Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Nokkru áður en umræðum um stefnuræðu var frestað í fyrrinótt var beint til mín spurningum um ákveðin efnisatriði varðandi mengunarvarnir í nýju álveri. Það gerðu hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson og hv. 8. þm. Reykn. Ólafur Ragnar Grímsson. Spurningar þeirra voru nánast samhljóða og raunar er það nú svo að svör við spurningum þeirra höfðu að nokkru komið fram fyrr um kvöldið í ræðu hæstv. iðnrh. En um það efni sem um er spurt skal þó þetta sagt:
    Fulltrúar umhvrn., mengunarvarnadeildar Hollustuverndar og iðnrn. hafa setið fundi í Þýskalandi með fulltrúum Atlantal-hópsins vegna starfsleyfis fyrir álver á Keilisnesi. Ég ætla ekki að tíunda hér í smáatriðum þau efnisatriði sem þar hafa verið til umræðu, en vil þó segja að í þeim umræðum hefur verið góður andi og ég lít svo á að samkomulag hafi tekist í öllum meginefnum
varðandi þessi mál. Ég tek þó fram að lokið er samtölum um þær umhverfisrannsóknir sem nauðsynlegt er að fari fram í grennd við Keilisnes og á þessu svæði. Um það verður rætt þegar fulltrúar samningsaðila okkar varðandi byggingu álvers koma hingað til lands eftir u.þ.b. fjórar vikur eða seint í júnímánuði.
    Ég ítreka það sem áður hefur verið sagt að í nýju álveri á Keilisnesi verða gerðar strangar kröfur um mengunarvarnir og á þeim staðið. Það verða gerðar ýtrustu kröfur og sambærilegar við það sem tíðkast í hliðstæðum nýjum iðjuverum í öðrum löndum.