Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að segja örfá orð við þessa umræðu þar sem við höfum tækifæri við 2. og 3. umr. til að segja álit okkar á þessu máli. Eins eigum við eftir að vinna þetta í nefnd og ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar.
    En mig langaði til að gera að umtalsefni 3. gr. þar sem kemur fram hvernig kosnir skulu varaforsetar. Ég þarf kannski ekki að hafa svo mörg orð um það því að mínir fyrirvarar eru ákaflega svipaðir þeim fyrirvörum sem komu fram í máli frsm. þar sem hann taldi sig hefði viljað sjá þetta öðruvísi. Ég er honum algerlega sammála. Ég hefði viljað sjá það hvernig varaforsetar skulu kosnir allt öðruvísi. Ég hefði viljað að farið hefði verið eftir þeirri tillögu sem kom fram hjá hv. 2. þm. Suðurl. Jóni Helgasyni um að það yrði svipað fyrirkomulag og er í danska þinginu, þ.e. að farið yrði eftir stærð þingflokka þegar valdir eru varaforsetar.
    Fulltrúi Kvennalistans í nefndinni í Nd. gerði fyrirvara við nefndarálitið og hennar fyrirvari byggðist fyrst og fremst á þessari grein. Mér þótti mjög miður að ekki skyldi nást samstaða um annað en það sem þó varð niðurstaðan eins og kemur fram í brtt. á þskj. 6 sem er örlítil breyting frá sjálfu frv. sem ég tel þó vera til bóta. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Ef ekki er samkomulag milli þingflokka um einn lista skal kosning fara eftir reglum 5. mgr. þessarar greinar``, þ.e. 68. gr. Mér finnst þó betra þar sem gefið er í skyn, að miðað skuli við að samkomulag verði og geri ég ráð fyrir að reynt verði með því samkomulagi að sjá til þess að sem flestir þingflokkar fái aðild að forsætisnefndinni eða stjórn þingsins.
    Mig langaði einnig, virðulegi forseti, að ítreka það sem ég sagði við 1. umr. frv. sem við höfum nú þegar afgreitt frá deildinni, 1. mál þessa þings, um breytingar á stjórnarskipunarlögum, þegar ég gerði að umtalsefni 64. gr. þessa frv. Eins og málið var afgreitt frá Nd. var ekki gerð nein breyting á þeirri grein, þannig að ef þetta verður að lögum óbreytt er möguleiki á því að samþykkja ályktanir og lög frá Alþingi með aðeins einu já - atkvæði. Mér þykir þetta mjög óheppilegt fyrirkomulag og get tæplega sætt mig við það að lög og ályktanir séu afgreiddar frá Alþingi með svo litlum minni hluta eins og þarna er gert ráð fyrir. Það getur vel verið að þetta muni mjög sjaldan koma fyrir, en þó er gert ráð fyrir því í þessum þingsköpum að einungis 1 -- 2 já - atkvæði geti nægt til þess að frv. verði að lögum eða ályktun Alþingis samþykkt.
    Þetta vildi ég minnast á hér við 1. umr. til þess að hægt verði að fjalla um það í nefndinni. Ég tek það fram að ég hefði gjarnan viljað sjá ýmsar greinar þessa frv. öðruvísi, en þetta er það samkomulag sem hægt var að ná í nefndinni. Ég tel að við í þessari hv. deild eigum samt að fara yfir þau atriði og athugasemdir sem hér koma fram og auðvitað gera þær brtt. sem við getum orðið sammála um, ef við verðum það um einhver atriði.