Ríkisfjármál 1991
Miðvikudaginn 29. maí 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hér hefur nú í tvo og hálfan klukkutíma verið samfelldur ræðuflutningur fyrrv. stjórnarandstöðu. Það er nokkuð fátítt að þannig sé staðið að stjórn þingsins að menn búi við það að á eftir ræðu fjmrh., sem flutti skýrslu, hafði mjög góðan tíma til að semja þá ræðu, tók sjálfur fram að hann hefði beðið lengi eftir flutningi, þannig að hann hafði möguleika til að sníða af henni annmarka ef einhverjir voru, er flutt um 40 mínútna ræða af fulltrúa Sjálfstfl. í fjvn., mjög sköruleg ræða. Svo höfum við búið við stöðuga fræðslu kvennalistafulltrúa eftir það, m.a. um húsbréfin, mjög ítarlegt, þó ríkisfjármál séu hér fyrst og fremst á dagskrá.
    Ég vildi leita eftir upplýsingum hjá forseta hvort við megum búast við svipaðri skipan mála næstu tvo og hálfan tíma og hvað fyrirhugað væri fram eftir nóttu, því það fer að verða einfalt stærðfræðilegt reikningsdæmi að finna út hvað þessi umræða mun standa lengi með sama áframhaldi og sömu stjórnun á þessum hlutum.