Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hér eru auðvitað uppi mikil tíðindi. Hæstv. utanrrh. sagði á næturfundi fyrir skömmu: ,,Við það er síðan að bæta að meðan á stjórnarmyndunarviðræðunum stóð, þótt þær stæðu yfir skamman tíma, var unnið sérstakt stefnuskjal um landbúnaðarmál sem er ítarlegra, lýsir þessu betur og er hugsað sem innlegg í þá hvítbók sem lýst hefur verið yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að lögð verði fram fyrir upphaf þings í haust.`` Með öðrum orðum, hér er því algerlega slegið föstu í fyrsta lagi að skjalið hafi verið unnið þegar og sé tilbúið. Í öðru lagi að hér sé ekki um að ræða venjulegan snepil eða bakskjal heldur stefnuskjal og þar ofan í kaupið sérstakt stefnuskjal. Og það hafi verið lögð í það ákaflega mikil vinna að koma þessu stefnuskjali saman þrátt fyrir knappan tíma á hinum frægu Viðeyjarfundum. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að fá það alveg á hreint hvað í þessu skjali er vegna þess að ég veit ekki betur en að hæstv. landbrh. sé þegar farinn að framkvæma búvörusamninginn og sé þegar búinn að senda út reglur um það hvernig standa skuli að fyrstu skrefunum við framkvæmd þessa samnings. ( ÓRG: Og lýsti því yfir að hann hefði aldrei séð neitt slíkt stefnuskjal.) Og auk þess mun hann hafa lýst því yfir að hann hafi aldrei séð slík stefnuskjöl og kannski ekki heldur hv. þm. Egill Jónsson, svo ég nefni höfuðleiðtoga Sjálfstfl. í landbúnaðarmálunum, með fullri virðingu fyrir hæstv. landbrh. Getur það verið að þessi ítarlegu, sérstöku stefnuskjöl hafi aldrei verið lögð fyrir flokkana? Getur það verið? Getur það verið? Ég vil inna formenn þingflokka stjórnarflokkanna eftir því hvort það er svo að plagginu hafi ekki verið dreift þar og þeir viti ekki um þessi ósköp.
    Þetta er nauðsynlegt til að undirstrika það að vegna þess hvernig utanrrh. hefur hagað orðum sínum hefur hann brotið niður trúverðugleika búvörusamningsins að því er varðar afstöðu og framkvæmd og stöðu ríkisstjórnarinnar. Það er það alvarlega í málinu. Það eru þúsundir bænda núna allt í kringum landið að velta því fyrir sér hvernig hagað verði framkvæmd búvörusamningsins núna á þessu ári. Og það ríkir fullkomin óvissa um þennan samning af hálfu ríkisstjórnarinnar eftir að hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir að það séu til undirmál, skjalfest undirmál af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli.
    Ég geri kröfu til þess, virðulegur forseti, að í þessum þingskapaumræðum komi
utanrrh. eða forsrh. strax og fjmrh., sem er aðili samningsins, og greini frá málinu og heiti því hér og nú að dreifa pappírnum. Ef þeir neita að dreifa þessum pappír þá er það auðvitað mjög alvarlegur hlutur og varpar rýrð á þann trúnað og það traust sem þarf að vera til staðar á milli bændasamtakanna í landinu og ríkisstjórnarinnar í þessu máli.
    Ég óska eftir því, virðulegi forseti, og tek undir óskir hv. 2. þm. Vestf. í þeim efnum, að forseti hlutist til um það að allir þingmenn fái þetta sérstaka innlegg, stefnuskjal, á sitt borð og að ráðherrarnir svari

því núna á þessari stundu í þessum þingskapaumræðum hvenær plagginu verður dreift. Utanrrh. hefur kvatt sér hljóðs um þingsköp tvisvar sinnum í skammri þingsögu sinni og nú á hann kost á að gera það í þriðja sinnið og verði það hið eftirminnilegasta ef hann lýsir því hér yfir að hann muni láta dreifa hér á eftir hinu sérstaka stefnuskjali í landbúnaðarmálum. Hinum skriflegu undirmálum gagnvart bændastéttinni í landinu sem ríkisstjórnin er með í skúffunum sínum.