Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér aðeins inn í þessa umræðu um þingsköp og ég byrja á því að ítreka þá kröfu að hér verði birt þau skjöl sem hæstv. ráðherrar vitna beint í máli sínu til stuðnings. Það á ekkert skylt við þann málflutning sem hæstv. heilbrrh. var með hér áðan.
    Virðulegi forseti. Í öðru lagi vil ég koma inn á hvort þessi umræða um stefnuræðu sem engin stefna finnst í sé ekki að verða hálfgerður skrípaleikur. Ég varpa því fram til virðulegs forseta hvort ekki væri miklu nær að fresta umræðunni. Ég vitna þar líka til ummæla hv. 17. þm. Reykv. í gær, formanns þingflokks Alþfl., þar sem hann vitnaði til verndunar - og mannúðarsjónarmiða. Ég held að það fari að flokkast undir verndunar - og mannúðarsjónarmið að gefa nú ríkisstjórninni svolítinn tíma, eilítið frí til að reyna að tjasla saman einhverri stefnu. Því það kemur fram í hverjum málaflokkinum á eftir öðrum að bak við það litla sem þó kom fram í stefnuræðunni stendur hreint ekki neitt, nema það sem hæstv. ráðherrar vitna til bakskjala. Þess vegna hljótum við að gera kröfu til þess að bakskjöl sem er vitnað beint til verði birt og sérstaklega það sem viðkemur landbúnaðarmálunum.
    En ég ítreka, virðulegi forseti, þá spurningu mína til stjórnar þingsins hvort það væri ekki skynsamlegast í þessari stöðu að gefa nú ríkisstjórninni svolítinn tíma til þess að reyna að tjasla saman einhverri stefnu, til þess að við höfum þá eitthvað til þess að fást við á haustþinginu. Það væri hálfömurlegt ef svo færi að við hefðum enga ríkisstjórn lengur þá. ( SvG: Það væri nær að skipta um stjórn, held ég.) Ég held það væri miklu skemmtilegra, hv. þm. Svavar Gestsson, að fá tækifæri til þess að fella stjórnina á málefnum en að taka þátt í þessum vandræðagangi stjórnarinnar hér.