Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska formanni þingflokks Alþfl. til hamingju með að hafa flutt sína jómfrúrræðu þó að ég hefði gjarnan óskað honum þess að hafa hana skynsamlegri en hann hafði hana. Fyrir það fyrsta er það óþarfi að kalla mig hæstv., það er yfirdrifið nóg að kalla mig hv. og ég ætla alveg að láta mér það nægja.
    Það hefur komið í ljós í þessari söguskoðun sem að sumu leyti var rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það dugir að hafa níu menn í fjvn. að öllu eðlilegu. Það er að vísu hægt að finna dæmi þess að það hafi verið tíu í tveimur undantekningartilfellum, en nú er verið að festa það í þingsköp að smáflokkar geta haft áheyrnarfulltrúa í nefndum og það er ekkert á móti því að áheyrnarfulltrúar eigi þar sæti.
    Með þessari brtt. er ekki verið að tryggja rétt smáflokka. Það er verið að leysa krísu í stjórnarliðinu með því að fjölga í þessari nefnd. Eðli málsins samkvæmt átti Sjálfstfl. rétt á fjórum þingmönnum í fjárlaganefndinni. Fimmti maðurinn yrði alþýðuflokksmaður. Alþfl. þótti þetta helsti lítið handa sér því þeir eru svangir þó þeir hafi ekki marga fótgönguliða og verða að nota hv. þm. Össur í allt. Þá datt þeim þetta snjallræði í hug að hoppa inn á hugmynd sem Svavar Gestsson hafði upphaflega hreyft og tryggja einn viðbótarkrata inn í nefndina. Hér er nefnilega um ákaflega ómerkilegt hagsmunapot af lægstu gráðu að ræða og engin haldbær rök, engar göfugar hugsjónir á bak við þetta heldur aðeins ómerkilegasta hagsmunapot.
    Það getur svo sem vel verið að hv. 17. þm. Reykv. Össuri Skarphéðinssyni þyki tími til kominn, úr því að hann er kominn í Alþfl. og ætlar nú að fara að traktera hann eins og aðra flokka þar sem hann hefur verið, að fara að tryggja rétt smáflokka. Svo langt getur hann gengið, svo nærri gæti hann gengið Alþfl. að Alþfl. þyrfti á þessu að halda.