ég held að það sé kannski eðlilegra hlutverk frsm. nefndarinnar að svara þeim athugasemdum sem fram komu til að mynda frá hv. 4. þm. Austurl., en ég vek svona í leiðinni athygli á því að það eru ákaflega fá tilvik þar sem það er mögulegt að tillaga eða frv., þingmál gæti verið afgreitt með einu atkvæði. Það er mögulegt varðandi brtt. Það er ekki mögulegt varðandi frv. eða þingmál sem fer til nefndar vegna þess að það kemur væntanlega ekki aftur til þingsins eftir 1. umr. nema meiri hluti nefndar vilji leggja því lið og telji rétt að það sé samþykkt. Og ef ekki kemur meirihlutaálit, þá er hæpið að það sé tekið á dagskrá þannig að slíkt mál kemur ekki hingað til meðferðar og verður ekki afgreitt með einu atkvæði. Það eru fleiri sem standa á bak við það. Hins vegar getur þetta skeð með brtt. sem flutt er af einhverjum þingmanni sem kemur þá þegar til atkvæða í lok þeirrar umræðu. Ef sú tillaga er samþykkt með einu atkvæði, þá er hún ekki mikils háttar og þá er hún ekki þess háttar að menn telji hana þess verða að vera annaðhvort með eða á móti. Það þýðir að sú tillaga er auðvitað einskis virði að áliti meginþorra þingmanna og skiptir ekki máli hvort hún er samþykkt eða samþykkt ekki, þannig að þetta er nú ekki eins alvarlegt og menn kynnu að halda þótt það líti kannski ekkert sérstaklega vel út.
    Ég vek athygli á því í sambandi við það sem hv. 4. þm. Austurl. sagði um brtt. að því er lýtur að meðferð fjárlagafrv. og verksviði fjárlaganefndar og annarra fastanefnda þingsins að um leið og það er að nokkru sett í vald fjárlaganefndar að hve miklu leyti eða hvort hún vísar öllum þáttum fjárlagafrv. til annarra fastanefnda Alþingis, þá geta líka aðrar fastanefndir Alþingis ákveðið að taka til meðferðar og umfjöllunar einstaka þætti fjárlagafrv. að því er þeirra verksviði tilheyrir, þannig að þarna er býsna rýmilega að verki staðið.