Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Stjórnskipunar- og þingskapanefnd hv. Ed. starfaði að máli þessu með sömu nefnd hv. Nd. og áttum við ágætt samstarf við þessa nefnd.
    Á þskj. 5 og þskj. 6 koma fram brtt. nefndarinnar í Nd. sem nú hafa verið samþykktar. Eins og fram kemur á því nál. skrifa allir nefndarmenn í hv. Nd. undir það nál. og aðeins einn þingmaður, hv. þm. Kvennalista, skrifar undir það nál. með fyrirvara.
    Þær breytingar, sem koma fram á þskj. 5 og 6 og ítarlega grein er gerð fyrir í nál., skýra sig að mestu leyti sjálfar en ég ætla að fara aðeins yfir helstu atriði sem þar koma fram.
    Við 3. gr. eru gerðar mikilvægar breytingar er varða forseta þar sem fram kemur að það skuli ávallt fara fram kosning í embætti forseta Alþingis þótt aðeins ein tilnefning berist sem þykir eðlilegt og nauðsynlegt í svo mikilvægt embætti. Þá er kveðið á um það að reynt skuli að ná samkomulagi milli þingflokka um einn lista að því er varðar varaforseta.
    Það er ástæða til þess að leggja á það áherslu að það hlýtur að vera æskilegt og að mínu mati mjög mikilvægt að sem flestir flokkar eigi aðild að forsætisnefndinni og það er eðlilegt að þingflokkarnir á hverjum tíma reyni að ná um það samkomulagi áður en farið er út í listakosningu. Ég verð að gera ráð fyrir því að slíkt samkomulag ætti að geta náðst á hverjum tíma því það er mikilvægt að allir flokkar eigi sem bestan aðgang að stjórn þingsins til þess að hún geti farið fram með farsælum hætti og ekki síður mikilvægt að stjórnarandstaða á hverjum tíma komi þar að máli. Þótt það sé að sjálfsögðu nauðsynlegt að það sé alveg ljóst að meiri hluti hlýtur ávallt að ráða hér á Alþingi, og það er mjög skýrt í þessu frv. að aðalforseti sker úr ef um ágreining er að ræða, þá er mjög óheppilegt og í reynd óframkvæmanlegt að þinginu sé almennt stjórnað í krafti meirihlutavalds heldur þarf þar að eiga sér stað eðlilegt samstarf og samvinna milli þeirra flokka sem eiga fulltrúa hér á Alþingi.
    Við 10. gr. er brtt. sem kveður á um það hver séu helstu viðfangsefni forsætisnefndar sem forseti veitir forustu og varaforsetar eiga jafnframt aðild að. Þar er kveðið á með skýrari hætti en áður var hvert sé starf forsætisnefndarinnar og að hvaða verkefnum hún eigi fyrst og fremst að vinna. Þar kemur jafnframt fram að forseta er falið æðsta vald í stjórnsýslu þingsins með því að þar er kveðið á um að ef ágreiningur verður þá skeri forseti úr um það.
    Við 20. gr. er brtt. þar sem kemur fram að meiri hluti nefndar geti ákveðið að halda fund meðan þingfundur stendur yfir enda hreyfi forseti ekki andmælum. Það þótti fullstrangt að áskilja að það þyrfti samþykki allra nefndarmanna en hér hlýtur að vera um ákvæði að ræða sem ekki þarf að beita nema í einstökum undantekningartilvikum. En fyrir því hefur verið venja að t.d. hv. fjvn. hefur oft á tíðum starfað á meðan þingfundir eiga sér stað hér á Alþingi.
    Við 23. gr. er brtt. sem kveður á um hlutverk og málefnasvið allshn. en þar er kveðið á um að þangað skuli vísa dómsmálum, kirkjumálum, sem áður hefur verið gert nema það mun nú hafa verið að einhverju leyti siður að vísa kirkjumálum til menntmn., en þar er kveðið á um að byggðamál skuli vera sá málaflokkur sem vísa skuli til allshn. Það er m.a. með tilvísun til laga sem sett voru á síðasta Alþingi og fjölluðu um byggðamál þar sem skýrt kom fram að það væri mjög mikilvægt að Alþingi tæki þann málaflokk til meiri umfjöllunar og fjallaði um ýmsar skýrslur og tillögur sem varða þennan málaflokk þótt mjög erfitt sé að afmarka hann sérstaklega því hann hlýtur að koma að meira eða minna leyti inn á málasvið annarra nefnda hér í þinginu.
    Jafnframt kemur fram í brtt. við 23. gr. að níu þingmenn geta farið þess á leit að máli sé vísað til nefndar áður en umræða fer fram og jafnframt að lokinni framsögu. Er þetta gert til þess að gera það kleift að þingmenn geti aflað sér upplýsinga um mál áður en umræða hefst og einnig kann svo að vera að einstakir ráðherrar óski eftir því að upplýsa þingmenn viðkomandi nefndar betur um málið áður en umfjöllun byrjar í þinginu. Þetta er í samræmi við m.a. umræður sem urðu hér í hv. deild.
    Við 25. gr. eru mikilvægar brtt. um það með hvaða hætti fjárlaganefnd skuli starfa. Þar er ekki gert skylt að vísa til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrv. sem fjalla um málefnasvið þeirra, en þar kemur skýrt fram að fastanefndir geta að eigin frumkvæði ákveðið að fjalla um einstaka þætti fjárlagafrv. Það má segja að um það sé almenn samstaða að fastanefndir fjalli í meira mæli um einstök málasvið en hér er um breytingu að ræða sem við sjáum ekki alveg fyrir endann á og mikilvægast að þar þróist góð samskipti milli fjárlaganefndar annars vegar og hinna fastanefndanna hins vegar og reynslan hlýtur að skera úr um það hvernig það heppnast. Ekki þótti æskilegt að festa það svo kyrfilega í lagatexta að ekkert svigrúm væri fyrir hendi. Hér er um nýmæli að ræða sem áreiðanlega mun verða mjög mikilvægt þegar fram líða stundir en eðlilegt að það fái nokkurn umþóttunartíma og að sjálfsögðu má breyta þessum lögum síðar í ljósi reynslunnar en þó er nú mikilvægara að góðar starfsreglur myndist í þessu efni.
    Þá er kveðið á um það að fjárlaganefnd vísi lánsfjárlagafrv. til efnahags- og viðskiptanefndar og ekki eingöngu þeim köflum sem fjalla um skatta- og efnahagsmál, en efnahags- og viðskiptanefnd er einnig ætlað að fjalla um tekjuhlið fjárlagafrv.
    Þá er kveðið á um það sem hefur verið hreyft hér í deildinni að 3. umr. fjárlagafrv. hefjist eigi síðar en 15. des. Það var rætt í nefndinni hvort ekki væri rétt að setja ákvæði um 2. umr. jafnframt, en eftir að það hafði verið rætt þótti það ekki heppilegt vegna þess að það kynni að leiða til þess að minni vinna verði lögð í fjárlagafrv. fyrir 2. umr. til þess að standast tímafrestina. En það sem þeir þingmenn sem hreyfðu þessu máli höfðu einkum í huga var að koma í veg fyrir að lokaafgreiðsla fjárlaganna væri hér alveg síðustu klukkutímana fyrir jólahald eins og oft hefur verið og því miður hefur oft á tíðum sett heldur slæman svip á þinghaldið. Þetta ætti að vera auðveldara nú þegar þinghaldið er fært fram um tíu daga eins og nú er gert ráð fyrir og stjórnarskrárbreytingin sem hér hefur verið fjallað um gerir ráð fyrir.
    Hér eru ýmsar aðrar brtt. sem nú hafa verið samþykktar í hv. Nd. og nefndarmenn sem fjölluðu um þær ásamt neðrideildarnefndinni eru sammála í öllum meginatriðum eftir því sem ég best veit. Auk þess er í nál. gert ráð fyrir nokkrum atriðum sem þótti mikilvægt að taka fram í nál. til að leggja sérstaka áherslu á að nefndirnar hefðu fjallað um þau. Þar er m.a. eitt atriði sem allmikið var rætt hér í Ed., þ.e. með hvaða hætti skuli koma fyrir samskiptum Ríkisendurskoðunar og Alþingis. M.a. var hreyft þeirri hugmynd að það væri betra að sérstök nefnd færi með það mál í stað forseta eins og nú er. Eftir nokkra umræðu gat í sjálfu sér verið samstaða um breytingar en þótti rétt að gera fremur breytingar á lögunum um Ríkisendurskoðun og því væri eðlilegt að það mál yrði tekið upp hér á Alþingi í haust eftir að það kemur saman í október.
    Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að gera nokkra grein fyrir þessu starfi í stuttu máli en því til viðbótar vildi ég aðeins nefna það nokkrum orðum að nú hefur verið ákveðið eftir því sem ég best veit í hv. Nd. að fjölga í fjvn. úr níu í ellefu, en það var mál sem afar lítið var rætt á mörgum og löngum fundum nefndanna og kom því nokkuð á óvart þegar við ýmsir heyrðum á skotspónum að það stæði til að nokkrir nefndarmenn í Nd. ætluðu sér að standa að og flytja slíka brtt. Það eru mjög óheppileg vinnubrögð að mínu mati vegna þess að hið sameiginlega starf nefndanna hófst með þeim hætti að það væri mikilvægt að koma því til leiðar að ekki yrðu breytingar á málinu eftir að það hefði hlotið umfjöllun í hv. Nd.
    Að sjálfsögðu er ekki hægt að gangast undir neinar skuldbindingar í því máli því að auðvitað hafa allir hv. þm. hér í Ed. rétt til þess að flytja hér brtt. og krefjast um þær atkvæðagreiðslu. En það var mjög mikilvægt að mínu mati að sá svipur yrði á þessu máli að sem mest samstaða yrði um afgreiðslu þess. Þar af leiðandi kom það mér a.m.k. afar mikið á óvart þegar þessi brtt. kom allt í einu fram og ég hlustaði á hana hér af munni formanns neðrideildarnefndarinnar í umræðum í Nd.
    Ég ætla ekkert að fullyrða um það hvort hægt hefði verið að ná samstöðu um þetta mál, en mér fannst þetta svona heldur setja leiðinlegri svip á vinnu í málinu en ég hefði viljað sjá.
    Síðan má endalaust deila um það hvort rétt sé að hafa níu menn í fjvn. eða ellefu eða hvort e.t.v. sé rétt að hafa fleiri menn í öðrum nefndum þingsins og jafnvel öllum. Það er mjög óheppilegt þegar menn líta á þessi mál í ljósi þingstyrks, eins og hann er á þessu Alþingi, þótt það sé mjög erfitt að koma í veg fyrir það að menn líti nokkuð til þess. Um það var full samstaða að hafa níu manna nefndir þegar frv. var flutt á sínum tíma sem fylgiskjal og
mér finnst mjög óheppilegt að það sé verið að leggja dóm á þetta mál í ljósi þingstyrks nú á Alþingi. Auðvitað getur þetta allt saman breyst í framtíðinni en ég er þeirrar skoðunar að það sé óheppilegt að hafa nefndir allt of fjölmennar. Það er heppilegt að sem flest sjónarmið geti komist að og sem flestir flokkar. Ég tel að það sé alveg nægilega séð fyrir því í níu manna nefnd.
    Það varð mjög mikil umræða um það hvernig ætti að koma að öllum sjónarmiðum og fulltrúum sem flestra þingflokka að stjórn þingsins. Ekki þótti heppilegt að fjölga varaforsetunum sem gert er ráð fyrir að séu fjórir en mættu í sjálfu sér allt eins vera fimm. Það voru tveir varaforsetar áður í hvorri deild og síðan í sameinuðu þingi þannig að forsetarnir voru samtals níu en verða nú samtals fimm. Það var ekki talin æskileg skipan að hafa svo marga við forustu þingsins. Það gekk sem betur fer bærilega að samræma sjónarmið í þessu máli þó þau hafi ekki verið að fullu samræmd því margir voru þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt að varaforsetarnir væru skipaðir í röð eftir styrk þingflokkanna og þá hefði sú skipan orðið nú að allir þingflokkar hefðu fengið aðild að stjórn þingsins þó þar með væri ekki öruggt að slíkt yrði í framtíðinni.
    Mér finnst að nú gildi allt í einu önnur sjónarmið þegar farið er að ræða um fjvn. en komu fram í umræðum í nefndinni þegar var verið að tala um stjórn þingsins. Þykir mér það nokkuð undarlegt. En það hefði verið heppilegra að þetta mál hefði verið rætt ítarlega í nefndinni og reynt að komast að niðurstöðu þannig að það hefði mátt þá koma í veg fyrir umræður sem við hlustuðum á að einhverju leyti í hv. Nd. áðan. Það setur ekki góðan lokasvip á afgreiðslu þessa mikilvæga máls. Þetta er atriði sem við munum áreiðanlega fjalla eitthvað um í efrideildarnefndinni. Ef samstaða næst um að breyta þessu aftur þá getum við að sjálfsögðu gert það. En ég geri svo sem ekki ráð fyrir því að meiri hluti sé fyrir því hér í deildinni að svo verði gert. En ég hefði talið æskilegt að hafa þessa skipan með þeim hætti sem um var talað þegar lokaafgreiðsla nefndarinnar fór fram en fara ekki að rjúka til með einhverja aðra skipan eftir að nefndin hefur lokið störfum.
    Ég vil svo leyfa mér, hæstv. forseti, að leggja það til að þessu frv., eins og það nú kemur frá hv. Nd. verði vísað til 2. umr. og stjórnskipunar- og þingskapanefndar.