Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Við höfum nú búið við það alllengi að hér hafa verið umræður um stefnuræðu forsrh. og jafnframt höfum við haft til aflestrar stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur aftur á móti komið fram í máli ráðherra að bakskjöl lægju á bak við þar sem skýrt væri sagt frá hver hin raunverulega stefna væri í einstökum málaflokkum þó fá orð væru höfð um í stefnuræðu eða í stjórnarsáttmála.
    Það hefur komið fram ósk frá þingmanni hér í salnum, hv. 9. þm. Reykv., um að þessi bakskjöl yrðu birt þingheimi. Það hefur komið fram að bakskjölin eru ekki neitt leyndarmál, það á að birta þau í hvítri bók í haust, örugglega fyrir jólamarkaðinn. Auðvitað höfum við ekkert við það að athuga að forsrh. sé fagurkeri og vilji koma þessu frá sér í bókarformi. En það hlýtur að vera eðlilegt að þingið krefjist þess að fá nú í handriti þessi skjöl til aflestrar. Það má vel vera að þetta sé skrifað í þeirri fljótfærni að þeir vilji láta vélrita þetta upp og ekki hef ég á móti því, þannig að það sé örugglega hægt að komast fram úr þessu. En það er náttúrlega ósvífni að halda gögnum fyrir þinginu, að halda gögnum um eðli máls fyrir þinginu á sama tíma og ráðherrar leyfa sér að vitna í þessi gögn eins og heilaga biblíu, sem sé nú eitthvað annað en hafi verið áður, þarna sé um traust undirstöðugögn að ræða sem sanni þeirra mál, en því er haldið fyrir þingheimi hver gögnin eru. Og mín krafa til forseta er sú að hann útvegi þingheimi þessi gögn svo hægt sé að lesa það yfir hvað um er að ræða í þessum málaflokkum.