Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Það er sorglegt til þess að vita að við gerð laga um þingsköp Alþingis skuli menn falla í þá gryfju enn og aftur að líta ekki til framtíðar, eins og hv. síðasti ræðumaður minntist á, heldur vera að sníða lög að eigin hagsmunum sem auðvitað eru tímabundnir. Fyrir nokkrum árum sátu hv. þm. veturlangt við að smíða ný kosningalög. Þá voru dæmi þess að einstakir þingmenn sóttu sérálit til Háskóla Íslands og annarra stofnana til þess að ganga úr skugga um hvort þeir sjálfir væru líklegar inni á Alþingi með þessum lögunum eða hinum. Slíkt er Alþingi Íslendinga ekki til sóma. Eftir þá vinnu sem hér hefur farið fram og þá ágætu samstöðu sem náðst hefur í þessu máli er hörmulegt til þess að vita að svo skuli nú fara að þetta mál verði tafið vegna svo vandræðalegra vinnubragða. Ég segi því auðvitað nei.