Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Áður en ég hef mál mitt langar mig aðeins til þess að fá upplýsingar um það hvort það sé ekki ætlunin að þingflokksfundir hefjist kl. 4 eins og efni standa til eða hvort einhver breyting er þar á. ( Forseti: Það er kl. 4 eða upp úr 4.) Mér er heldur verr við að þurfa að skipta ræðu minni svo að fá að tala hér í fimm mínútur. Ég ætlaði að tala hér nokkuð langt mál. Hér eru ekki inni í húsinu þeir aðilar sem ég vildi tala við og ég óska eftir að séu hér til viðtals þegar ég flyt mitt mál, bæði hæstv. utanrrh., ekki síður titlaður sem formaður Alþfl., og einnig hæstv. sjútvrh. Gjarnan mætti hæstv. iðnrh. vera hér einnig. Ég held að þessir menn þurfi að vera hér þegar við fjöllum um stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. En mér kæmi það betur að fá að tala í upphafi næsta fundar heldur en fá að tala hér í 3 -- 4 mínútur, virðulegi forseti. ( Forseti: Má ég upplýsa þingmanninn um það að ef hann getur lokið máli sínu kl. 4.15, þá væri það í lagi.) Það get ég ekki. Ég er með miklu lengra mál, virðulegi forseti, en það. ( Forseti: En gæti hv. þm. talað til kl. 4.15?) Við skulum sjá til. ( Forseti: Gerðu svo vel.) Ég hafði hins vegar óskað eftir því að hér yrðu viðstaddir mál mitt hæstv. ráðherra utanríkismála og formaður Alþfl. og einnig hæstv. sjútvrh. ( Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um að það er verið að leita þeirra.) Takk. Ætli ég hinkri þá ekki við í ræðustólnum á meðan. ( Forseti: Gerðu svo vel.)
    Það er nokkuð gallað að ráðherrar skuli ekki geta verið hér í sætum sínum þegar fjallað er um stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar, nánast sá eini sem situr hér stöðugt er hæstv. forsrh. ( HG: Þeir eru að leita að bakskjölunum.) Ég sá nú sjálfur rétt áðan staðarhaldarann í Viðey hér úti á götu þannig að það hefði nú verið hægt að færa það í tal við hann að fá lyklana að hirslunni og komast í þessa pappíra. Kannski er hann að sækja skjölin.
    Ætli ég láti þetta ekki duga í bili. Ég vona að formaður Alþfl. komi hér fljótlega, en hér er kominn hæstv. iðnrh. Ég vænti þess að ekki verði langt í það að formaður Alþfl. verði hér einnig í sæti sínu og ég hafði einnig beðið um það að hæstv. sjútvrh. yrði hér viðstaddur.
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þessi ríkisstjórn hefur lagt upp í ferð án mikilla fyrirheita og við heldur litla trú almennings í landinu. Ríkisstjórnarsamstarf þessara flokka frá árinu 1959 til ársins 1971 er mönnum enn í minni og ömurlegur viðskilnaður þeirrar stjórnar. Hæstv. ráðherrar Alþfl., þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson, hafa nú um sinn horft til þessara ára með vissum trega og söknuði þrátt fyrir að á þessum árum væri nær allur togarafloti landsmanna látinn drabbast niður og hverfa af skipaskrá og atvinnulíf landsmanna var eftir því. Engin tilraun hafði verið gerð á öllum þessum árum til að færa út fiskveiðilögsögu okkar og styrkja á þann hátt undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Það voru aðrir hagsmunir sem voru látnir sitja í fyrirrúmi.
    Þingmenn Alþfl. munu í þessu stjórnarsamstarfi

ganga að öllum verkum sem Sjálfstfl. vill, þó ekki væri nema af óttanum við þá sem kusu þá síðast en munu aldrei kjósa þá framar. Þetta vita sjálfstæðismenn í dag. Alþfl. má því fá eins marga ráðherra og hann vill. Hann má fá eins margar nefndir og hann vill, hann má fá eins mörg ráð og hann vill. Sjálfstfl. ætlar sér að ráða þessari örlagaferð Alþfl. Það verður hins vegar erfitt fyrir Alþfl. að binda svo hnúta eftir næstu kosningar að hann fái aftur tvo menn kjörna í fjárlaganefnd eins og hann var nú að semja um. Þjóðin ætlar nefnilega greinilega sjálf að sjá til þess að þar verði enginn fulltrúi Alþfl. eftir næstu kosningar.
    Það hefur margt gerst á fáum mánuðum frá því að þessir prúðbúnu kratar sem hér sitja ferðuðust um landið sem trúboðar og boðuðu þá nýju strauma og stefnu sem áttu að sameina alla jafnaðarmenn
á Íslandi í einn stóran jafnaðarmannaflokk. Þetta var aflið sem átti að beita gegn Sjálfstfl., höfuðandstæðingi jafnaðarstefnunnar eins og trúboðarnir sögðu hvert sem þeir fóru. Hér var hafður uppi, hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl., alveg ótrúlegur málflutningur og málatilbúnaður, ég segi ekki málaliðanna, til þess settur fram að ná því fylgi í komandi kosningum sem dygði Alþfl. til að geta gengið einn og óstuddur til stjórnarsamstarfs við Sjálfstfl. Svikamylla þessara hugsuða sem telja sig fulltrúa jafnaðarmanna á Íslandi gekk upp á kjördag, en nú hefur þjóðin áttað sig á lánleysi þessara manna.
    Þegar mánuður var liðinn frá kosningum var staða stjórnarflokkanna sú samkvæmt skoðanakönnunum að Alþfl. er að verða minnstur flokka hér á Alþingi og ríkisstjórnarflokkarnir eru komnir í greinilegan minni hluta hér á Alþingi. Skilja ráðherrar Alþfl. og fylgdarlið þeirra í þingflokknum ekki þessi skilaboð þjóðarinnar? Er það virkilega rétt að blái þríhyrningurinn sem ákveðið var að draga um rósina rauðu, flokksmerki þeirra krata, sé óbreytanlegt óhappaverk frjálshyggjudeildarinnar í Alþfl.? Stærstum hluta þess fólks er kaus Alþfl. í síðustu kosningum er nú orðið ljóst að flokkurinn þeirra og rósin rauða munu visna undrafljótt í hinum bláa þríhyrningi íhaldsins. Misvitrir menn hafa nefnilega höggvið að rótum Alþfl.
    Í þessu stjórnarsamstarfi sem ekki er nema mánaðar gamalt mega ráðherrar hafa sig alla við að verja það heiðursmannasamkomulag sem þeir hafa verið að gera. Er nú svo komið að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa eyðilagt þá góðu merkingu sem heiðursmannasamkomulag hafði, en það er nú notað almennt sem háðsyrði meðal þjóðarinnar.
    Hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. hefur sagt að hann verði ekki deginum lengur í þessu stjórnarsamstarfi ef vextir hækki, ef verðbólga hækki, ef ekki tekst að bæta kjör hinna lægst launuðu í landinu. Ég spyr formann Alþfl.: Eru vextir ekki að hækka? Ég sé ekki betur en útlánsvextir af verðtryggðum lánum fari nú í um 11%.
    Hæstv. viðskrh. telur sig aðeins hafa orðið varan við að örlað hafi á þenslu nú um sinn, en segir svo að þessi ríkisstjórn hafi ekki aðeins verið mynduð til

samdráttaraðgerða, ekki síður til að rjúfa kyrrstöðuna, eins og ráðherrann orðaði það. Eru þetta virkilega rök fyrir vaxtahækkun, hæstv. viðskrh.? Í stefnuræðu sinni segir hæstv. forsrh. m.a.:
    ,,Vitanlega er vaxtahækkun við núverandi aðstæður neyðarúrræði. Vextir voru háir fyrir og eru að sjálfsögðu til þess fallnir að tefja endurbata í atvinnulífi og geta reynst mörgum aðilum þungbærir.`` --- Og enn segir forsrh.: ,,Það er hins vegar eitt mikilvægasta verkefni hagstjórnar á næstunni að tryggja forsendur fyrir lækkun vaxta á ný. Vaxtalækkun getur haft mikla þýðingu til að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í þjóðarbúskapnum að undanförnu.``
    Málatilbúnaðurinn og málflutningurinn í þessu vaxtamáli er með algjörlega hreinum ólíkindum.
    Í Morgunblaðinu segir svo einnig í forustugrein 22. maí, með leyfi hæstv. forseta: ,,Eftir að Davíð Oddsson hafði rakið stöðu ríkisfjármála og efnahagsmála sagði hann að ríkisstjórnin hefði staðið frammi fyrir tveimur kostum, að hækka vexti eða hækka skatta, og valið fyrri leiðina. Sjálfsagt er vaxtahækkun óhjákvæmileg en það skiptir máli hve mikil hún verður og hvernig hún verður framkvæmd að öðru leyti. Þess má sjá merki að atvinnulífið er á leið upp úr öldudalnum þótt hægt fari. Of mikil vaxtahækkun getur orðið til þess að kæfa þá uppsveiflu í fæðingu. Sú vaxtahækkun sem nú hefur verið tilkynnt á spariskírteinum ríkissjóðs og nemur nær 2% er býsna mikil. Hætt er við að vaxtahækkanir banka og sparisjóða um næstu mánaðamót verði ekki minni. Þá eru raunvextir orðnir afar háir og með því hæsta sem þekkst hefur.``
    Mér er spurn: Trúa ráðherrar því að vaxtahækkun nú sé skref í þá átt að byggja upp íslenskt atvinnulíf? Á nú að taka þann efnahagsávinning frá atvinnurekstrinum sem hann hefur haft um sinn og færa til fjármagnsfurstanna í landinu? Á nú að fara að stefna framkvæmdastjórum fyrirtækjanna í landinu í biðsal bankastjóranna og lánastofnana þaðan sem fyrirtækjunum verður síðan meira eða minna stjórnað í stað þess að tryggja enn betur en nú er heilbrigt og heillandi atvinnulíf fyrir dugmikið fólk til að starfa við?
    Aukin fjármagnsbyrði í atvinnurekstrinum í landinu er fáránleg aðgerð í dag. Er virkilega svo komið fyrir þingflokki sjálfstæðismanna að þar séu menn svo rótslitnir frá atvinnulífinu í landinu að þeir láti þetta yfir sig ganga? Það eru vissulega breyttir tímar í þeim flokki og þar mættu menn muna tímana tvenna.
    Mér er það hins vegar ljóst að fjölskyldurnar fjórtán munu bæta hag sinn við þessar aðgerðir. Það er deginum ljósara. Það hefur verið séð til þess að launa þeim stuðninginn í síðustu kosningum. En unga fólkinu og hinum fjölskyldunum í landinu eru bundnir enn þyngri baggar með þessari ákvörðun.
    En athugum aðeins betur hvað stendur í stefnuræðu forsrh. um þetta mál. Þar segir: ,,Flokkarnir undirstrika báðir það meginverkefni að rétta hlut þeirra sem höllum fæti standa og hjálpa þeim til sjálfsbjargar.`` --- Ja, hver trúir þessu? Trúir því einhver að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verði til þess að auka

stöðugleika og draga úr þenslu? Trúir því einhver að vaxtahækkanir nú og aukinn fjármagnskostnaður verði til þess að bæta stöðu atvinnulífs og heimila? Trúir því einhver að þessar aðgerðir verði til þess að búa atvinnufyrirtækin í landinu betur í stakk til að standa að nýjum kjarasamningum og rétta þar hlut þeirra sem nú um sinn hafa setið eftir við gerð kjarasamninga? Trúir formaður Alþfl. því að þessar aðgerðir leiði til þess að hægt verði að bæta kjör þeirra lægst launuðu? Ég held að þessu trúi enginn nema ráðvilltir ráðherrar núv. ríkisstjórnar.
    Það vakti athygli mína þegar ég heyrði þær fréttir frá aðalfundi Vinnuveitendasambandsins hversu vonlitlir menn á því heimili eru um að takast megi að minnka það launabil sem nú er orðið á almennum vinnumarkaði. Það er áhyggjuefni ef þeir sem að þessum málum vinna telja sig ekki sjá þar færa leið. Það er alvarleg uppgjöf. Núv. ríkisstjórn er ekki treystandi til að leysa svo viðkvæmt mál.
    Ég spyr hæstv. utanrrh. og formann Alþfl. um loforðin þrjú. --- Ég vona að hann heyri máli mitt, hvað heldur virðulegur forseti um það? ( Forseti: Forseti vonar það líka en eins og hv. þm. veit þá er nú komið inn á þingflokksfundartíma svo það er kannski erfitt að halda mönnum hér inni í salnum af því að þingflokksfundir áttu að byrja kl. 4. En forseti mun að sjálfsögðu reyna að koma skilaboðum til hæstv. utanrrh.) Virðulegi forseti. Ég vakti máls á þessu áður en ég hóf ræðu mína. Ef það er svo að þingflokksfundir standa yfir á meðan þingfundir eru í deild þá óska ég eftir að gera hér hlé á máli mínu. ( Forseti: Eins og hv. þm. veit þá eiga þingflokksfundir að byrja kl. 4. Forseti veit að vísu ekki hvort menn bíða eftir því að geta hafið fundi meðan umræða er hér en það er það eina sem hann getur sagt að það er kominn tími á okkur að gera hlé á þessari umræðu. Ef hv. þm. á mikið eftir af sinni ræðu er kannski alveg eins heppilegt að fresta henni hér og nú nema ef hv. þm. er um það bil að ljúka henni.) Nei, ég er ekki um það bil að ljúka henni. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað að eitthvað af ráðherragenginu, hæstv. ráðherrum, yrðu nú hér inni, alla vega hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. Virðulegi forseti. Ég ætlaði að tala við hæstv. utanrrh.. Ætli hann sé ekki fáanlegur til að koma hér upp litla stund og sitja hér? ( Forseti: Það skal upplýst að það er nú þegar búið að gera ráðstafanir til þess að hæstv. utanrrh. komi í salinn.) Ég er nú alveg hissa á því hvað það gengur illa að fá ráðherra í þessa stóla eins og þeir virðast annars vera eftirsóttir, að menn skuli ekki tolla meira í þeim. Það hlýtur að vera eitthvað annað sem býr að baki. ( Forseti: Forseti verður nú að gera athugasemd við þetta vegna þess að honum finnst ráðherrar yfirleitt hafa setið hér þessa viku sem þessi umræða hefur staðið yfir meira og minna við umræðurnar. Það er svo með hæstv. forseta eins og hv. þm. að það kemur fyrir að þeir þurfi að bregða sér frá. Forseti vill endilega vekja athygli hv. þm. á því að hæstv. forsrh. hefur nær undantekningarlaust verið hér viðstaddur þessa umræðu.)

Já, enda gaf ég hæstv. forsrh. sérstakan hónor í upphafi míns máls fyrir það hvað hann hefði setið hér við þessa umræðu, en hann er nánast sá eini af ráðherrunum sem það hefur gert. En mér er ekkert að vanbúnaði að bíða. Nóttin er björt og eins og við segjum þá er gaman að vaka og þess vegna getum við hinkrað hér litla stund. ( Forseti: Vill nú ekki hv. þm. nota tímann og ræða það sem snýr að hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh.? Þeir eru báðir búnir að sitja hér.) Þeir eru búnir að sitja hér en þetta fer saman og það er erfitt að hafa ekki fulltrúa Alþfl. og ráðherra hér inni því þessi stjórn hefði aldrei orðið til nema fyrir tilverknað þeirra. Því það eru auðvitað þeir sem eru ábyrgðarmennirnir fyrir því sem við erum hér að ræða. --- Hér gengur í salinn hæstv. utanrrh. og ég biðst afsökunar á því að vera að raska ró hans.
    Ég var þangað kominn í máli mínu áðan að ég ætlaði að spyrja hæstv. utanrrh. og formann Alþfl. frekar út í loforðin þrjú sem hann hafði gefið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég vil þá spyrja hæstv. utanrrh. og formann Alþfl.: Hvað er Alþfl. tilbúinn að sitja við hátt verðbólgustig í þessari ríkisstjórn? Hvað er formaður Alþfl. tilbúinn að sitja við hátt vaxtastig í þessari ríkisstjórn og hvað er formaður Alþfl. tilbúinn að ganga langt til að jafna laun í þessu landi?
    Hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. hefur afdráttarlaust lýst því yfir að ef sá árangur náist ekki í þessum grundvallarmálum fari Alþfl. úr ríkisstjórninni. Því er það svo nauðsynlegt að ráðherrann tali alveg skýrt og milliliðalaust til þings og þjóðar í þessum þremur punktum.
    Á almennum fundi kratanna mun formaður þeirra hafa lýst því yfir að Alþfl. hafi lagt mikið kapp á það í stjórnarmyndunarviðræðum þessara flokka að Alþfl. fengi í sinn hlut sjútvrn. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir. Þá hafi verið gert heiðursmannasamkomulag milli formanna stjórnarflokkanna að setja á fót nefnd til að endurskoða fiskveiðistefnuna og gera tillögu til ríkisstjórnarinnar. Alþfl. fengi formann þessarar nefndar. Nú ber hæstv. forsrh. þetta til baka og segir nefndina skipaða með fullu jafnræði stjórnarflokkanna. Sjútvrh. skipi svo formann nefndarinnar en Alþfl. fær að gera tillögur um hann, en það fær Sjálfstfl. einnig ef ég hef skilið orð hæstv. forsrh. rétt.
    Eitt enn er nauðsynlegt að fá alveg skýrt fram. Er þessari nefnd aðeins ætlað það verk að samræma stefnu Alþfl. og Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum eða á hún að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða sem samþykkt voru á Alþingi 5. maí 1990? Í þeim lögum segir svo m.a., virðulegi forseti: ,,Þá skal ráðherra fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.`` Hér er um grundvallarmál að ræða. Er því mjög nauðsynlegt að allur vafi sé af tekinn. Ætlar ríkisstjórnin að ganga á svig við þessa samþykkt Alþingis?
    Hæstv. utanrrh. sagði í umræðunum þann 27. maí sl. að þessi nefnd ætti að koma með fullmótaða stefnu um breytingar á sjávarútvegsstefnunni, bæði hvað

varðar veiðar og vinnslu. --- Ég endurtek, fullmótaða stefnu um breytingar á sjávarútvegsstefnunni. Ég spyr því hæstv. sjútvrh.: Eru þessi ummæli hæstv. sjútvrh. sögð eins og úr hans munni eða er hér eitthvað ofsagt? Eða það sem verra væri, er eitthvað sem ósagt er í þessu máli? Er stefnan alls ekki skýr? Að þessu spyr ég hæstv. sjútvrh. og bið hann að tala skýrt í þessu máli.
    Vegna ítrekaðra yfirlýsinga ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna þurfa að fást mjög skýr svör ráðherra um hvort ætlunin sé einnig að breyta lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Svo samofin eru þau mál stjórnun fiskveiða að við því verða að fást svör.
    Í stefnuræðu forsrh. segir: ,,Taka verður ríkt tillit til ákvæðis í lögum um stjórn fiskveiða að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Þetta grundvallaratriði þarf að vera virkt,`` segir í stefnuræðunni. Hvað er hæstv. forsrh. að tala um, þar sem hann segir að þetta grundvallaratriði þurfi að vera virkt? Að hverju er hér látið liggja, hæstv. forsrh.?
    Í stjórnarmyndunarviðræðunum setti Alþfl. það fram sem kröfu að ríkið fengi um 5 milljarða kr. í tekjur af veiðileyfasölu. Því spyr ég hæstv. utanrrh.: Er þetta ekki rétt? Það er nauðsynlegt að um þetta fáist skýr svör og þá um leið um undirtektir Sjálfstfl. við þessum auðlindaskattstillögum Alþfl. Hafnaði Sjálfstfl. þessum tillögum? Það er því miður ekki ljóst, en við skulum vona að það hafi verið gert. Og hvaða kerfi eru menn að tala um að þurfi að vera virkt, ráðherrar góðir?
    Virðulegi forseti. Umræður um stefnuræðu forsrh. hafa orðið nokkuð langar, en þó er mjög margt enn ósagt í þeim efnum. Það vekur vissulega athygli mína hve lítið er sagt í stefnuyfirlýsingunni m.a. um iðnaðarmál. Ráðherra þeirra mála má ekki gleyma sér svo við samninga við erlend risafyrirtæki að íslenskur iðnaður beri tjón af. Ég sakna þess einnig að sjá ekkert í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar um íþrótta - og æskulýðsmál. Ég sakna þess að sjá ekkert um jafnréttis - og fjölskyldumál og ég sakna þess einnig að það er hvergi minnst á menningarmál og listir. Allt þetta og miklu fleira, hæstv. forseti, eigum við eftir að ræða hér áfram í kvöld.