Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Í morgun fór ég yfir alla þá umræðu sem fram hefur farið um stefnuræðu hæstv. forsrh. og fór m.a. yfir þá þætti sem hér hafa aðallega verið ræddir að undanförnu, t.d. um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Það var í raun og veru mjög athyglisverð yfirferð að virða það fyrir sér hvernig þessi mál hafa þróast í umræðunni og gjörbreyst frá því að umræðan hófst og þar til henni er u.þ.b. að ljúka.
    Ef við lítum fyrst á sjávarútvegsmálin þá koma þau mér svona fyrir sjónir, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi sagði Alþfl.: Við viljum sjútvrn. Alþfl. fékk ekki sjútvrn. Þá var hopað í það vígi á fundi, ég held hér í Reykjavík einhvers staðar, að Alþfl. hefði formann í nefnd sem ætti í raun og veru að móta sjávarútvegsstefnuna. Það dugði ekki heldur. Það var ekkert drengskaparsamkomulag á bak við það. Þá kom forsrh. hæstv. fram á sviðið og sagði í þriðja lagi: Það verður samráð um formann. Og þá kom fram í fjórða lagi hjá hæstv. utanrrh. og formanni Alþfl. að Alþfl. hefði allra náðarsamlegast tilnefningarrétt. Þannig að sjávarútvegsráðuneytisforusta Alþfl. hefur núna á þremur dögum eða svo breyst í tilnefningarrétt. Og það má segja að það sé út af fyrir sig nokkuð göfugt að sætta sig við lítinn hlut. En það er athyglisvert fyrir þann flokk sem ætlaði sér mikið í kosningabaráttunni í þessum málum og eftir kosningarnar, myndaði stjórnina að sögn til að breyta sjávarútvegsstefnunni í grundvallaratriðum, að allt talið, allar yfirlýsingarnar eru núna orðnar tilnefningarrétturinn einn.
    Það er líka mjög merkilegt, virðulegur forseti, að virða það fyrir sér að hæstv. utanrrh. hefur aftur og aftur sagt: Það á ekki að vera að hafa samráð við hagsmunaaðila í þessu máli. Það á ekki að láta þá ráða hlutunum. Stjórnarflokkarnir eiga að móta sína stefnu og ganga fram með hana. Hvað gerist síðan í því máli? Það að hæstv. sjútvrh., á síðustu klukkustund þeirrar umræðu sem fram fer um stefnuræðu forsrh., segir: Það á að mynda nefnd stjórnarflokkanna en það á líka að hafa samráð við hagsmunaaðila samhliða, ekki á eftir eins og hæstv. forsrh. var búinn að segja. Hann var búinn að lýsa því yfir að fyrst ætlaði stjórnin að móta sér stefnu og svo átti að hafa samráð. Nei, hæstv. sjútvrh. hefur alveg tekið af skarið í þessu efni sem betur fer og sagt: Það verður að vísu mynduð nefnd á vegum stjórnarflokkanna en samhliða verður unnið að málinu með hagsmunaaðilum og með sjútvn. þingsins. (Gripið fram í.) Eins og stendur í lögunum með skýrum hætti sem hæstv. utanrrh. hafði gefið í skyn að ætti að breyta. Þannig er nú hlutur þeirra alþýðuflokksmanna auðvitað orðinn alveg hverfandi lítill í þessu máli og von að þeir skuli allir vera farnir úr salnum. Er það vissulega í samræmi við þá fylgisþróun sem maður hefur séð hjá Alþfl. undanfarnar vikur. Það er ekkert eftir, það er ekkert eftir.
    Varðandi annað meginmál þessara umræðna, sem ég vildi aðeins fara hér yfir, vil ég segja þetta. ( Gripið fram í: Á ekki að auglýsa eftir Alþfl.?) Æ, ég veit

ekki hvort það tekur því. Ég ætla að auglýsa eftir landbrh. ( Gripið fram í: Hann er ekki í Alþfl.) Ég veit að hann er ekki Alþýðuflokkurinn. Ég vil samt fá hann. Hæstv. forseti, hvort mundi vera hugsanlegt að finna nokkurs staðar eins og einn landb.- og samgrh.? ( Forseti: Hann er skráður í húsinu og ég mun óska eftir að hann komi.) Já, það er fínt að fá hann.
    Varðandi sjávarútvegsmálin, meðan við hinkrum aðeins eftir landbrh., þá hefur það auðvitað líka komið mjög skýrt fram að hæstv. sjútvrh. hefur algjörlega vikið frá þessari veiðileyfasölu og skattlagningu á sjávarútveginum. Algerlega vísað því út í ystu myrkur. Það sem eftir stendur af hinum hátimbruðu yfirlýsingum Alþfl. í sjávarútvegsmálum er tilnefningarréttur á formanni. Það er reisn yfir þessu, það er reisn yfir þessu, virðulegur forseti. ( Gripið fram í: Það er vafi á því öllu.) Með tilnefningarréttinn? ( Gripið fram í: Já.) Þá fer nú að fjúka í flest skjól. En þá sé ég að birtist hér í dyrunum vinur minn hæstv. landbrh., 2. þm. Norðurl. e., og ég vildi aðeins víkja að þeim málum.
    Þau ganga þannig fyrir sig í þessari stefnuumræðu, sem hefur staðið í tvö og hálfan eða þrjá sólarhringa eða svo, sem sýnir hvað ríkisstjórnin er nú stefnuföst að hún getur ekki haldið sömu stefnunni út heila stefnuumræðu, að það byrjar á því að hæstv. forsrh. segir: Hér verður fylgt óbreyttri stefnu í landbúnaðarmálum. Það var í fyrstu ræðu. Það kom að vísu fram í ræðu hæstv. utanrrh. að hann hafði ekki lesið þá ræðu áður en hún birtist, sem er nú ákaflega athyglisvert. Látum það vera. Síðar í umræðunni segir hæstv. utanrrh., þessi með tilnefningarréttinn í sjávarútveginum: Það liggur fyrir mikilvægt stefnuskjal í landbúnaðinum. Það hefur verið unnið mikilvægt stefnuskjal í landbúnaðinum um að taka á landbúnaðarmálunum. Síðan hlupum við í það hér nokkrir í dag að auglýsa eftir þessu stefnuskjali og það bólaði ekkert á því. Enda kom hæstv. forsrh. og bætti um betur, það er þriðja skrefið á þessari vegferð, og sagði: Þetta er svo sem ekkert stefnuskjal, þetta er eins og hver önnur plögg stjórnmálaflokka. Síðan, þegar saumað var að ráðherrunum aðeins frekar þá sagði hann: Þetta skjal hefur ekkert stjórnskipulegt gildi. Síðan kemur hæstv. landbrh., ég kann nú ekki við að hæla honum eins mikið og ég vildi vegna þess að ég er viss um að það mundi koma honum illa. Hann segir: Búvörusamningur, takk. En þá gerast hér mikil undur í salnum. Sessunautur hæstv. forsrh. fer að ókyrrast mjög verulega og forsrh. tekur sig upp og flytur eina ræðuna til, en hann hefur flutt hér fleiri ræður en nokkur annar maður í þessum umræðum. Og hvað segir hann? Hann segir, eins og hv. 2. þm. Suðurl. benti á áðan: Það er fyrirvari um stuðningsaðgerðirnar í búvörusamningnum. Það eru ekki lítil tíðindi, virðulegur forseti.
    Hverjar eru stuðningsaðgerðirnar í búvörusamningnum? Hvað er þar verið að tala um? Þar er verið að tala um hvorki meira né minna en allar forsendur þeirra ákvarðana sem hæstv. landbrh. tók og sendi út með bréfi 11. maí sl., þar sem birtast starfsreglur um

kaup ríkissjóðs á fullvirðisrétti í sauðfjárframleiðslu samkvæmt 1. hluta aðlögunar. ( Landbrh.: Var tryggilega gengið frá samningum í síðustu ríkisstjórn?) Það var eins og mögulegt var miðað við þá bandamenn sem við vorum með og þú átt nú eftir að kynnast betur, hæstv. ráðherra. Nema hvað, þetta skjal er sent út. Það er sent til bænda og allra hlutaðeigandi aðila og nú á að fara að vinna eftir þessu skjali. Hvað gerist þá? Þá gerist það að hæstv. forsrh. kippir hinni hliðinni undan þessum samningi sem er stuðningsaðgerðirnar og allar bókanirnar sem fylgja búvörusamningnum. Það gerir hann með þeim orðum sem hann hafði fyrr í dag að það væri fyrirvari um stuðningsaðgerðirnar.
    Hverjar eru þessar stuðningsaðgerðir? Þær birtast í viðauka II með búvörusamningnum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, Jarðasjóð, Byggðastofnun og Lífeyrissjóð bænda. Þær snerta þætti eins og vaxta- og geymslugjöld, verðlagningu, viðskipti með fullvirðisrétt og greiðslumark, rannsóknir og leiðbeiningar, ný atvinnutækifæri, skattamál, landgræðslu og skógrækt, vandamál ungra bænda sérstaklega. Allir þessir þættir eru þá núna undir fyrirvara frá hæstv. forsrh.
    Auðvitað geta menn skipst á skoðunum og orðum í þessum virðulega sal undir ýmsum formerkjum og oft haft gaman af því sem hér er að gerast eins og gengur, sem betur fer, annars væri ekki líft hér. En þannig háttar til með mál eins og þetta að hér er verið að tala um kjarasamning sem snertir heila stétt, samning sem gerður er af ríkinu annars vegar og bændastéttinni hins vegar. Og það er mikið alvörumál af forsrh. landsins að segja: Það er fyrirvari við alla hina hlið samningsins.
    Hæstv. forsrh. benti á í ræðu sinni fyrr í dag að búvörusamningurinn væri undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis við nauðsynlegar lagabreytingar. Hvað þýðir sá fyrirvari? Hann þýðir það að þeir sem að samningnum standa og greiða honum með einhverjum hætti atkvæði á Alþingi eru að taka á sig pólitíska ábyrgð á því að samningurinn verði framkvæmdur. Hverjir hafa tekið á sig þessa pólitísku ábyrgð nú þegar? Allir þeir flokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi með því að greiða atkvæði með lánsfjárlögunum fyrir tveim mánuðum eða svo. Með því að lánsfjárlögin kveða á um tiltekna þætti í þessum efnum upp á 1,7 milljarða, ef ég man rétt, þá er það þannig eins og hv. 2. þm. Suðurl. sagði fyrr í dag að það er litið þannig á að Alþingi sé búið að taka ábyrgð á búvörusamningnum. Og ég bendi á í þessu sambandi að hv. 2. þm. Suðurl. gegnir mjög mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir bændastéttina í landinu þannig að það er vert að veita orðum hans í þessu sambandi sérstaka athygli.
    Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég tel það algerlega óhjákvæmilegt út af þeim orðum sem féllu hjá hæstv. forsrh., þar sem hann setur fyrirvara við helminginn af búvörusamningnum í raun og veru, að þetta mál verði rætt nánar. Við alþýðubandalagsmenn fyrir okkar leyti áskiljum okkur allan rétt til þess, hvort sem það gerist undir umræðunni um ríkisfjármál hér síðar í dag eða með öðrum hætti, en það er algerlega nauðsynlegt að þessu þingi ljúki ekki án þess að ríkisstjórnin hafi gert þetta mál alveg skýrt. Stendur hún að búvörusamningnum eða ekki? ( Gripið fram í: Og bakskjölin?) Ég tel satt að segja að ef þinginu lýkur án þess að þetta mál verði gert hreint sé framkvæmdin á fyrsta þætti aðlögunar búvörusamningsins í raun og veru öll í uppnámi. Það er ekki hægt að stefna bændastéttinni og öðrum aðilum þessa máls inn í algera óvissu sumarsins, það er ekki hægt að ljúka þinginu, þessu stutta þingi, öðruvísi en að á þessum málum verði tekið. Nú gæti farið svo að hæstv. landbrh. væri tilbúinn til að manna sig upp í það að mótmæla þessum fyrirvara hæstv. forsrh. En eins og málið liggur núna er það því miður í uppnámi út af þessum yfirlýsingum hæstv. forsrh.
    Það sem liggur því fyrir, virðulegi forseti, í þessum tveimur stóru málum, annars vegar landbúnaðarmálunum og hins vegar sjávarútvegsmálunum, er þetta: Það virðist vera bullandi ágreiningur á milli flokkanna um efnistök í báðum málunum. Það virðist vera verulegur ágreiningur innan Sjálfstfl. í báðum þessum málaflokkum, verulegur ágreiningur. Það sem liggur hins vegar fyrir er það að hæstv. sjútvrh. hefur tekið af skarið í sjávarútvegsmálunum varðandi efnistök þeirra af fullri reisn andspænis yfirlýsingum forsrh. og utanrrh. Hæstv. landbrh. hefur hins vegar ekki treyst sér til að ganga fram með þeim hætti sem nauðsynlegt er gagnvart yfirlýsingum forsrh. í landbúnaðarmálum. Þess vegna hljóta þau mál að verða hér til umræðu, annaðhvort undir umræðunum um skýrslu fjmrh. eða með einhverjum öðrum hætti. Við alþýðubandalagsmenn hljótum að áskilja okkur allan rétt í þeim efnum.
    Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að þó að stefnuumræða þessarar ríkisstjórnar hafi hafist með býsna dauflegum hætti og heldur svona undanrennukenndri ræðu hæstv. forsrh., þá hafi hún nú þróast þannig að hér sé að mörgu leyti um afar fróðlega umræðu að ræða. Það hefur komið í ljós að Alþfl. hefur orðið að bakka talsvert mikið í ýmsum málum. Það hefur komið í ljós að ríkisstjórnin hefur a.m.k. á yfirborðinu breytt um stefnu svo að segja frá degi til dags í þessum málum. Ég held að þó að kverið bláa sé þunnt væri kannski full ástæða til þess að menn læsu það enn þá betur og hefðu þá til hliðsjónar þessa stefnuumræðu vegna þess að ég hygg að hún verði betri minnisvarði um upphaf þessarar ríkisstjórnar en flest annað því það rekur sig hvað á annars horn.