Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti sagði það í sinni stuttu ræðu þegar hann tók við þessu vandasama embætti að hann mundi leggja sig fram um að sýna réttláta fundarstjórn í þingsölum og jafnframt gæta réttar þingmanna, hvort sem er um að ræða stjórnar eða stjórnarandstöðu og það mun hann leggja sig fram um að gera hér eftir sem hingað til. Ef um er að ræða að greiða fyrir því að þingmenn fái einhver skjöl sem þeim ber, þá mun forseti að sjálfsögðu leggja sig fram um að svo verði. En hér hefur verið beint orðum til hæstv. ríkisstjórnar, eins og forseti hefur nú þegar nefnt í þessari þingskapaumræðu, um að ríkisstjórnin leggi fram skjöl. Forseti hefur lagt á það áherslu að það hafi komið skýrt fram hver sú beiðni er og forseti treystir því að hæstv. ríkisstjórn muni leggja fram öll þau gögn sem henni ber að gera sé um eitthvað slíkt að ræða sem ekki hefur nú þegar verið lagt fram en er tilbúið til afhendingar. Og vonandi hefur nú forseti talað svo skýrt að hv. 2. þm. Vestf. muni gefa honum tækifæri til þess að sanna það hvort hann hefur verið verður þess og rísi undir því vandasama hlutverki sem hann er í hér í forsetastóli.