Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hef fulla samúð með hæstv. forseta í þeim erfiðu störfum sem hún hefur tekið sér á hendur og mun fyrir mitt leyti reyna að hjálpa henni hvað best ég get til þess að greiða úr þeim flækjum sem hér kunna að koma upp og vona að samstarfið verði hið besta.
    En það er mjög athyglisvert mál sem hér hefur komið upp satt að segja. Ég get nú ekki neitað því að ég hafði hugsað mér að segja ekkert frá því en geri það að gefnu tilefni að ég hef dálítið gaman af því.
    Það er þannig að fyrir nokkru var gert heiðursmannasamkomulag í Viðey. Það var um það að flytja verkefni frá þessum ráðherra hér, hæstv. landbrh., til þessa ráðherra hér, hæstv. umhvrh. Því var lýst yfir hátíðlega að þetta væri búið og gert og afgreitt. Það kallaði hæstv. forsrh. síðan oftúlkun. Svo kemur hæstv. utanrrh. hér fyrir nokkrum kvöldum og segir: Það hefur verið unnið sérstakt stefnuskjal um landbúnaðarmál sem lýsir landbúnaðarstefnunni betur en annað sem samið hefur verið um þau mál. Og hæstv. forsrh. er svo snjall að hann kemur hér upp fljótlega á eftir utanrrh. eftir að þessar þingskapaumræður hófust hér í dag og segir: Þetta er í raun og veru ekki stefnuskjal og þaðan af síður sérstakt. Þetta er í raun og veru bara plagg stjórnarflokkanna. Það er ómögulegt að vera að heimta það að menn birti plögg stjórnmálaflokkanna, sagði hann reyndar og ekki meira um það. Við héldum áfram og forsrh. þótti áfram gaman, sérstaklega að okkur fyrrv. ráðherrum Alþb. sem okkur þykir óskaplega skemmtilegt auðvitað að heyra. Núna heitir þetta ekki eitt plagg stjórnmálaflokks, hið sérstaka stefnuskjal. Hvað heitir það þá? Það heitir ekki oftúlkun heldur núna. Nei, það heitir ekki oftúlkun lengur. Heldur heitir það það að þetta plagg hafi ekkert með stjórnskipulegt gildi búvörusamningsins að gera. Þetta er penasta aðferð sem ég hef heyrt í þingskjölum til að lýsa því yfir að samráðherra einhvers sé ómerkingur í sínum yfirlýsingum því að hæstv. forsrh. er búinn að segja það með þessum skynsamlega hætti, snjalla hætti, og minnir mig reyndar á vissan forvera hans sem ég kann nú ekki við að nefna núna, að hafi ekkert með stjórnskipulegt gildi búvörusamningsins að gera.
    Með öðrum orðum, hæstv. utanrrh. er bara að blaðra. Ýmist er hann að oftúlka eða þá hann er að tala um einhverja og einhverja pappíra sem enginn hefur lesið eða þá að það sem hann segir og þeir pappírar sem hann er að tala um hafa ekkert með stjórnskipulegt gildi í þessu tilviki búvörusamningsins að gera. Þetta er auðvitað afar athyglisvert og sýnir betur en margt annað hvernig ástandið er í ríkisstjórninni. Til gamans má kannski geta þess að þessi stjórn á eins mánaðar afmæli á morgun, eins og kunnugt er kannski og sumir muna. Það er hætt við að hún brosi ekki á móti heiminum á mánaðarafmælinu sínu eins og mörg lítil börn gera, heldur verði hún stúrin og heldur luntaleg í framan. Þó hæstv. forsrh. finnist stundum gaman að fyrrv. ráðherrum Alþb. er

svo annað mál.