Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Þær umræður sem orðið hafa um stefnuræðu forsrh. hafa teygst á allmarga daga og er umræðan því orðin æði sundurlaus. Ég hafði ekki náð að svara öllum spurningum sem til mín hafði verið beint. Ég vil svara einni spurningu sem var beint til mín, ég hygg að það hafi verið á kvöldfundi, varðandi álmálið svokallaða. Það var spurt og vísað til þess að ég sem stjórnarmaður í Landsvirkjun hefði haft áhyggjur af því hvernig fyrirtækinu gæti reitt af við þau samningsskilyrði sem þá voru í undirbúningi og síðan var spurt hvað hefði breyst nú.
    Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að bæði ég og hv. 1. þm. Norðurl. v. höfðum vissar áhyggjur af því að áætlanir og útreikningar Landsvirkjunar á kostnaði við að byggja þær miklu virkjanir sem til þurfa að koma ef af samningum verður gætu verið of lágt metnar. Og ég get alveg sagt það hreinskilnislega að mér hefur stundum þótt, til að mynda í því starfi sem ég hef gegnt lengst af að undanförnu, að ágætir verkfræðingar og hönnuðir hafi haft tilhneigingu til þess, hugsanlega vegna áhuga fyrir verkum, að vera í lægri kanti áætlana. Við þekkjum mörg dæmi þess, til að mynda varðandi byggingarsjóð Þjóðleikhúss eða endurviðgerða þar.
    Við sögðum, bæði ég og hv. 1. þm. Norðurl. v., að það væri erfitt að sjá hvernig þessi staða væri fyrr en eftir að tilboð hefðu verið opnuð í meginþætti framkvæmdanna. Það hefur nú verið gert og niðurstaðan er afskaplega ánægjuleg fyrir Landsvirkjun og þá sem gjarnan vilja að þessir samningar geti gengið fram. Tilboðin, sem eru frá aðilum sem ætti vera óhætt að treysta að efndu þau tilboð sem þeir gera, eru þess eðlis að verkfræðingar, hönnuðir og ráðgjafar Landsvirkjunar hafa síst vanmetið kostnaðinn. Og sama gerist líka þegar tilboð í vélbúnað virkjana eru opnuð. Þessir þættir sem nú eru handfestanlegir skapa heilmikið öryggi varðandi þessa samningsgerð þótt menn geti deilt um það síðar meir hvort það sé nægjanlegt eða ekki. En þetta vildi ég nefna vegna þess að ég var spurður um það sérstaklega hvað hefði breyst. ( HG: En verðið, raforkuverðið?) Raforkuverðið hefur ekki breyst, en það hlýtur að hafa meginþýðingu hvort það verð, eða hlutfall af álverði eins og menn vita að er miðað við, dugar til þess að standa á tilteknum tíma undir þeim kostnaði sem Landsvirkjun þarf að leggja til þegar útboð hafa borið þann árangur sem ég var að nefna.
    Aðeins, þó að það skipti nú ekki öllu máli, þá vil ég líka geta þess vegna þess að hv. 8. þm. Reykn. gat sérstaklega um orð sem fallið hefðu á fundi með ráðherrahópi í ríkisstjórninni og samningamönnum Landsvirkjunar. Ég hélt nú reyndar að það væri ekki venja að vitna svona í ummæli manna á fundum af því tagi, en látum það nú vera ef það er venja. Að vísu kemur mér það á óvart ef svo er en reyndar var ekki alveg rétt með farið. Það var að vísu rétt varðandi hina rússnesku rúllettu að ég gat þess á þessum fundi að einn af okkar ráðgjöfum hefði kallað það svo, að

áhættan væri sú að það mætti líkja þessu við rússneska rúllettu. Það voru ekki mín orð. Þetta skiptir nú ekki öllu máli, en fyrst vitnað var í þetta, þá vildi ég hafa þetta rétt.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði hér í ræðu sinni áðan að ríkisstjórnin gengi þannig fram að menn gætu gert ráð fyrir að hún ætlaði almennt að draga í efa aðgerðir fyrri stjórnvalda og hafa þær ákvarðanir og aðgerðir að engu. Það er nú ekki svo og ég hlýt að leggja áherslu á það að samfelldni í stjórnskipun og stjórnarfari í landinu leiðir auðvitað til þess að menn eru bundnir, ekki síst gagnvart þriðja aðila, af því sem þeirra fyrirrennarar gera. Það er alveg ljóst. En á hinn bóginn getur stundum verið þannig staðið að málum að nauðsynlegt sé að grípa þar inn í eins og gerðist varðandi dómsmrn. þar sem á síðustu dögum fráfarandi stjórnar hafði þannig verið gengið fram að óviðunandi var. Ég held að það sé varla ágreiningur um það að með þeim hætti var gengið þar fram að úr því varð að bæta. Ég er sammála þingmanninum að auðvitað er nauðsynlegt þar sem stjórnir koma og stjórnir fara, að þær stjórnir sem við taka hverju sinni virði það sem fyrri stjórnvöld hafa staðið að, ekki síst gagnvart þriðja aðila.
    Þá vík ég aðeins að búvörusamningnum sem hefur verið reifaður hér. Auðvitað hlýtur það að hafa verið afskaplega óheppilegt að til slíks samnings hafi verið gengið, jafnyfirgripsmikils samnings hafi verið gengið á síðasta missiri fráfarandi ríkisstjórnar, stjórnar sem ekki var að hrökkva upp af tilfallandi, menn vissu að kjörtími hennar var úti, að þá skuli gengið frá samningi af þessu tagi þrátt fyrir það að yfirlýst sé að einn af burðarásum stjórnarinnar, einn stjórnarflokkurinn er með ríka fyrirvara um gerð samnings af þessu tagi. Það hlýtur að teljast afar óheppilegt að engu að síður skuli slíkt gert þegar um er að ræða jafnþýðingarmikinn samning fyrir báða aðila, bæði viðsemjanda ríkisins og ríkið, og jafnmikla bindingu til jafnlangs tíma eins og þar er um að ræða. Sá samningur er gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis. Spursmál er: Hvað felst í þessu? Þýðir þetta í raun almennur fyrirvari um samninginn allan eða bara tiltekna þætti hans sem þurfa lagabreytinga við? En mætti þá ekki segja um leið að þessar lagabreytingar hljóti eins og annað efni samningsins að vera slík forsenda samningsins að gangi þær ekki fram vegna þess að hið nýja Alþingi kjósi ekki að samþykkja lagabreytingarnar, þá sé samningurinn þegar úr gildi fallinn eða a.m.k. gæti viðsemjandi krafist þess að samningurinn væri úr gildi fallinn. Þýðir þá ekki þessi fyrirvari, þó almennur sé og auðvitað tengist því að það þarf lagabreyting til að koma til að saminginn megi efna eftir eðli hans og orðum, að samningurinn væri úr gildi fallinn ef þingið næði þessu ekki fram, því að fráfarandi ríkisstjórn gat auðvitað ekki skuldbundið Alþingi til þess, og reyndi það náttúrlega ekki, að samþykkja slíkar lagabreytingar, þannig að þarna er auðvitað á ferðinni gríðarlegur fyrirvari, því er ekki að neita.
    Varðandi þriðja atriðið sem hv. 4. þm. Norðurl. e.

nefndi varðandi það sem hann kallaði stuðningsaðgerðaþátt samningsins. Þar er um að ræða miklar fjárskuldbindingar. Auðvitað hlýtur ríkisstjórn sem tekur við völdum í landinu og þarf að huga að stórkostlegum halla ríkissjóðs að taka atriði eins og þetta til skoðunar. Ef niðurstaðan verður sú að ríkisstjórnin væri algerlega bundin af þessum þætti sérstaklega, þá gæti hún engu að síður tekið það atriði upp við viðsemjandann með skírskotun til þess ástands sem væri í ríkisbúskapnum. Það væri óhjákvæmilegt og í þágu landsins alls og þar með viðsemjandans, þjóðarinnar allrar, að draga úr eða fresta þessum þætti. Mér finnst það blasa við að þessir kostir séu færir.
    Varðandi það að ríkisstjórnin hafi eingöngu áhuga á lögfræðilegri hlið málsins, þá er það auðvitað ekki svo. En vegna þess hvernig hér var að staðið, til þessa samnings gengið þrátt fyrir að einn stjórnarflokkurinn hefði það sem ráðherrann fyrrv. kallaði smávægilega fyrirvara en talsmenn þess flokks leggja þyngri merkingu í eins og menn hafa tekið eftir, þá er nauðsynlegt að hafa sem gleggsta mynd af því hver lögfræðileg staða málsins er. Ég vildi að þessi sjónarmið mín kæmu fram varðandi þessi atriði.