Ríkisfjármál 1991
Miðvikudaginn 29. maí 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú mælt fyrir skýrslu um fjármál ríkisins og gert glögga grein fyrir því ástandi sem þar er við að etja. Þar kemur fram, eins og vænta mátti, hrikaleg arfleifð frá fyrri ríkisstjórn sem núv. hæstv. ríkisstjórn verður að taka á sínar herðar og ráða fram úr í fjármálum ríkisins.
    Í sjálfu sér er ekki ástæða til að margítreka það sem oft hefur komið fram úr þessum ræðustól um þessi efni en mér þykir þó rétt að segja hér um þessi efni fáein orð. Ég hafði kvatt mér hljóðs undir umræðum um stefnuræðu forsrh. en í þær umræður blandaðist einnig að nokkru umræða um fjármál ríkisins eins og kannski var ekkert óeðlilegt og í sjálfu sér hefði ekki farið illa á því að þessir tveir dagskrárliðir hefðu verið ræddir samtímis. Ýmislegt í þeim umræðum var auðvitað þess efnis að það hefði verið ástæða til að gera athugasemdir við. Annað var einnig athyglisvert af öðrum toga, til að mynda það að sumir af forustumönnum fyrrv. ríkisstjórnar viðurkenndu að það hefði hallast mjög á merinni í efnahagsstjórninni og í stjórn ríkisfjármála á síðari hluta stjórnartímabilsins. Þetta viðurkenndu m.a. bæði formaður og varaformaður Framsfl., þeir hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson. Aðrir slógu nokkuð úr og í í þessum efnum, m.a. hv. 1. þm. Norðurl. e. sem sagði á þá leið að tími núv. hæstv. ríkisstjórnar hefði verið notaður til þess að draga upp ranga mynd af ástandi þjóðmála um leið og hann í hinu orðinu viðurkenndi að nokkuð hefði farið úrskeiðis í efnahagsstjórninni á síðustu mánuðum þeirrar ríkisstjórnar sem nýlega hefur kvatt.
    Ég held að engum hafi komið á óvart að þeir sem forstokkaðastir voru við það að verja það ástand sem nú blasir við í þessum efnum voru auðvitað talsmenn Alþb. Ég tók eftir því t.d. að hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon lét þess getið að viðskilnaður fyrrv. ríkisstjórnar væri sá besti sem nokkur ríkisstjórn hefði látið eftir sig í fjölda ára, í marga áratugi. Hann tók sérstaklega til samanburðar viðreisnarstjórnina, sem lauk sínum ferli 1971, og sagði að æ síðan hefði orðið viðreisn verið skammaryrði. Þessi hv. þm. sagði að í tíð viðreisnarstjórnarinnar hefði verið einstakt góðæri til sjávarins og tekjur í þjóðfélaginu miklar en þrátt fyrir það hefði það farið svo að viðskilnaðurinn hefði verið með þeim hætti sem áður er lýst að orðið viðreisn væri æ síðan skammaryrði. Ég held að hv. þm. þurfi að endurskoða sína söguþekkingu. Ef söguskoðun þessa hv. þm. er með þessum hætti þá er eitthvað meira en lítið bogið við það sem hann hefur lesið sér til um því tæplega hefur hann fundið þetta upp hjá sjálfum sér þó að ég skuli ekki um það segja.
    Ég ætla ekki að dvelja lengi við þetta sögulega atriði en vil þó minna á það að á árunum 1967 og 1968 töpuðu Íslendingar, og þarna gengur nú þessi hv. þm. í salinn sem var að fara nokkrum orðum um viðreisnarstjórnina sálugu, 40% af sínum útflutningstekjum vegna þess að sjávarafli brást og viðskiptakjör

versnuðu.
Þetta var það sem þessi hv. þm. kallaði alveg einstakt góðæri til sjávarins á þeirri tíð. Samt fór það svo að þegar sú stjórn lauk sínum ferli var verðbólga nálega engin. Þá var jöfnuður í ríkisfjármálum. Þá var jöfnuður í viðskiptum við útlönd og þá voru skuldir þjóðarbúsins litlar. Að vísu hafði orðið að taka nokkur erlend lán til að komast yfir erfiðleikaárin 1967 og 1968, en skuldir þjóðarbúsins voru þó tiltölulega mjög litlar og efnahagslegt jafnvægi ríkti á flestum sviðum þjóðlífsins.
    Ég held að þessi hv. þm. Alþb. og þeir alþýðubandalagsmenn aðrir sem ætla sér að fara í söguskoðun af þessum toga ættu að gera það einhvers staðar annars staðar en hér því að þeim mun verr mun þeim gegna sem þeir fara að sækja samanburð við þessa stjórn sem nú hefur nýlega skilið við hér á landi, samanburð við aðrar og fyrri stjórnir og þá allra helst við viðreisnarstjórnina. Þetta var því alger fjarstæða sem þessi hv. þm. hélt fram og það var jafnframt alger fjarstæða að staðan við stjórnarskiptin nú væri með þeim hætti sem hann lýsti.
    Í þeirri skýrslu sem hæstv. fjmrh. hefur hér mælt fyrir eru upplýsingar eins og fram kom í hans máli. Þar eru notuð hófsöm orð og þar eru notaðar, mér liggur við að segja, einnig hófsamar tölur því þar er afar varlega farið með hvort tveggja. Hefur þó sjaldan verið tilefni til að taka sterkt til orða eins og nú er við stjórnarskipti í vor eftir þann hraklega viðskilnað sem fyrri ríkisstjórn skilur eftir sig varðandi fjármál ríkisins.
    Ég hef tekið eftir því að ýmsir stjórnmálamenn hafa tekið svo til orða að þessi staða í fjármálum ríkisins hafi komið á óvart. Ég hlýt að segja það hér að hún kom ekki mér á óvart. Margsinnis í umræðum um fjármál ríkisins hér á síðasta þingi rakti ég þessi mál lið fyrir lið. Og niðurstaðan varð æ hin sama. Hún varð sú að það var við hrikalegan vanda að etja í fjármálum ríkisins sem yrði mesta og helsta vandaverk nýrrar ríkisstjórnar að fást við þegar hún tæki við völdum. Ég ritaði um þetta nokkrar greinar í Morgunblaðið og þó að ýmislegt hafi versnað síðan, þá standa allar þær upplýsingar sem þar koma fram. Og ekkert af því sem síðan hefur gerst kemur mér í raun á óvart utan það að ég hafði ekki upplýsingar um að staða á lánsfjármarkaði hafði versnað svo mikið sem raun ber vitni um og lýst hefur verið hér til að mynda af hæstv. fjmrh.
    Það sem gerðist fyrir kosningar í þessum efnum og í þinglokin var auðvitað það að hæstv. fyrrv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. ríkisstjórn gaf á garðann helst til ótæpilega og dreifði út heimildum, dreifði út fjármunum og tók ákvarðanir um fjárskuldbindingar og lántökur sem áttu að koma til gjalda á næsta kjörtímabili, þ.e. á því kjörtímabili sem nú er hafið. Og þetta var gert í gríðarlega miklum mæli. Þessi leikur hæstv. ríkisstjórnar sem þá sat hófst með því að þáv. hæstv. fjmrh. bauð allt í einu tvo milljarða til fjárfestingar umfram fjárlög og umfram það sem tillögur lágu fyrir um í lánsfjárlagafrv. sem þá var raunar óafgreitt.

    Allt í einu bauð hæstv. fjmrh. til fjárfestingar í landinu tvo milljarða rétt fyrir kosningar. Og svona til þess að sýna fram á hvaða tala þetta er, þá eru allar fjárveitingar til að mynda til hafna í landinu samkvæmt fjárlögum eitthvað um 500 millj. Hann bauð sem sagt bara svona allt í einu fjórum sinnum þá tölu, enda var að draga að kosningum. Þó að þessu væri þá hafnað af samráðherrum hans, þá fór það svo að næstum því sú tala varð staðreynd þegar dregnar höfðu verið saman þær nýju lántökuheimildir og þær nýju fjárskuldbindingar sem ákveðnar voru við afgreiðslu á lánsfjárlögum. Það kemur enda í ljós í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu að staðan í fjármálum ríkisins hefur versnað ef skuldbindingar eru teknar með um í kringum 10 milljarða kr. frá því að þingi lauk.
    Nú veit ég að þeir sem sátu hér á síðasta Alþingi og auðvitað flestir aðrir sem hér eiga nú sæti kannast við ýmislegt af því sem hæstv. fyrrv. fjmrh. sagði gjarnan í umræðum um ríkisfjármál á síðasta kjörtímabili. Hver man ekki orðaleppa eins og þá sem fylgdu hverju nýju fjárlagafrv. að frv. væri hornsteinn stöðugleika og jafnvægis í fjármálum ríkisins? Hver man ekki eftir því að hver fjárlög þessa ráðherra áttu að móta ramma um efnahagslífið sem allir aðrir aðilar í þjóðfélaginu áttu að laga sig að? Hver man ekki eftir því að hver ný fjárlög áttu að mynda grundvöll að nýrri hagstjórn á Íslandi? Og hver man ekki eftir því að þessi hv. þm. sem hér gengur um gólf og þá var fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, lét þess getið að allt hið jákvæða sem áunnist hefði í efnahagsmálum þjóðarinnar, þar á meðal þjóðarsáttin, hefði náðst vegna þess að grundvöllurinn hefði verið lagður í fjármálum ríkisins og í stjórn ríkisfjármála? Þessar fullyrðingar glumdu aftur og aftur frá munni þessa hv. þm. sem þá var í sæti ráðherra.
    Þetta muna allir þeir sem þá sátu hér á Alþingi. En það vita allir nú að allt var þetta rangt. Það vita allir nú að allt þetta var blekking. Það vita allir að ríkisfjármálin og meðferð þeirra hjá fyrri ríkisstjórn lögðu ekki grundvöll að stöðugleika heldur voru ríkisfjármálin og meðferð þeirra mesta ógnin sem þjóðarsáttin stóð frammi fyrir og stendur enn frammi fyrir og mesta ógnin sem efnahagslífið í heild stendur frammi fyrir við stjórnarskiptin.
    Enn fremur eru ríkisfjármálin og meðferð þeirra á síðasta kjörtímabili mesta ógnin við lífskjör fólksins í landinu. Þetta eru þær staðreyndir sem fyrir liggja og enginn blekkingaráróður hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. fjmrh., getur komið í veg fyrir það að fólkið í landinu viti þessar staðreyndir.
    Víst er hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mikill íþróttamaður í sinni list, sínum blekkingaleik. Hann hafði líka sér til aðstoðar hæfa menn til þess að hjálpa sér við að búa út blekkingaleikinn. Þessi hæstv. ráðherra sem þá var, núv. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hafði í sínu ráðuneyti þrjá pólitíska aðstoðarmenn, þrjá pólitíska vildarmenn sína. Hann átti rétt á samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands og samkvæmt reglugerð við stjórnarráðslögin að hafa einn pólitískan aðstoðarmann og það skal ekki gagnrýnt að

svo var. En hann réð sér aðra tvo pólitíska vildarmenn, annan sem kallaður var efnahagsráðgjafi fjmrh. og hinn sem kallaður var upplýsingafulltrúi fjmrh. Hvort tveggja pólitískir vildarmenn þáv. hæstv. fjmrh. ráðnir í fjmrn. án heimildar laga og með þeirri ráðningu voru lög um Stjórnarráð Íslands brotin og reglugerð við stjórnarráðslögin einnig þverbrotin. Þó að þetta væri rakið fyrir þessum hæstv. ráðherra sem þá var og þeirri ríkissstjórn sem þá sat var það eins og að skvetta vatni á gæs. Aðrir ráðherrar í þeirri ríkisstjórn og stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar létu það sem vind um eyrun þjóta þó að fjmrh. þeirrar ríkisstjórnar færi þannig með lög landsins og misnotaði aðstöðu sína til þess að ráða pólitíska vildarmenn sína til þess að búa út áróðursplöggin sem hann dreifði til þjóðarinnar. Þessir vildarmenn hæstv. þáv. ráðherra, núv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, voru helstu aðstoðarmenn hans við að búa út þann blekkingaáróður sem dreift var til þjóðarinnar og dreift var hér á Alþingi alla hans tíð, m.a. þeirra gagna sem á kostnað þjóðarinnar var dreift í kosningabaráttunni.
    Þessum meisturum öllum, sem að sjálfsögðu eru íþróttamenn í sínu fagi, tókst í kosningabaráttunni án efa að villa um fyrir verulegum þorra kjósenda um að staðan í ríkisfjármálum og að stjórnartökin í fjármálum ríkisins hefðu verið með allt öðrum hætti en raun bar vitni um. Þeir gátu ábyggilega fengið þorra kjósenda til þess að trúa því að hér hefði verið unnið stórvirki, hér hefði verið lagður grundvöllur jafnvægis og stöðugleika í fjármálum ríkisins, lagðir nýir og nýir hornsteinar og allt hvað heiti hefur. Allt var þetta gert á kostnað skattborgaranna. Allt var þetta gert með aðstoð manna sem ráðnir voru án lagaheimildar. Þetta kalla ég ekki einungis að fara á svig við lög heldur að misþyrma því siðferði sem við verðum að leitast við að hafa í heiðri í stjórnarathöfnum á Íslandi. Þannig eru eftirmæli sem þessi hæstv. fjmrh. fyrri ríkisstjórnar fær.
    Ég skal ekki spá um það hvað þessi blekkingaáróður hefur þýtt í atkvæðatölum í kosningunum. En það er ekkert ótrúlegt að með slíkum aðferðum hafi Alþb. dregið upp úr atkvæðakössunum 1 -- 2 þingmenn. ( SvG: Hvað ertu að segja um kjósendur með þessu?) Ég er að segja það að blekkingameisturum Alþb. tókst að blekkja þjóðina og hv. þm. Svavar Gestsson ber fulla ábyrgð á því. ( SJS: Er þjóðin svona vitlaus að þínu mati?) Einhverjir eru það, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Og ég hef oft undrast það, m.a. í umræðum hér um stefnuræðu forsrh. hversu mikið rugl getur komið út úr þessu gáfulega höfði hv. þm. Steinsgríms J. Sigfússonar því að ég hefði aldrei trúað því fyrir fram að svo mikið rugl gæti komið út úr þessum manni eins og ég hef sumpart lýst hér og eins og hann hefur dengt hér yfir þingheim á undanförnum dögum.
    Það liggur auðvitað fyrir hér í skýrslu hvernig þessi staða er og ég þarf ekki að fara um það mörgum fleiri orðum, en dæmið horfir þann veg við að þegar fjárlög voru afgreidd voru þau afgreidd með 4 milljarða halla. Fjmrh. sagði þann 29. apríl að hallinn mundi verða að óbreyttu 6,4 milljarðar. Fjmrn. sagði á sama tíma að hallinn yrði 8 milljarðar og Ríkisendurskoðun sagði á sama tíma að hallinn mundi verða að óbreyttu 12,2 milljarðar. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur gert því skóna að hallinn verði án aðgerða 9 -- 10 milljarðar kr.
    Ég vil gjarnan rifja það upp að þegar fjárlög voru afgreidd fyrir síðustu jól með rétt rúmlega 4 milljarða halla, þá lýsti ég því að það væri mitt mat að raunverulegur halli á fjárlögunum eins og þau lágu þá fyrir væri eigi minni en 7 milljarðar. Ég lýsti því og greindi það í sundur eftir einstökum gjaldaliðum í hverju þetta væri fólgið og ég rakti einnig að tilteknir þættir í tekjuáætlun fjárlagadæmisins væru þannig úr garði gerðir að þeir væru á afar veikum forsendum reistir, enda var þá skákað tölum niður á blað við lokaafgreiðslu fjárlaga sem ekki voru í samræmi við það sem sérfræðingar fjmrn. höfðu látið í ljós nokkrum dögum áður. Það kemur enda í ljós að miðað við núverandi áætlanir er gert ráð fyrir að um 800 millj. kr. vanti á að tekjuhliðin standist.
    Ég vil láta þess getið að ég sagði að hallinn yrði eigi minni en 7 milljarðar og það mat mitt var varlegt. Raunverulegt mat mitt var 8 milljarðar. Ég vildi hafa borð fyrir báru að nefna heldur lægri tölu en þá niðurstöðu sem ég komst að í raun og veru. Það sem síðan hefur gerst skilar þessu áfram á þann veg að hallatölur eru hærri en það sem ég þá hafði áætlað. Samanlagður halli ríkissjóðs á árunum 1988 -- 1991 miðað við þetta var því um 30 milljarðar kr. á verðlagi þessa árs. En þetta var ekki nóg heldur hafði hæstv. fjmrh. af sinni fjármálasnilld og þáv. ríkisstjórn tekið upp þá hætti að binda ríkinu bagga, ákveða skuldbindingar á herðar ríkissjóði utan fjárlagadæmisins í miklu stærri mæli en nokkru sinni hafði áður þekkst.
Ég reiknaði þessar skuldbindingar sem falla nú á allra næstu árum við þinglokin síðustu upp á 23 milljarða kr. Samtals um 53 milljarða kr. sem sú ríkisstjórn skilaði í arf í hallatölum á ríkissjóði til næstu ríkisstjórnar.
    Nú hefur eins og fram hefur komið bæst við þessar tölur og í raun og veru þyrfti að fara enn betur ofan í saumana á þeim málum en þó hefur verið gert í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Þar kemur fram að þessar tölur munu hækka a.m.k. um 10 milljarða eða þar í kring. Þetta er nú það sem við blasir.
    Þótt hæstv. fyrrv. fjmrh. héldi því tíðum fram að hann væri að lækka hallann í sinni tíð þá miðaði hann ævinlega við árið 1988 og kenndi Sjálfstfl. um það sem þá hafði farið úrskeiðis. Nú bar svo við að á árinu 1988 sátu tvær ríkisstjórnir og þá voru tveir fjármálaráðherrar. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sat þangað til í september á því ári og fjmrh. var núv. hæstv. utanrrh. Sá fjmrh. hafði þá lýst því yfir alveg þangað til komið var fram á haust að hans áætlanir stæðu til þess að halli á ríkissjóði á árinu yrði 693 millj. kr., það var nákvæm tala, býsna nákvæm. Þó að ég ætli ekki að fullyrða að hún hefði orðið nákvæmlega þetta ef hans hefði notið við í fjmrn. til ársloka,

þá varð niðurstaðan sú eftir að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði tekið við fjármálastjórninni að í lokin var þessi tala 7,2 milljarðar í halla eða 10,5 milljarðar kr. á verðlagi þessa árs, 1991. Honum ferst því illa að taka þetta ár til viðmiðunar því þá greiddi hann út úr ríkissjóði allt það sem að hans dómi var frambærilegt til þess að létta á árinu sem kom á eftir. Og þó að hallinn hafi ekki verið jafnmikill og þetta á árinu 1989 og 1990, þá hefur hann samt náð þeim hrikalegu tölum sem ég hef hér enn einu sinni rifjað upp.
    Ég skal ekki fara út í það að skýra í hverju það er fólgið að hallatölur Ríkisendurskoðunar eru hærri en áætlanir fjmrn. og núv. fjmrh. sem styðst við tölur fjmrn. en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur gjarnan brugðið á þann leik að segja að þetta sé einungis bókhaldsatriði. Ef það er svo að hallarekstri ríkissjóðs megi skáka til og frá með einhverjum bókhaldsaðferðum þá er það nú ekki mikið vandamál að fást við og þá ætti að vera hægurinn hjá fyrir núv. hæstv. fjmrh. og núv. ríkisstjórn að lækna þau mein sem þar er við að fást ef það mætti laga þau aðeins með bókhaldsaðferðum. En því miður er staðan ekki þannig og ég held að engum blandist hugur um það að hér er við slík hrikaleg vandamál að fást að þau fela í sér, eins og ég áður sagði, ógn við allt efnahagslífið, ógn við þjóðarsáttina og ógn við kjör almennings í landinu.
    Þó að sá gáfulegi hv. þm. sem nú er genginn úr salnum, Steingrímur J. Sigfússon, hafi látið svo ummælt að engin ríkisstjórn í ég veit ekki hversu langan tíma hafi skilað svo góðu búi sem þessi, þá er nú þetta samt niðurstaðan sem hér hefur verið rakin, að ríkisfjármál hafa aldrei verið í slíkum ógöngum eins og þau nú eru við þessi stjórnarskipti. ( ÓRG: Þetta er nú meira ruglið í þér.) Og aldrei áður hefur fráfarandi ríkisstjórn og fráfarandi fjmrh. leyft sér að eyða svo af því fé sem þjóðin átti að hafa til ráðstöfunar á næsta kjörtímabili, þ.e. því kjörtímabili sem nú er nýhafið, eins og gerðist í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, aldrei áður. Aldrei áður hafa menn setið uppi með slíkar skuldbindingar sem ekki verður komist hjá að greiða. Þetta er sú niðurstaða sem fyrir liggur um viðskilnaðinn, þetta er sú niðurstaða sem fyrir liggur í fjármálum ríkisins við þessi stjórnarskipti. ( ÓRG: Trúir þingmaðurinn sjálfur þessu rugli?) Núv. hæstv. ríkisstjórn þarf því að vinna mikið björgunarstarf og það björgunarstarf er ekki auðvelt. Fyrstu skrefin í því björgunarstarfi er verið að stíga um þessar mundir, en þau skref eru auðvitað stutt miðað við það sem þarf að taka til hendi til þess að rétta við hið sökkvandi skip ríkisfjármálanna.
    Ég skal ekki fara að ræða einstök atriði en mig langar þó, vegna þess að síðasti ræðumaður, hv. 6. þm. Vestf., sem því miður er ekki hér staddur inni og raunar ýmsir aðrir hafa talað um það að það væri verið að skera niður fé til Lánasjóðs ísl. námsmanna, til þess að víkja aðeins að því máli. Þessi hv. þm., sem er hér nýr á þingi, sá myndarlegi fulltrúi Kvennalistans, sagði að það væri komið aftan að fólki. ( Gripið fram í: Myndarlega kona.) Myndarlegi þingmaður Kvennalistans. ( Gripið fram í: Kona vil ég segja.) Myndarlegi þingmaður Kvennalistans, segi ég. ( ÓRG: Það er verið að gera grín að þingmanninum í ræðustól, skilurðu það ekki?) Ég held að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson geti fengið orðið hér á eftir, ég trúi því. En vegna þessara orða hv. 6. þm. Vestf. vil ég láta það koma hér fram að þetta byggist á misskilningi ellegar vanþekkingu.
    Við afgreiðslu fjárlaga, þ.e. við 3. umr., var fé sem var ætlað í fjárlagafrv. til Lánasjóðs ísl. námsmanna skorið niður um 200 millj. Þá stóðu áætlanir til þess að miðað við umfang sjóðsins og lánareglur þyrfti sjóðurinn á þessu fé að halda og 100 millj. betur eða 300 millj. Þetta var rækilega skýrt, bæði í meðförum fjvn. og í umræðum hér á Alþingi. Ríkisstjórnin ákvað eigi að síður að skera niður töluna sem var í fjárlagafrv. um 200 millj. og sinna að engu leyti þeirri þörf sem var til viðbótar um 100 millj., þ.e. skerða ráðstöfunarfé sjóðsins sem hann þurfti á að halda um 300 millj. kr. Og það var ítarlega tekið fram af talsmanni ríkisstjórnarinnar, hv. þáv. formanni fjvn., núv. hæstv. heilbrrh., að ætlun ríkisstjórnarinnar væri sú að mæta ekki þessari fjárþörf, hvorki með nýju lánsfé né á annan hátt. Sú hæstv. ríkisstjórn tók því ákvörðun um að það skyldi verða skarð í þá fjárþörf sem Lánasjóður ísl. námsmanna taldi sig þurfa á að halda um 300 millj. kr. Á vordögum var talið að vantaði 400 millj. kr. í þennan sjóð eða skömmu fyrir þinglok. Og nú er talið að vanti 700 millj. Það sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að gera er að að auka við fé þessa sjóðs um 400 millj. kr. en hún ætlar ekki að skaffa þær 300 millj. kr. sem fyrrv. ríkisstjórn hafði tekið ákvörðun um að skera niður.
    Þetta er það sem ég kalla að sé misskilningur. Með þessu er ekki verið að koma aftan að fólki vegna þess að námsmenn og Lánasjóðurinn vissu um alla þessa hluti. Það var hins vegar hæstv. menntmrh. sem vanrækti það að bregðast við þessum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar með því að skerða námslánin eða minnka umfang af rekstrarsviði sjóðsins. ( SvG: Þetta er rangt, þingmaðurinn veit ekkert hvað hann er að segja.) Það vill nú svo vel til að það eru fáir sem trúa frammíköllum Alþb. og það vill svo til að allt það sem ég hef hér sagt um þetta er skjalfest. ( SvG: Það breytir engu um það að það var lygi ... ) Það breytir auðvitað engu í munni hv. þm. Svavars Gestssonar, ég er alveg viss um það. Hann getur haldið áfram að tala hér úti í sal og farið með tómt fleipur til þess að breiða yfir eigin aumingjaskap þegar hann var í þessu ráðuneyti. ( SvG: Er þingmaðurinn reiður?) Nei, ég er ekki nokkurn skapaðan hlut reiður. Ég er bara að sýna fram á hvernig þetta var þegar þú varst við völd. En ég vildi láta þetta koma hér fram vegna þess að hv. þm. er hér nýr á þingi og fylgdist auðvitað ekki með þessum gangi mála og ég vildi upplýsa hann um það hvernig þetta mál liggur fyrir.
    Þetta er auðvitað eitt dæmið af afar mörgum um það að fyrrv. ríkisstjórn tók ákvarðanir um að búið skyldi við skarðan hlut á fjárlögum þessa árs. Svo var

t.d. í almannatryggingum, og hér er fyrrv. heilbrrh. Þar vissu menn að vantaði um milljarð, en síðan var ekkert gert til að mæta þessu á þann hátt að niðurskurðurinn yrði raunhæfur og látið vaða á súðum þangað til það kæmi á aðra, þ.e. núv. hæstv. ríkisstjórn að þurfa að taka á þessum málum, taka við syndum fyrrv. ríkisstjórnar og taka síðan á því hvernig ætti að framkvæma það. Slík dæmi eru auðvitað fjölmörg í öllum þessum málum, t.d. í ýmsum gjaldskrárákvæðum sem ákveðin voru með afgreiðslu fjárlaga. Þá var gert ráð fyrir því að gjaldskrárhækkanir skyldu koma, eins og þeir kölluðu það, eftir þjóðarsátt, þ.e. á síðari hluta ársins þegar sú ríkisstjórn væri farin frá. Þá kæmi það á aðra, þ.e. núv. hæstv. ríkisstjórn að framkvæma þær hækkanir sem nauðsynlegar voru til að standa undir útgjöldunum.
    Þetta eru nokkur dæmi um þann leik sem leikinn var í fjármálum ríkisins í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og ekki nema lítið af því sem ég hef hér rakið, en þó þannig að það blandast engum hugur um hver niðurstaðan er og hver viðskilnaðurinn hefur verið.