Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning hef ég ekki óskað eftir því að hér yrðu birt gögn stjórnmálaflokka. Ég hef heldur ekki óskað eftir því að hér væru birt einhverjir ósamdir hlutir, eitthvað sem ætti eftir að semja og kæmi svo í hvítu bókinni. Ég fór fram á það að það skjal, sem m.a. utanrrh. hefur staðfest að lægi á bak við hans fullyrðingar hér í ræðustóli, sem er samkomulagsskjal á milli núv. stjórnmálaflokka sem stjórna þessu landi, og er þar með eðlilegt að sé opinbert skjal, verði afhent okkur í handritsformi til aflestrar. Mér finnst það skrýtið ef utanrrh. getur leyft sér það að tala hér um skjal sem standi á bak við hans fullyrðingar en svo komi hæstv. forsrh. og láti í það skína að það eigi eftir að semja þetta skjal. Mér finnst það alveg fráleitt að það sé hægt að blanda þessu tvennu saman. Hæstv. forsrh. hefur að sjálfsögðu fullar heimildir til að geyma alla pappíra Sjálfstfl. læsta ofan í skúffu þannig að menn komist ekki í það að lesa. Ég hef ekkert við það að athuga að sjálfsögðu, ekki nokkurn skapaðan hlut við það að athuga, teldi það til bóta þótt sumt af því færi ekki á flakk. En ég aftur á móti undirstrika kröfuna um að fá þetta skjal til aflestrar.