Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það fór fyrir mér eins og fleirum undir ræðu hæstv. utanrrh. aðfaranótt þriðjudags að það vöknuðu ýmsar spurningar eins og hefur nú verið rætt um, bæði í umræðum hér á undan og eins þingskapaumræðu. En satt að segja kom mér þó enn þá meira á óvart yfirlýsing hæstv. forsrh. nú í hans síðustu orðum þar sem hann ómerkir algerlega ummæli hæstv. landbrh. sem hann lét falla hér í ræðu sinni á undan. Ég hlýt því að fara nokkrum orðum um þetta mál.
    Okkur var það öllum ljóst á síðasta vetri þegar búvörusamningur lá fyrir að hann hafði bæði bjartar og dökkar hliðar. En það var mat beggja aðila að samt sem áður væri ávinningur að því að hann væri gerður. Fyrir bændastéttina er það auðvitað alger forsenda að staðið verði við þær lágmarksskuldbindingar sem ríkið tekur þar að sér. Að öðrum kosti er hann bæði úr gildi fallinn og algerlega óviðunandi fyrir bændur. Við vitum það líka að framkvæmd á einhverju verki getur verið á ýmsa vegu og árangurinn fer eftir framkvæmdinni þó rammi hafi verið lagður.
    Þegar frá búvörusamningnum hafði verið gengið þá kom auðvitað að því að byrja á undirbúningi á framkvæmd hans. Formaður Stéttarsambands bænda óskaði þá eftir því að Búnaðarfélag Íslands ynni með Stéttarsambandinu að því verki. Ég fyrir mitt leyti taldi það auðvitað sjálfsagt. Það væri skylda og ávinningur allra sem þar eiga hlut að máli að reyna að gera það besta úr samningnum sem hægt væri. En ég taldi að það þyrfti að leita samstarfs við fleiri aðila, m.a. Byggðastofnun vegna þess að henni er ætlað að sinna vissu hlutverki í framkvæmd búvörusamningsins. Því áttum við viðræður við hana og þar var því máli vel tekið og Byggðastofnun hefur þegar hafið undirbúning að því að standa að þessu verki. Vegna jákvæðra yfirlýsinga hæstv. landbrh. sem nú er nýtekinn við og atbeina hans eftir að hann hafði gefið út fyrstu reglur um framkvæmd samningsins, þá var hafist handa við það starf. Í síðustu viku fóru fulltrúar bændasamtakanna ásamt skrifstofustjóra landbrn. til að kynna þeim sem að þessari framkvæmd eiga að standa, sem eru ráðunautar búnaðarsambanda um allt land, þetta mál. Það er auðvitað alger forsenda fyrir því að þeir geti staðið að því verki að þeir geti treyst því sem í samningnum stendur. Ekki það, eins og hæstv. forsrh. sagði, að það eigi nú allt að taka til endurskoðunar og niðurskurðar.
    Samningurinn byggist á því að sauðfjárbændum er ætlað að fækka bústofni sínum, en í staðinn skulu þeir studdir á margvíslega vegu til þess að finna nýjar atvinnugreinar. Fyrir bónda sem þarf að minnka sinn bústofn og draga úr sínum tekjum er það auðvitað úrslitaatriði að hann geti haft nokkuð rökstudda von eða vissu fyrir því að við fyrirheitin um stuðning við leit að nýjum möguleikum verði staðið. Að öðrum kosti hlýtur hann að gefast upp. Það er því alveg ótrúlegur misskilningur af hæstv. forsrh. að segja að nú megi taka þetta allt til endurskoðunar og niðurskurðar. Það

sé bara eðlilegt og sjálfsagt af ríkisstjórn að gera slíkt. Þetta er forsenda samningsins, þetta er undirstöðuatriði hans.
    Eftir að hæstv. landbrh. hafði lokið máli sínu ætlaði ég að segja það að þrátt fyrir hans góðu yfirlýsingar, sem ég vil þakka honum fyrir og heils hugar styðja hann við að nái fram að ganga, þá væri það hæstv. landbrh. nauðsynlegt vegna ummæla hæstv. utanrrh. að fá algerlega ótvíræða yfirlýsingu frá hæstv. forsrh. um að hann muni sjá fyrir því að við samninginn verði staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar. En svo kemur reiðarslagið. Í staðinn fyrir að hæstv. forsrh. standi nú við bakið á flokksbróður sínum, hæstv. landbrh., þá kemur hann og segir að ríkisstjórnin hljóti að taka stuðningsaðgerðirnar, sem eru alger forsenda samningsins, til endurskoðunar.
    Ég held að þessi orð hæstv. forsrh. hafi keyrt þetta mál í algert strand og ég sé ekki hvernig hæstv. landbrh. getur sætt sig við það að Alþingi fari heim án þess að fá einhvern stuðning við sína stefnu en fótunum sé ekki svo algerlega undan honum kippt.
    Ég held að við þurfum kannski ekki öllu lengur að spyrja hvað í þessu sérstaka stefnuskjali stendur sem hæstv. utanrrh. lagði svo mikla áherslu á og hér hefur orðið nokkuð tíðrætt um. Það hefur hæstv. forsrh. skýrt með orðum sínum. Og eins og ég sagði, þá taldi ég nauðsynlegt fyrir hæstv. landbrh. að fá stuðning forsrh. við orð sín vegna ummæla utanrrh. til þess að eyða óvissu og tortryggni hjá bændum vegna framkvæmdar þessa samnings. Og ekki bætir það reyndar úr skák sem fram kemur í forustugrein Alþýðublaðsins, málgagns ríkisstjórnarinnar, í dag þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þótt eðlilegt og sjálfsagt sé á stundum að leita álits og umsagnar hagsmunaaðila þessara atvinnugreina,`` þ.e. landbúnaðar og sjávarútvegs, ,,er óþarfi að andi þeirra svífi yfir, undir og allt um kring í hvert skipti sem málefni tengd þeim ber á góma.`` Nú skal ekki lengur andi landbúnaðarins svífa yfir og allt um kring þegar fjallað er um málefni landbúnaðarins. Nú á að taka upp breytta stefnu samkvæmt málgagni ríkisstjórnarinnar.
    Hér kom áðan fram að hæstv. ríkisstjórn er að láta kanna lagagildi búvörusamningsins. Ég vil taka undir að það væri ákaflega æskilegt að fá það álit nú í hendur. Kannski kemur hæstv. fjmrh. með það þegar hann flytur sína skýrslu hér á eftir og skal ég því lifa í voninni um að það komi fram þá. En hér var spurt um hver bæri ábyrgð á þessum samningi. Hæstv. forsrh.
virtist draga í efa hversu mjög ríkisvaldið væri bundið af þessum samningi vegna þess að í honum stendur að hann sé háður þeim fyrirvara að Alþingi staðfesti hann með því að samþykkja þau ákvæði sem þar eru nauðsynleg. En hann virðist alls ekki vita það að Alþingi er búið að staðfesta þennan samning með sínum samþykktum. Það gerði Alþingi á sl. vetri með 38. gr. lánsfjárlaga þar sem segir:
    ,,Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að stofna til skuldbindinga með útgáfu skuldabréfa á árinu 1991 að upphæð allt að 1.700.000 þús. kr. vegna samnings

landbrh. við bændur um fækkun fjár og aðlögun sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði, sbr. lög nr. 46/1985. Heimild þessi gildir þar til gerðar hafa verið nauðsynlegar lagabreytingar vegna framkvæmdar samningsins að öðru leyti.``
    Með því að samþykkja þessa fjárhæð og síðan að segja að þetta gildi þangað til nauðsynlegar lagabreytingar hafa verið framkvæmdar er Alþingi vissulega, ef ekki algerlega beint, þá a.m.k. óbeint búið að taka á honum ábyrgð.
    Það hittist svo á að í síðustu viku fékk ég í hendur stjórnarsáttmála ríkisstjórnar í öðru landi. Það er ríkisstjórn sósíaldemókrata og hægri flokksins í Austurríki. Þetta er bók upp á 85 blaðsíður sem skilgreinir ítarlega hvað sú ríkisstjórn vill og ætlar að gera. Ég lít ekki svo á að stjórnarsáttmáli sé fyrst og fremst til þess að binda viðkomandi stjórnarflokka að því hvað þeir ætla að gera, heldur a.m.k. ekki síður að láta þjóðina vita hvað viðkomandi ríkisstjórn ætlar að gera svo hún þurfi ekki að lifa í ugg og óvissu, eða svo að notuð séu orð hæstv. utanrrh. á fundi hjá Alþfl. fyrir skömmu síðan, að lifa milli vonar og ótta, þegar hann var að lýsa trú alþýðuflokksmanna á tilveru þessarar ríkisstjórnar.
    Í þessum langa stjórnarsáttmála er m.a. fjallað um landbúnaðarmál. Upphaf hans finnst mér vera athyglisvert fyrir okkur hér á Íslandi, m.a. vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram.
    ,,Ríkisstjórnin ítrekar stuðning við landbúnað og skógrækt í dreifbýli um allt Austurríki. Þjóðfélagið væntir þess að landbúnaður og skógrækt gegni margþættu hlutverki, verndi náttúrulegt umhverfi, hlúi að útivistarsvæðum, stuðli að eflingu byggðar og framleiði hágæðamatvæli, hráefni og orku. Ef landbúnaður og skógrækt eiga að rísa undir þessum verkefnum verður nauðsynlegt að móta tekjustefnu fyrir bændur sem tryggir þeim hlutdeild í vaxandi velmegun þessa lands. Ákveðnum aðgerðum er ætlað að stuðla að þessu marki. Þær ná til framleiðslu vara, aukinna tekjumöguleika, félagslegra aðgerða, aðlögunar velferðarkerfis og aðgerða til að draga úr kostnaði.``
    Hér kveður við nokkuð annan tón en í hinni stuttorðu stefnuyfirlýsingu eða í málflutningi málgagns ríkisstjórnarinnar, Alþýðublaðsins, um stöðu og virðingu fyrir landbúnaði. Þar er ekki verið að togast á um það hvort landið eigi að vera á forræði bænda eða ekki eins og núv. ríkisstjórn byrjaði strax með deilum umhvrh. og landbrh. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir afdráttarlausa afstöðu hans í því máli.
    En það var annað atriði í máli hæstv. utanrrh. á næturfundinum sem vakti athygli mína og mig langaði að víkja að örfáum orðum. Ég hefði að sjálfsögðu helst viljað að hann væri hér viðstaddur, en ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. . . . ( Gripið fram í: Hann á að vera hérna.) Það er nú verið að fjalla um stefnuræðu forsrh. ( Forseti: Það verða að sjálfsögðu gerðar ráðstafanir til að láta hann vita.) en þetta var svar hæstv. utanrrh. við fyrirspurn hv. 4. þm. Austurl. um samninginn milli EFTA og EB, þ.e. um þau áhrif sem sá samningur hefði á forræði löggjafarsamkomu einstakra þjóða.
    Hæstv. utanrrh. færði fram sína skoðun á því að hér væri ekki um að ræða neitt slíkt afsal sem þessi samningur hefði í för með sér. Hann sagði fyrst, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég nefni að það er áreiðanlega hægt að fara í öll þjóðþing EFTA - landanna og finna til einhver ummæli einhverra manna eins og t.d. á Alþingi Íslendinga um það að þar eru menn sem telja að þessi samningur feli í sér eitthvert framsal á valdi þjóðþinga. Það er hins vegar ekki afstaða þingmannasamtaka EFTA.``
    Ástæða þessara orða er sú að hv. 4. þm. Austurl. vitnaði í inngangserindi formanns þingmannasamtaka EFTA sem nú er Austurríkismaðurinn Schmidtmeier, inngangserindi sem hann flutti á fundi í síðasta mánuði. En drög að þessu erindi voru samin af starfsmönnum EFTA í Genf, aðstoðarmönnum framkvæmdastjóra EFTA, Georg Reiss, og þessi orð hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við hefðum hug á að sjá komið á fót þingmannasamkundu EES með virku ráðgjafar - og eftirlitsvaldi til þess að vega á móti minnkandi áhrifum þjóðþinga í lagasetningu sem eru að mestum hluta alþjóðleg.``
    Þetta er viðhorf starfsmanna EFTA sem vinna að þessu samkomulagi, að það hafi í för með sér minnkandi áhrif þjóðþinga í lagasetningu. En hæstv. utanrrh. virðist ekki vera kunnugt um þetta viðhorf, þá staðreynd að þetta er viðhorf þeirra starfsmanna EFTA sem í samningunum standa. Ég held að það sé því nauðsynlegt fyrir Alþingi Íslendinga að fá betri upplýsingar um þessi málefni úr því að hæstv. utanrrh. er alls ekki kunnugt um þetta. Ég efast ekkert um að hann mælir þetta af bestu þekkingu, en þekking hans virðist hins vegar ekki ná til þessara atriða. Ég held því að það væri full ástæða til þess að fulltrúar stjórnmálaflokkanna færu til fundar við starfslið EFTA sem þekkir þessa samninga til hlítar og veit hvað í þeim felst úr því að hæstv. utanrrh. er ekki kunnugt um efni þeirra.
    Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Ég sé að hæstv. landbrh. er farinn en sem betur fer heyrði ég að hann kvaddi sér hér hljóðs áðan. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir hann, eins og ég sagði áður, að fá aðra yfirlýsingu frá hæstv. forsrh. því ef það á að fara að skera niður fjármagnið sem á að koma til þeirra bænda sem ætla að gera samninga um fækkun á sínum bústofni þá er náttúrlega verið að koma aftan að þeim á slíkan hátt að alls ekki er viðunandi. Ég ætlaði t.d. að spyrja hæstv. landbrh., og rétt að gera það, hvort hafin væri vinna í landbrn. til að athuga hvernig þær 2 millj. kr. sem fyrirheit var gefið um að verja til landgræðslu og skógræktar mættu nýtast til þess að auka vinnu þeirra sem í sveitum búa. Þetta er mikil upphæð og skiptir miklu máli fyrir bændur að geta nú þegar þeir á næstu mánuðum, eða hefðu á næstu mánuðum við óbreyttar aðstæður gengið til samninga, að það lægi fyrir hvers þeir mættu þar vænta. Og þannig eru að sjálfsögðu fjölmörg atriði í sambandi við þessar viðaukabókanir. En með þá hótun sem fram kom hjá hæstv. forsrh. um að þetta verði allt saman tekið til endurskoðunar og niðurskurðar, þá er auðvitað gersamlega útilokað fyrir hæstv. landbrh. að ætla að láta halda áfram að vinna að þessu verki.