Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála virðulegum forseta um það að þessa þingskapaumræðu er æskilegt að stytta og er mjög auðvelt að stytta. Henni er hægt að ljúka með því að einhver ráðherranna í ríkisstjórn, annaðhvort hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. eða hæstv. landbrh. svari því bara með einu jái hvort þeir eru reiðubúnir að birta þetta skjal eða ekki.
    Ég vildi hins vegar beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh. hvort hann sé reiðubúinn að svara því hér í umræðunni á eftir um stefnuræðuna hvort hann hafi séð þetta stefnuskjal sem hæstv. utanrrh. sagði að væri grundvöllur landbúnaðarstefnunnar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég spyr vegna þess að í viðtali við Dagblaðið/Vísi, að mig minnir, skömmu eftir að ríkisstjórnin var mynduð, eða annan fjölmiðil, lýsti hæstv. landbrh. því yfir að hann hefði aldrei séð nein fylgiskjöl eða nein bakskjöl með stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar. Það hefði verið einhver bunki á borðinu hjá forsrh. í þingflokksherbergi Sjálfstfl. en hann hefði ekkert verið kynntur þingmönnum sérstaklega né heldur upp úr honum lesið.
    Nú hefur það komið fram að hæstv. utanrrh. vísar í eitthvert skjal sem er að hans dómi stefnuskjal í landbúnaðarmálum og ég vil þess vegna beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh. hvort hann sé ekki reiðubúinn að tala hér í stefnuumræðunni á eftir og svara þessum spurningum þar
svo að þessari þingskapaumræðu sé hægt að ljúka því að það veit hæstv. landbrh. manna best að þúsundir af bændum geta ekki beðið hvítu bókarinnar í haust til að fá svar við því hvort búvörusamningurinn verður virtur eða hvort út úr honum verða teknir nokkrir milljarðar í samræmi við það sem hæstv. utanrrh. hefur lýst yfir.
    Ég vænti þess að hæstv. landbrh. geti svarað því beint hér í ræðustól í þessari þingskapaumræðu hvort hann er reiðubúinn til að veita þessi svör í almennu umræðunni hér á eftir. Ef svo er, þá getur þingið tekið afstöðu til málsins.