Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal fúslega játa það að ég hefði vel kosið að láta minn jómfrúrdóm fallerast af öðru tilefni heldur en þessu. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að koma hér upp og skýra mína afstöðu og míns flokks í þessu máli sem hv. 11. þm. Reykn. hefur lagt fram tillögu um og hæstv. 1. þm. Norðurl. v. fjallaði hér um í nokkrum orðum og stórum.
    Ég verð að segja það að ég tel það mér til happs að mér áskotnaðist sú auðna að fá að starfa með hæstv. 1. þm. Norðurl. v. í þeirri þingskapanefnd sem við unnum í saman. Ég hef ævinlega litið svo á að þar færi gamall Lappi og vitur sem gæti kennt okkur sem erum blautir á bak við eyrun margt það sem miður hefur farið. Og kennt okkur að draga dám af fortíðinni til þess að byggja framtíð. Þess vegna þykir mér það nokkuð miður að þurfa að koma hér upp og fara að kenna hæstv. 1. þm. Norðurl. v. nokkra undirstöðukafla í sagnfræði.
    Hv. þm. sagði til að mynda að það væri alveg klárt að réttur smáflokka væri prýðilega tryggður með þeim nýju mönnum sem nú er gerð tillaga um að verði í fjárlaganefndinni. Mér veitist sá heiður að upplýsa hv. 1. þm. Norðurl. v. um það að aftur og aftur hefur sagan sýnt okkur að það hefur reynst nauðsynlegt að fjölga í fjvn. til þess að tryggja rétt smáflokka. Og svo ég seilist eilítið lengra aftur í sögunni þá veit ég að ég þarf ekki að minna hæstv. 1. þm. Norðurl. v. á hvernig ástandið var t.d. í þessari nefnd árið 1934. Þá var það svo að í öðrum deildanefndum voru fimm og síðar sjö manns en 1934 eða allar götur síðan þá hefur verið talin ástæða til að hafa fleiri menn í fjvn., þá voru þeir níu. Ég veit líka að ég þarf ekki að minna hv. 1. þm. Norðurl. v. á það að árið 1974 --- og veit ég nú ekki hversu lengi hv. þm. hefur verið í þessum sölum --- en mér býður í grun að hann hafi verið að skríða hér inn fyrir dyr í þann mund. Hvað gerðist þá? Þá var akkúrat fjölgað úr níu í tíu. Hvers vegna? Til þess að tryggja rétt smáflokka sem þá voru að koma inn. Þessi skipan var, eins og ég þarf ekki að minna hv. þm. á, til 1978.
    Ég ætla nú ekki að minna hann á mikið fleira en samt ætla ég að minna þingheim á það að 1983 var enn talin ástæða til að fjölga í þessari nefnd úr níu í tíu. Sú skipan stóð að vísu ekki út allt kjörtímabilið, einungis til ársins 1986. Það er því alveg ljóst, og ég þarf ekkert að flytja hér langar sögulegar upprifjanir út af því máli, að það eru hefðir í þessu þingi.
    Ég kem hér auðvitað sem fulltrúi hefðanna og sakna þess að hæstv. 1. þm. Norðurl. v. skuli ekki gerast talsmaður þeirra með mér. Ég bendi á að það hafa yfirleitt, og er enn þann dag í dag, verið fleiri fulltrúar í fjvn. en í öðrum nefndum. Ég er búinn að vera hér í tvær vikur og vissi lítið um hefðir og siðvenjur þessa þings þegar ég kom hér. Þó hef ég lært það að það eru sjö menn í venjulegum þingnefndum, í einni eru níu. Í fjvn. eru níu. Með öðrum orðum er hefð fyrir því að það séu fleiri í fjvn. en í öðrum nefndum.

    Ég get svo algjörlega fallist á það að þetta mál kann að bera að með ekki nægilega heppilegum hætti og ég skal vera fyrsti maður til að viðurkenna það að má vera að sú væta sem ég hef að geyma á bak við eyrun enn þá sem nýbakaður þingmaður hafi gert það að verkum að e.t.v. var ekki nógu fast að þessu máli kveðið. Þó vil ég upplýsa það að þegar ég sat í hópi viturra og góðra Lappa og fjallaði um þessi mál í þingskapalaganefndinni þá kom upp hugmynd um að fjölga ekki bara í ellefu heldur í þrettán. Sem talsmaður mundangshófsins og meðalhófsins þá tók ég það upp og lét það ljóst vera að ég vildi gjarnan að fjölgað yrði í ellefu. Ég gerði það hins vegar ekki að svo föstu máli sem ég e.t.v. hefði átt að gera.
    En ég vil bara draga það upp hér að það er alveg ljóst að sagan sýnir nauðsyn þess að fjölga oft í þessari nefnd umfram aðrar til þess endilega og enn fremur að tryggja rétt smáflokka sem hæstv. 1. þm. Norðurl. v. telur eigi að síður að hafi ævinlega verið tryggður með þeirri tölu sem nú er lagt til að verði í fjárlaganefndinni. Það er sem sagt alveg klárt að tveimur sinnum hefur þótt ástæða að fjölga úr níu í tíu til þess að tryggja þennan rétt. Og ég vísa því einfaldlega á bug í ljósi hefðar, á grundvelli sögu að það sé hægt að merkja þetta sem hortitt í þingskapalögum. Það er aldeilis fráleitt.
    Það er alveg ljóst að það hlýtur að hafa verið einhver ástæða fyrir því að sagan sýnir okkur að allt frá 1934 hefur verið talin ástæða til að hafa fleiri í fjárlaganefndinni en öðrum nefndum. Hver er þessi ástæða? Ég var ekki búinn að vera lengi í þessari þingskapalaganefnd og hlusta mikið á menn sem höfðu setið afar lengi í fjvn., einkum og sér í lagi hv. 2. þm. Norðurl. v., þegar mér varð ljóst að það er engum blöðum um það að fletta að engin nefnd í þinginu sætir jafnmikilli vinnunauð, sætir jafnmiklum gestakomum, sætir jafnmiklu álagi og einmitt þessi. Þannig að á þessum tímum tegunda sem eru í hættu --- stundum er nú talað um að þingmenn séu að verða óvinsælasti hópur þjóðarinnar þó þeir séu ekki beinlínis í útrýmingarhættu --- má segja að það sé hér með vissum hætti verið að fylgja verndunarsjónarmiðum.
    Ég er með þessu líka að benda á að við erum að taka álag af þingmönnum sem sitja í þessari nefnd. Og ég vil bara vekja athygli á einu, hæstv. 1. þm. Norðurl. v., að ánauðin í þessari nefnd er svo mikil að þeir sem til að mynda veita henni forstöðu sjá sér ekki fært vinnuagans vegna að taka þátt í störfum annarra nefnda.
    Ég ætla því að yfirgefa þennan ræðustól öllu flekkaðri en ég gekk í hann sem óspjölluð jómfrú og hvetja menn til þess að standa hér fast á grunni sögunnar og samþykkja þessa brtt. hv. 11. þm. Reykn.