Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði við 2. umr. lýst fylgi við þá hugmynd sem kynnt var af frsm. þingskapanefndarinnar að fjölga í fjvn. í ellefu þingmenn og lýsi því stuðningi við fram komna tillögu. En erindi mitt hér í ræðustól var það að vekja athygli á einu því ákvæði sem samþykkt var við 2. umr. Mér hafði láðst að spyrjast nánar fyrir um viðkomandi brtt., en það er við 30. gr. eins og hún hefur verið ákvörðuð við 2. umr. þar sem segir í a - lið, með leyfi forseta:
    ,,Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð.``
    Þarna er á ferðinni nýmæli í þingsköpum.
    Ég hefði nú ekki verið talsmaður þess að taka ákvæði af þessu tagi inn í þingsköp, en ég ætla ekki að fara að flytja brtt. varðandi þetta nú við 3. umr. málsins því að það má út af fyrir sig segja að það sé ekkert óeðlilegt að það liggi fyrir kostnaðaráætlun varðandi tillögur og samþykktir sem sýnilega leiða af sér verulegan kostnað.
    Hitt tel ég hins vegar vera óeðlilegt í raun að það skuli vera skylda að láta gera slíka ályktun og prenta hana með nefndaráliti varðandi hvaða áætlun sem gerð er. Ég er ansi hræddur um það að þetta verði kannski notað til þess að bremsa af ýmis góð mál sem flutt eru hér í þinginu, t.d. þáltill. sem geta haft einhvern kostnað í för með sér, athuganir á málum og annað þess háttar sem vísað er til framkvæmdarvaldsins og það verði fært fram sem rök gegn því að samþykkja slík mál sem annars eru góðra gjalda verð.
    En ég ætla ekki að ræða málið á þeim grundvelli frekar þó að ég veki athygli á þessu, heldur vil ég spyrjast fyrir, og þá beini ég því til frsm. þingskapanefndar, þó hann hafi nú skilað sínu áliti við 2. umr., og spyr hvort nefndin hafi um það fjallað með hvaða hætti staðið yrði að framkvæmd þessa ákvæðis. Ég teldi það ekki rétt að fara að senda ályktanir þingsins á færibandi t.d. til framkvæmdarvaldsins upp í Fjárlaga - og hagsýslustofnun eða upp í fjmrn. til að biðja framkvæmdarvaldið um áætlun á kostnaði að þeirra mati. Það teldi ég ekki skynsamlega að farið og ekki þinginu sæmandi að standa þannig að máli. Annað mál er það að það er auðvitað vel hægt að afla slíks álits eftir því sem þurfa þykir en ekki sem meginreglu.
    Í lögum nr. 13/1979, sem eitt sinn voru býsna rómuð og mikið um rædd, kölluð Ólafslög, er ákvæði sem ekki hefur nú alltaf verið fylgt mjög stíft eftir. Í 13. gr. þeirra laga segir að eitt af verkefnum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar skuli vera, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð, ,,kostnaðarmat á tillögum frumvarpa sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Skal slíkt mat liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þingnefndar á tilskildum tíma.`` Þetta varðar frumvörp. En hér er gengið lengra. Hér er verið að setja í lög einnig varðandi ályktanir, að gera það að skyldu.

    Ég tel að það hljóti þá að verða verkefni þingsins að hafa starfslið sem geti sinnt þessu verkefni á vegum þingsins þannig að sú regla verði ekki sköpuð að það eigi að fara að leita til ríkisstjórnar eða framkvæmdarvalds að meta það hvaða kostnað samþykktir af hálfu Alþingis kynnu að hafa í för með sér, sem getur nú oft verið býsna teygjanlegt. Og ég vil spyrja hv. 8. þm. Reykv. hvort nefndin hafi rætt framkvæmd á þessu ákvæði á vegum Alþingis.