Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Vegna ræðu síðasta ræðumanns vil ég segja það að ég held að ekki komi til greina annað en að þetta mat sem beðið er um að fylgi þskj., eða nál., verði unnið á vegum þingsins. Það væri óhæfa að ætlast til þess að það væri gert á vegum ráðuneyta. Þingið á að hafa afl, vald og starfslið til að láta framkvæma svona mat.
    Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að þingheimur viti hvað hann er að gera og hvað það kostar sem hann er að gera í það og það skiptið, þannig að það liggi fyrir í stórum dráttum hvaða kostnaður hlýst af þeim samþykktum sem hér eru gerðar.
    Ég stend fyrst og fremst upp vegna brtt. á þskj. 10 sem hér liggur fyrir og nýbúið er að veita afbrigði fyrir. Það er rétt hjá fyrra flm. þeirrar tillögu að samstaða hefur verið um þetta mál í þinginu, mjög góð og breið samstaða. En með því að samþykkja þessa tillögu þá væri hún rofin. Ég lýsi mig andvígan þessari tillögu. Ég vil halda mig við þær brtt. sem nefndin hefur gert og þá afstöðu sem tekin var af nefndinni sem hafði málið til meðferðar. Það eru engin efnisleg, haldbær rök fyrir þessari brtt. Það er rangt sem fyrri flm. hélt hér fram að um aukna vinnubyrði yrði að ræða í fjárlaganefnd frá því sem verið hefur í fjvn. Þessi nefnd fær til meðferðar og yfirsjónar að vísu fleiri mál en fjvn. hafði en á hinn bóginn þá kemur hún til með að vísa grunnvinnu til annarra nefnda þingsins, þar á meðal til efnahags- og viðskn. tekjuhlið fjárlaganna og lánsfjárlögum. Þannig að að sjálfsögðu verður ekki þarna um aukna vinnubyrði að ræða og þau rök eru fallin.
    Réttur smáflokka er prýðilega tryggður með því að hafa níu manna nefndir og það er engin ástæða til að teygja þær út í meiri stærð til þess að tryggja rétt smáflokka. Og það er engin ástæða til þess að hversu lítill hópur sem væri skyldi hann ætíð eiga fulltrúa. Það yrði þá að vera 63-manna nefndir ef menn ætluðu að sigla út fyrir öll þau sker að svo lítill minni hluti megi ekki verða að hann eigi ekki fulltrúa í fjárlaganefnd.
    Það er sem sagt óþarft og ástæðulaust að hafa fleiri í fjárlaganefnd heldur en í ýmsum öðrum nefndum þingsins, ég nefni efnahags- og viðskn., sem að mörgu leyti fer með a.m.k. jafnvandasamt og kannski vandasamara starf, samkvæmt þessum þingsköpum heldur en fjárlaganefndin. Ég nefni utanrmn., sem hefur líka ákaflega veigamiklum og vandasömum störfum að gegna. Svo vandasömum að samkvæmt þingsköpum hefur það verið ákveðið og viðgengist um langan tíma að í þá nefnd væru kosnir varamenn. Og þar fyrir utan hefur sú nefnd verið það mikilvæg að hún hefur verið að störfum allt árið.
    Þetta er nú um efni tillögunnar. Ég vil líka átelja harðlega vinnubrögð aðstandenda þessarar tillögu. Það var samkomulag í þingskapalaganefndinni og undirskriftir manna voru þar fyrirvaralausar með einni undantekningu. Anna Ólafsdóttir Björnsson skrifaði undir með fyrirvara og er henni þar með samkvæmt þingvenju eðlilegt og heimilt að flytja eða fylgja brtt. Engir aðrir boðuðu það í nefndinni að þeir mundu flytja eða fylgja brtt. frá öðrum. En það er hlaupið frá þessu og mér sýnist að hér sé verið að brjóta allar þingvenjur.
    Það kom fram í ræðu frsm. nefndarinnar að hann hafði fallið fyrir þeirri freistingu að vilja styðja þetta mál. Ég sá hér áðan í meðförum manna þessa brtt., að vísu með öðrum flm. en nú eru komnir á hana. Og það er nú alveg til að bíta höfuðið af skömminni þegar hv. þm. hörfa með undirskriftir sínar eða fá aðra til að flytja fyrir sig brtt. þegar þeir sjá að þeir komast ekki upp með það nema með því að verða sér til ævarandi skammar að standa að brtt. Skömmin er söm því þó að hendurnar séu Esaús þá er náttúrlega röddin Jakobs. Og því miður hefur þetta farið svona.
    Það var vilji þessarar þingskapalaganefndar og ákvörðun að breyta nafni nefndarinnar. Í staðinn fyrir fjárveitinganefnd ákváðum við að skíra hana heldur fjárlaganefnd. Okkur þótti það ábyrgara nafn og líklegt til þess að bæta vinnumóral nefndarinnar enn og álit það sem menn hafa á nefndinni. Því miður hefur hagsmunapot gripið suma þingmenn og þeir fara að reikna sig inn í nefndina. Það væri fróðlegt að fylgjast með því næstu daga, ef þessi tillaga yrði nú samþykkt, hverja Alþfl. kæmi til með að velja til setu í nefndinni. Það væri dálítið fróðlegt að fylgjast með því. Ég bið hv. alþm. að minnast orða minna þegar farið verður að kjósa í þessa nefnd.
    Nú menn fara að reikna sig inn í þessa nefnd, reikna sig inn með hrossakaupum. Svo virðist sem einhverjum einstaklingum þyki mjög eftirsóknarvert að eiga sæti í þessari nefnd. Með því að hafa í henni ellefu fulltrúa þá er það að sjálfsögðu orðinn hortittur í þingskapalögunum og það er ólykt af allri þessari málsmeðferð. Hún er ekki til að auka virðingu Alþingis. Og eins og ég sagði í upphafi: Ef þessi tillaga verður samþykkt þá er sú samstaða rofin sem verið hefur um þessi þingskapalög og sem ég að öðru leyti tel mjög vel heppnuð og góð.