Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Herra forseti. Það frv. sem nú er komið hingað til hv. Ed. hefur fengið góðan og mikinn undirbúning við samningu frv. um breytingar á stjórnarskránni. Það frv. var upphaflega samið af nefnd sem var skipuð formönnum þingflokka og komið var á fót á síðasta þingi að beiðni þáv. forseta Alþingis til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar og samhliða því nauðsynlegum breytingum á þingsköpum Alþingis. Núv. og fráfarandi þingflokksformenn hafa svo unnið að lokafrágangi frv. í samráði við þingflokkana.
    Mér finnst ástæða til að fagna því að þetta mál hefur fengið góða afgreiðslu í nefndum, þ.e. fyrst og fremst í nefndinni í Nd. og svo jafnframt hjá fulltrúum nefndarinnar hér í Ed. sem komu að störfum með neðrideildarnefndinni á síðustu stigum málsins. Og það ber sérstaklega að fagna því að tekist hefur víðtæk samstaða um þær breytingar sem samþykktar voru í meðförum Nd. á frv.
    Auðvitað er það svo að það hljóta að verða skiptar skoðanir um svo mikilvægt mál sem þingsköp Alþingis eru eftir að stjórnarskipunarlögin hafa fengið staðfestingu sem lög frá Alþingi. Því mátti e.t.v. búast við að einhverjar brtt. kæmu fram við 2. umr. málsins eins og reyndar gerðist í dag og kom hér fram í máli hv. 1. þm. Austurl. Ég skil vissulega hans vonbrigði að slíkt skyldi hafa gerst þegar álitið var að víðtæk samstaða hefði náðst í meðförum nefndarinnar í málinu. En ég skil líka vel að þingmenn Alþb. séu þá ánægðir með að þeirra viðhorf hafa fengið undirtektir að lokum þar sem það hefur verið þeirra sjónarmið að fjölga ætti í þessari nefnd.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um einstaka þætti þessa máls. Ég tel að frv. sé vel úr garði gert eins og það kemur nú frá hv. Nd. eftir að því hefur verið breytt í meðförum nefndarinnar og deildarinnar. Ég tel að þessar breytingar séu almennt til bóta og það var vissulega til þess að spara okkur tíma að fulltrúar úr nefndinni í Ed. fengu tækifæri til þess að starfa með neðrideildarnefndinni. Ég persónulega sé ekki ástæðu til að gera till. um breytingar á frv. en að sjálfsögðu hlýtur nefndin að fjalla um það og tekur þá ákvarðanir að þeirri umfjöllun lokinni.
    Mér fannst þarfar ábendingar koma fram hjá hv. 9. þm. Reykv. Það var varðandi endurskoðun og endurmati á fundartímum bæði nefnda og þingfunda. Og það var athyglisverð ábending hjá honum um að það væri stöðugt útvarpað úr sölum Alþingis. Þetta er auðvitað mál sem oft hefur komið upp á borð hjá forsetum þingsins og þingmönnum og sjálfsagt að skoða það. Það hefur bæði sína kosti og galla eins og kom fram í máli hv. 9. þm. Reykv. En ég bendi á það sem kemur fram í 6. lið í áliti nefndarinnar þar sem hún beinir því til forsætisnefndar að hún gangist fyrir endurskoðun þingskapalaganna að loknu næsta þingi í ljósi þeirrar reynslu sem þá hefur fengist af framkvæmd þeirra. Ég held að þetta hljóti að gerast, að það þurfi að koma nokkur reynsla á hvernig þessi nýju þingsköp reynast. Hér er auðvitað um tímamót

að ræða í störfum Alþingis og það hlýtur að þurfa að fá nokkra aðlögun og fá að þróast og kemur þá í ljós hvort ástæða er til að breyta einhverjum mikilvægum atriðum í þessu frv. sem verður væntanlega samþykkt eins og það liggur nú fyrir.