Ríkisfjármál 1991
Miðvikudaginn 29. maí 1991


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Það er greinilegt að hv. 2. þm. Vestf. er ekki ánægður með hvernig forseti stjórnar þinginu þennan stutta tíma sem hann hefur haft það hlutverk, en ég vil þá af þessu tilefni upplýsa það að fulltrúar fyrrv. stjórnarandstöðu, þ.e. fulltrúar Sjálfstfl., hafa talað hér nákvæmlega 1 klukkustund og 42 mínútur og fulltrúar Kvennalistans, þeir tveir sem hafa talað, hafa talað nákvæmlega í 43 mínútur.
    Það má gagnrýna forseta fyrir það að hafa ekki gætt þess að hleypa núverandi stjórnarandstöðuþingmanni annarra en Kvennalista fyrr að í röðinni en það má kannski virða forseta það til vorkunnar að menn voru búnir að bíða lengi eftir því að þessi umræða um ríkisfjármálin hæfist vegna þess að stefnuræðan hefur tekið nokkuð langan tíma. Á meðan hafa menn verið að færa sig á mælendaskrá um ríkisfjármál sem jafnvel ætluðu að tala í stefnuræðunni en hættu við það. Það á sérstaklega við um þingmenn Kvennalista en engin þeirra talaði hér á síðustu fundum í stefnuræðunni af því þær völdu það að halda sig við málefnið, þ.e. ríkisfjármálin, á réttum dagskrárlið. Þess vegna taldi forseti það réttlætanlegt að þeir tveir fulltrúar Kvennalistans sem eru á mælendaskrá í þessari umræðu fengju að tala eftir þeirri röð sem þeir settu sig á mælendaskrá.
    Það sem fyrir liggur er þá að næst er fulltrúi Alþb. á mælendaskrá, þar næst fulltrúi Framsfl. og þar næst Sjálfstfl., síðan Alþb., Framsfl., Sjálfstfl., Framsfl., Alþb., Framsfl. og síðan aftur Framsfl. Svona er mælendaskráin eins og hún liggur fyrir á þessari stundu og vonar forseti að hv. 2. þm. Vestf. sé nokkru fróðari um hvernig forseti hefur reynt að raða þessu niður eftir því hvernig þingflokkar hafa hugsað sér að tala og reynt að skipta þessu nokkuð bróðurlega. Forseta ber að gæta réttlætis, bæði gagnvart stjórn og stjórnarandstöðu og þess vegna biður nú forseti hv. 2. þm. Vestf. að virða honum það til vorkunnar þó hann reyni að gæta líka réttlætis gagnvart þingmönnum stjórnarliða eins og stjórnarandstöðu.