Ríkisfjármál 1991
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það er rétt að vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. er ekki kominn til fundar en það svo sem sakar kannski ekki í bili því að hér er m.a. mættur hv. 2. þm. Norðurl. v., sem blandaði sér lítillega í þessar umræður í gærkvöldi, þessar umræður um skýrslu um ríkisfjármál fyrir árið 1991. Satt best að segja var það nú þannig að svona fyrstu tvær til tvær og hálf klst. af þessari umræðu var hún nokkuð sérkennileg.
    Hér kom auðvitað fyrstur hæstv. fjmrh. og eyddi mestöllum tíma sínum í stjórnmálaumræður eða eldhúsdag þar sem hann var aðallega að taka fyrir forvera sinn á ráðherrastóli. Og að sama skapi fór lítið fyrir faglegum eða málefnalegum útlistingum hans á skýrslunni sjálfri eða framtíðinni í ríkisfjármálunum. Látum það nú vera. Hæstv. fjmrh. lítur kannski svo á að skýrslan tali að einhverju leyti fyrir sig sjálf.
    En öllu sérkennilegri var þó ræða hv. 2. þm. Norðurl. v. Reyndar var hann þriðji sjálfstæðismaðurinn svo gott sem í röð sem kom hér og talaði í umræðunni og væri nú hægt að spyrja sig nokkurra spurninga um þá stýringu á umræðunni sem þar birtist, að þrír af fjórum fyrstu ræðumönnum voru hv. þm. eða hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. Og þegar umræðan hafði staðið í tvær og hálfa klst. hafði einn annar hv. þm. en þessir sjálfstæðismenn talað í stutta stund. En hvað um það. Ég ætla að koma lítillega að þessari ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. síðar. en verð þó að segja fyrst vegna þess svips sem var á umræðunni að það var vægast sagt sérkennilegt að hlusta á þennan hv. þm. koma hér og tala í um þrjá stundarfjórðunga með þeim hætti sem hann gerði, að svo til hvert einasta orð voru skammargusur og fúkyrðaflaumur aðallega um hv. 8. þm. Reykn., fyrrv. fjmrh., og ræðumaður fékk líka svolitla skammta frá hv. 2. þm. Norðurl. v. En, herra forseti, vegna þess að mér er ekki kunnugt um hvað kann að hafa verið samið um hér um framhald umræðunnar en ég hef heyrt af því einhverjar spurnir að það eigi að fara að ljúka þinginu svona hvað úr hverju, þá get ég eftir upphaf þessarar umræðu og m.a. vegna þeirra árása sem ég sat undir frá hv. 2. þm. Norðurl. v. ekki annað en tekið hér þó nokkurn tíma í að svara því. Fyrir utan þær spurningar sem ég síðan hugðist leggja fyrir hæstv. fjmrh. og varða beint efni skýrslunnar, sem ég hafði hugsað mér að fara yfir og gera athugasemdir við eða ræða í einum sex tölusettum liðum. Ég hlýt þess vegna að búa virðulegan forseta undir að í þetta fari einhver tími. Ég held að ég geti þó fullyrt að ég nái að ljúka máli mínu á skemmri tíma en hv. 2. þm. Norðurl. v. notaði í fúkyrðaflutning sinn í gærkvöldi, svo málefnalegur og merkilegur sem hann var.
    En fyrst þá um efni skýrslunnar og það sem hæstv. ríkisstjórn er hér að leggja til eða fjalla um í sínum skjölum. Ég held ég komi þá fyrst að því sem í raun og veru er kannski aðalinnihald þessarar skýrslu sem og hryggjarstykkið í aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum eða efnahagsmálum og það eru vaxtahækkanirnar. Þær birtast hér í nokkrum liðum og hafa verið að koma fram með ýmsum hætti í þjóðfélaginu síðustu sólarhringa. Eins og segir hér í skýrslunni í kafla IV, um viðnámsaðgerðir, þá hefur þegar verið tekin ákvörðun um að hækka vexti á spariskírteinum ríkissjóðs í 7,9%. Eins og hv. 8. þm. Reykn. upplýsti svo í gærkvöldi fylgdi Seðlabankinn í kjölfarið með ákvörðun um að hækka ávöxtunarkröfu bréfanna á verðbréfaþingi, þannig að hún er nú þar að nálgast 9%.
    Í öðru lagi tók ríkisstjórnin ákvörðun um, og reyndar var það hennar fyrsta ákvörðun, að fíra ríkisvíxlunum upp í 14,5%.
    Í þriðja lagi er hér ákvörðun um að hækka vexti á lánum Byggingarsjóðs ríkisins á öllum útistandandi lánum frá 1. júlí 1984 í 4,9%.
    Í fjórða lagi er svo ákvörðun um að loka endanlega húsnæðislánakerfinu frá 1986 og þá með þeim hætti að þeim sem þar bíða í biðröð, og hafa sumir gert árum saman, verði hent út og vísað á markaðinn.
    Þetta eru nú í raun og veru aðgerðirnar hjá hæstv. ríkisstjórn sem aðallega eru þess virði að ræða um. Síðan er þarna kafli um sérstakar aðgerðir sem ég kem lítillega að síðar. En þetta er í raun og veru það sem máli skiptir af því sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert og það sem markar einhverja stefnu. Þar sem einhver afstaða kemur fram. Og það er nú ekki svo oft, enn sem komið er, sem við höfum haft tækifæri til að taka á einhverju sem hæstv. ríkisstjórn er þó að gera. Þar sem við vitum hvað hún ætlast fyrir, þar sem einhver stefna liggur fyrir. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að ræða lítillega um þessi vaxtamál í því framhaldi.
    Ég hef áður gert grein fyrir afstöðu minni gagnvart vaxtahækkun á húsnæðislánum og lýst óánægju minni og vonbrigðum með það að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félmrh. skuli láta pína sig til þess, eins og ég vona að hafi verið, því að mér þætti verra ef hún hefur gert það sjálfviljug, hæstv. félmrh., að hækka vextina á húsnæðislánunum afturvirkt. Þetta er í eðli sínu afturvirk aðgerð af því að hún raskar þeim forsendum fólksins sem það hafði til að ganga út frá þegar það tók sín lán og gerði sínar fjármálaskuldbindingar. Við getum verið hér í orðaleikjum um það hvort þetta sé afturvirk vaxtahækkun í þeim skilningi að það eru ekki innheimtir hjá mönnum hærri vextir alveg aftur til 1984. Er það það sem menn eiga að þakka fyrir? Eiga menn að falla á knén og þakka ríkisstjórninni fyrir að hún skuli ekki rukka á einu bretti hærri vexti alveg aftur til 1984? Nei, við höfðum nú ekki einu sinni hugarflug til að láta okkur detta það í hug, enda ekki hægt og ólöglegt. En þetta er afturvirk aðgerð í þeim skilningi að hún raskar þeim forsendum sem fólk hafði til að ganga út frá. Að mínu mati er það ekki spurningin um hversu mikil vaxtahækkunin er sem er aðalatriðið heldur eðli aðgerðarinnar, ,,prinsippið`` sem hér er brotið. Og að þetta skuli gert að hluta til gagnvart sömu aðilum og áður hafa þolað hið illræmda misgengi lánskjara og launa

er dapurleg staðreynd.
    Hæstv. fyrrv. forsrh. og hv. núv. 7. þm. Reykn., hefur játað það fyrir mér, og ég held héðan úr ræðustóli líka, og ég veit að ég brýt engan trúnað þó að ég segi að hann telji það að mörgu leyti einhverja erfiðustu aðgerð sem hann hafi tekið þátt í á sínum tíma og hafi um hana mikla þanka. Og það skil ég vel. Því að eftir á að hyggja held ég að allir sem komu nálægt því að skapa misgengi lánskjara og launa á árunum 1983 -- 1984 og fram á árið 1985 hafi yfir því vonda samvisku. Ég held að það sé þannig. Ég vona að hér komi enginn upp og hælist yfir því að hafa tekið þátt í því með þeim afleiðingum. En hér er því miður verið að gera sambærilegan hlut. Og það er hárrétt sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. að þessi aðgerð verður að ýmsu leyti verri vegna þess að búið er að kippa úr sambandi ákvæðunum um greiðslujöfnun lánanna, það var gert á sl. vori. Og það er rétt að það komi þá fram af því að ég stóð að þeirri ákvörðun ásamt með fleirum að sú ákvörðun var af okkar hálfu, af minni hálfu, tekin í beinum tengslum við ákvörðun um að hækka ekki vextina á lánunum frá 1984 með þessum hætti. Og það sem lá fyrir var að það var málamiðlun um að til greina gæti komið að hækka vextina við eigendaskipti á íbúðum, sem er allt annars konar aðgerð af því að þá vita menn að hverju þeir ganga þegar þeir gera nýja kaupsamninga, og hugsanlega hækka vextina t.d. 10 árum eftir stofndag láns. Sá er munur á að að því hefðu menn nokkurn aðdraganda og menn væru búnir að borga niður um fjórðung lánsins, komnir í gegnum erfiðasta hjallann sem gjarnan eru fyrstu nokkur árin eftir íbúðakaup eða íbúðabyggingar.
    Þetta læt ég nægja um vaxtamál húsnæðislánanna en ég verð að ítreka það og undirstrika að ég er algjörlega andvígur þessari aðferð, hún er ógeðfelld, óréttmæt og ósanngjörn og ég spái því að menn eigi eftir að fá yfir því vonda samvisku, þeir sem að þessu standa, ekki síður en ákvörðuninni um misgengi lánskjara og launa á sínum tíma.
    Í öðru lagi um efnahagsáhrif vaxtahækkananna. Það er satt best að segja með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki reyna, um leið og hún hrindir úr vör þessari hrikalegu vaxtahækkunarskriðu, snýr í gang þennan vaxtahækkunarspíral eða hvað sem menn vilja nú kalla það, að það skuli engin gögn vera lögð fram eða borin á borð fyrir menn um það hvaða áhrif þessar vaxtahækkanir hafa út í efnahagslífið.
    Ég fór á fjörurnar og fór að leita mér upplýsinga um það. Hvað liggur nú fyrir um vægi vaxtanna í okkar efnahagsmálum? Hver eru t.d. áhrif vaxtahækkana af þessu tagi á heimilin í landinu? Á atvinnureksturinn í landinu? Hvað er til um það? Er hæstv. ríkisstjórn með mat á því? Ég spyr hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Það kom fram í ræðu minni.) Vill hæstv. fjmrh. reiða fram þau gögn umfram það sem kemur fram í þessu skjali og er nú ekki merkilegt? Það er tafla um greiðslubyrði lána miðað við misjafna vexti. Það er auðvitað gagnlegt fyrir okkur að þurfa ekki að reikna það út sjálfir en eins og kunnugt er hafa landsmenn

átt góða stærðfræðikennara á undanförnum áratugum og geta lagt saman og dregið frá og margfaldað sjálfir. Er eitthvað t.d. um áhrif vaxtahækkananna á kaupgreiðslugetu atvinnulífsins af því að nú stendur til að endurnýja kjarasamninga á komandi sumri eða hausti?
    Ég fór til Þjóðhagsstofnunar, hafði samband við menn þar og lagði skriflegar spurningar fyrir Þjóðhagsstofnun um þessi efni af því að mér lék hugur á að vita hvað til væri af gögnum um þessi mál. Og ég satt best að segja trúði ekki öðru en að sett hefði verið í gang vinna í Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka eða hjá ríkisstjórn til að reyna að meta áhrif þessara vaxtahækkana á efnahagslífið, annarra en þeirra einna sem er jú sögð vera orsökin fyrir þessari ákvörðun, að það þurfi að draga úr þenslu og eftirsókn í lánsfé.
    Þjóðhagsstofnun, eftir að hafa haft eina þrjá til fjóra daga, brást þannig við og gat ekki betur gert að eigin sögn en að senda mér eins og hálfs árs gamla greinargerð um þetta efni sem tekin var saman þá að beiðni þáv. ríkisstjórnar. Sú greinargerð er dagsett 1. nóv. 1989 og ég hlýt að skilja það svo að það séu ekki til nýrri gögn. Ekki heildstæð gögn sem eitthvað er á að græða í sambandi við áhrif vaxtahækkana eða vaxtastigs á afkomu atvinnulífsins og heimilanna í landinu. Ég ætla þess vegna að leyfa mér að vitna lítillega í þessa greinargerð, þó að hún sé orðin eins og hálfs árs gömul, og taka dæmi t.d. um það hvaða áhrif vaxtahækkanirnar frá 1985 -- 1988 höfðu á afkomu heimilanna og atvinnulífsins í landinu. Ég yrði manna glaðastur ef hæstv. fjmrh. gæti reitt fram nýrri tölur og betri gögn en það væri þá æskilegt að hann gerði það hér í umræðunni.
    Í greinargerðinni, sem eins og áður segir Þjóðhagsstofnun tók saman að ósk ríkisstjórnarinnar haustið 1989, er fyrst gerð grein fyrir vandkvæðum sem því eru samfara að meta áhrif vaxtaþáttanna í þjóðartekjum og þjóðarútgjöldum, afkomu atvinnulífs og heimila o.s.frv. og að sjálfsögðu tímans vegna fer ég ekki langt út í þá sálma enda geta menn þá kynnt sér það. Því eru að sjáfsögðu ákveðnir erfiðleikar samfara að meta slíkt, en þó er samkvæmt ákveðnum aðgerðum, fyrst og fremst með svonefndri tekjuskiptingaraðferð, hægt að áætla talsvert hlutfall vaxta í þjóðartekjum og í afkomu og útgjöldum heimila og atvinnulífs. Og þá er að sjálfsögðu reynt að skoða áhrif raunvaxtanna eins og þeir eru skilgreindir í þessu sambandi. Það eru ýmsar fróðlegar tölur og töflur í þessari greinargerð, að vísu taka þær fyrst og fremst til áranna 1985 til og með 1988, eðli málsins samkvæmt þar sem skjalið er orðið eins og hálfs árs gamalt. En ég segi: Það er bráðnauðsynlegt að Þjóðhagsstofnun verði falið hið snarasta að gera nýja greinargerð af þessu tagi. Þá kæmu fram áhrif vaxtalækkunar á árunum 1988, 1989 og 1990 á afkomu atvinnulífs og heimila í landinu. Og það væri auðvitað mjög gagnlegt að fá þær viðbótarupplýsingar.
    Ef teknar eru heildareignir lánakerfisins í árslok 1988 þá námu þær tæpum 360 milljörðum kr. Þessar eignir gáfu af sér um 25,6 milljarða í vexti miðað við árslokastöðu og svarar það til 7,1% raunávöxtunar lánsfjár á árinu 1988.
Ef teknir eru raunvextir í lánakerfinu í heild og þeir skoðaðir á þessum fjórum árum er það þannig að á árinu 1985 voru þeir 3,1%, á árinu 1986 5,7%, á árinu 1987 5% og árið 1988 eru þeir orðnir 7,1%. Ef aðeins er tekinn atvinnureksturinn og opinberir aðilar og heimilunum sleppt út úr, þá er vaxtastigið gagnvart atvinnurekstrinum og opinberum aðilum orðið 7,7% á árinu 1988. Af þessu má sjá að það má áætla að heimilin hafi greitt um 5,7 milljarða króna í vexti á árinu 1988 miðað við verðlag í árslok. En það er talið að skuldir heimilanna í landinu hafi þá verið um 100 milljarðar króna og raunvaxtastig lánakerfisins gagnvart heimilunum var einmitt talið 5,7% á árinu 1988 þannig að vaxtagreiðslur heimilanna eru þar með 5,7 milljarðar að talið er á þessu tímabili. Ef við skoðum hvernig raunvaxtagreiðslur heimilanna þróuðust á þessum fjórum árum þarf enginn að vera hissa á því að heimilin í landinu væru farin að stynja undan vaxtaokrinu á árinu 1988. Árið 1985 var raunvaxtastig gagnvart heimilunum 1,6%, árið 1986 3,5%, árið 1987 3,4% en árið 1988 er það komið upp í 5,7% og vaxtaútgjöld heimilanna þar með orðin 5,7 milljarðar króna að talið var.
    Að sama skapi má ætla að vaxtakostnaður atvinnulífsins og opinberra aðila hafi á sama ári verið um 16,5 -- 17 milljarðar kr. og þá sjá menn að hér er ekkert verið að hreyfa neinum smástærðum í efnahagslífinu. Ef við uppreiknum lauslega í huganum þessar tölur til núverandi verðlags ætti ekki að vera fjarri því að vaxtaútgjöld heimilanna á árinu 1991 væru 7 milljarðar kr. miðað við sama vaxtastig, um 7 milljarðar króna. Þá eru menn fljótir að reikna það út hvað hvert prósentustig í hærri raunvöxtum þýðir fyrir heimilin í landinu. Það má reikna með því að hvert prósentustig yfir lánakerfið í heild sinni í dag, þá er ég að tala um atvinnulíf, opinbera aðila og heimilin eins og þessu er skipt þarna, sé um 3,5 milljarðar kr., hver prósentustigshækkun í raunvöxtum. Sem sagt, sú vaxtahækkunarákvörðun sem ríkisstjórnin hefur þegar hrint út í þjóðfélagið færir til um 7 milljarða, færir til svona 5,5 til 6 -- 7 milljarða kr. frá þeim sem skulda til hinna sem eiga peningana. Í raun og veru er þetta ekkert flóknara en þetta, svona verður þessi tilfærsla. Vaxtaútgjöld heimilanna eru þá, miðað við þessi hlutföll, væntanlega á ársgrundvelli að hækka þessa dagana um 1,2 til 1,5 milljarða kr. vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar vegna þess að það er ríkisstjórnin sem ríður á vaðið með Seðlabankann ýtandi á eftir sér.
    Ég segi alveg eins og er að þessar tölur segja mér ýmislegt þó þær séu nokkurra ára. Þær segja mér ýmislegt vegna þess að ég var hér á Alþingi ásamt mörgum fleiri hv. þm. sem hér sitja inni, og ég fylgdist með þeirri þróun mála sem varð á árunum 1984 -- 1988. Það ætti að vera flestum hér inni í það fersku minni að það sé ástæðulaust að rifja upp hvaða áhrif vaxtaskriðan hafði á þeim tíma.
    Það er auðvitað ýmislegt annað sem fróðlegt er að fara yfir í þessum dúr og reyna að greina það í tölum hvað gerist þegar vextir hækka í þjóðfélaginu því

það ættu menn að gera áður en þeir taka blindandi ákvarðanir um svona afdrifaríka hluti. Ég ætla að nefna nokkrar aðrar upplýsingar úr gögnum frá Þjóðhagsstofnun. Ég trúi náttúrlega ekki öðru en að hæstv. fjmrh. kunni þetta allt utan að því svo ábyrgur maður tekur varla ákvarðanir um svona hluti nema vita hvað hann er að gera --- eða hvað, hæstv. fjmrh.? Varst þú t.d. ekki búinn að ná þér í þessa greinargerð um áhrif vaxtastigsþáttarins í þjóðarbúskapnum frá Þjóðhagsstofnun áður en þú tókst ákvörðunina? Ég sé að þú ert kominn með hana núna.
    Ef við tökum vaxtagjöld atvinnurekstrarins og skoðum þau sem hlutfall af veltu, vergum rekstrarafgangi og vergum þáttatekjum, og skoðum svo launahlutfallið í því samhengi, þá kemur ýmislegt athyglisvert í ljós, m.a. um það hvernig þessi hlutföll breyttust í kjölfar vaxtahækkana á árunum 1985 -- 1988. Þannig hækkuðu t.d. vaxtagjöld atvinnurekstrarins sem hlutfall af veltu úr 1,3% árið 1985 í 3,7% árið 1988. Ef við tökum þetta hlutfall af vergum rekstrarafgangi fyrirtækjanna verður þetta enn þá meira sláandi. Það sem gerist á árunum 1985 -- 1988 er að hlutfall vaxtagjaldanna af vergum rekstrarafgangi hækkar úr 11,8% í 42,4%. Þannig var komið árið 1988 að 42,4% af rekstrarafgangi fyrirtækjanna fór beint í þessar vaxtagreiðslur.
    Ef þetta er skoðað sem hlutfall af vergum þáttatekjum verður þarna svipuð breyting, hækkar úr 4,3% í 11%. Ef við tökum svo hlutfall launanna af þessum sömu þáttatekjum þá getum við að lokum reiknað út hlutfall vaxta af launum og það ætla ég að láta verða mínar síðustu tölur til að þylja yfir hv. þingheimi sem hefur kannski engan áhuga á þessu og það er allt í lagi með það. En ég ætla að lesa þetta hér upp fyrir menn, þó ekki væri nema fyrir vin minn hæstv. fjmrh. sem þarf að heyra þetta nokkrum sinnum til þess að hafa eitthvað til að hugsa um í sumar.
    Þetta er þá þannig að hlutfall vaxta af launum samkvæmt þessum útreikningum Þjóðhagsstofnunar breyttist á árunum 1985 -- 1988 þannig að það fór úr 6,7% í 15,1%. Það er engin smábreyting sem þar gerist. Það hefur engin smáræðisáhrif ef menn ætla að setjast niður t.d. og ræða kjarasamninga hvar þessi hlutföll standa. Svo segir hæstv. ríkisstjórn við okkur að hún sé með vaxtahækkunarákvörðunum sínum að auðvelda skuldsettum íslenskum atvinnuvegum að framlengja kjarasamninga. Ef hún er nú kannski að hækka þetta hlutfall sem fer beint út úr rekstri fyrirtækjanna miðað við t.d. launagreiðslur þeirra, tvöfalda það eða rúmlega það eins og þarna var gert, þá þýðir ekkert fyrir menn að bera slíkt á borð. Því miður er það svo að skuldastaða sjávarútvegsins, fiskvinnslunnar í landinu sem var landlægt að miða við þegar verið var að reyna að átta sig á því hver launagreiðslugeta atvinnulífsins væri. Og af því að hæstv. sjútvrh. er mættur hér til leiks þá væri fróðlegt að fá að heyra hans álit á því hvort það muni auðvelda íslenskum sjávarútvegi þátttöku í gerð kjarasamninga, sem geta vonandi skilað einhverjum sæmilegum kjörum til vinnandi fólks í landinu, að taka á sig raunvaxtahækkun

upp á 1,5 -- 2% eða hvað það nú verður. Minna verður það ekki þegar kemur fram á haustmánuðina eins og þetta horfir hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Ég gæti nefnt ýmislegt fleira upp úr þessum gögnum sem mér fundust athyglisverð og segja ýmislegt þó að þau séu orðin nokkurra mánaða gömul. En staðreyndirnar um það sem skeði á þessum árum standa að sjálfsögðu fyrir sínu. Ég sagði það í umræðum um stefnuræðu forsrh. að það væri skynsamlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn að fara yfir reynsluna af hávöxtunum á árunum 1984 -- 1988, skoða það hvað það var sem gerðist. Þótt margt fleira væri vitlaust í efnahagsstjórn á þeim tíma en vaxtamálin ein gætu þeir engu að síður lært ýmislegt af því sem þar gerðist.
    Herra forseti, ég læt hér þá lokið umræðum um vaxtamál þó að ég hefði svo sannarlega talið ástæðu til þess að ræða það jafnvel lengi enn og að margir tækju þátt í því. Ýmsir hafa rætt um vaxtamál á undanförnum árum eða afkomu sjávarútvegsins og undirstöðuatvinnugreina í landinu, um hugmyndir um fastgengisstefnu eða tengingu við Evrópugjaldmiðla eða hvað það nú er. Halda menn að það verði léttara fyrir sjávarútveginn ef búið verður að svínhækka á honum vextina með allar skuldirnar á bakinu? Atvinnugrein sem í heild sinni átti nokkra mánuði eftir í gjaldþrot haustið 1988. Óbreytt efnahagsstjórn í nokkra mánuði í viðbót hefði gert íslenskan sjávarútveg gjaldþrota á einu bretti haustið 1988. Það sjá menn ósköp einfaldlega með því að skoða hvað var orðið eftir af eigin fé í þeim atvinnurekstri. Það var nánast búið. Öflugustu fyrirtækin í landinu voru farin að tapa fé í stórum stíl. Risarnir, fyrirtæki eins og Útgerðarfélag Akureyringa, sem hafa staðið langt upp úr öðrum fyrirtækjum hvað snertir góðan rekstur og sterka eiginfjárstöðu, voru komin í bullandi tap og síðustu fyrirtækin sem áttu eitthvert eigið fé voru að brenna það upp þessa haustmánuði. Þannig er staðan því miður enn í dag. Þó svo menn hafi komist rétt upp fyrir strikið þá er skuldsetning sjávarútvegsins alveg gífurlega mikil enn þá, því miður. Skuldirnar hafa ekki gufað upp. Afkoman hefur hins vegar batnað vegna skynsamlegrar efnahagsstjórnunar en hún fer örugglega niður á leið núna ef svo heldur sem horfir, því miður.
    Herra forseti. Ég hafði líka ætlað mér að ræða lítillega um þessar sérstöku aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar og ég neyðist til þess m.a. vegna inngöngu hv. 2. þm. Norðurl. v. í umræðunum í gær sem lét svo lítið að eyða nokkrum orðum á ræðumann og hv. 8. þm. Reykn. Hann hefur oft áður tekið þátt í umræðum um t.d. niðurskurð á vegafé, en þá að vísu hin síðari árin hinum megin við borðið, í stjórnarandstöðu. Það er nú einu sinni þannig að þá virðast menn segja ýmislegt sem kemur ekki út úr þeim þegar þeir eru komnir í ríkisstjórn eða orðnir stuðningsaðilar ríkisstjórnar. Ég tók eftir því að hv. þm. Pálmi Jónsson, þó hann flytti gömlu fjárlagaræðuna sína, þá sagði hann ekki það sem hann sagði 1989 um niðurskurð á vegafé. Það var mjög athyglisvert og sjálfum mér til skemmtunar fór ég í þingtíðindin og náði mér í þau gögn og er með

þau hér. Ég er að hugsa um að leyfa hv. þm. að heyra það hér á eftir, ef hann vildi vera svo vænn að tolla í þingsalnum, en hann tekur nú upp þann hátt sem ýmsir hafa stundað hér á árum áður að rjúka burtu þegar hann er búinn að ljúka af sínum skömmum og þorir ekki að taka við andsvörum. ( ÓRG: Hann hefur alltaf gert það, hann Pálmi, alltaf gert það.) Það má vera hans mál, hann skal fá að heyra þetta engu að síður eða þá aðrir.
    Hæstv. ríkisstjórn er með ýmsa tilburði til að draga úr útgjöldum, eða sýna aðhald, eins og það er orðað á fínu máli. En satt best að segja er það nú ekki beysið ef í raun og veru er horft á það eins og er. Það er nokkuð sérkennilegt hvar hæstv. ríkisstjórn ber niður. Ég verð að segja alveg eins og er, eins og reyndar kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf. í gærkvöldi, að það er nú heldur dapurlegt að sjá að hæstv. ríkisstjórn skuli loksins finna björgunarþyrluna sem eina af stóru holunum til þess að taka úr. Eftir allt það sem á undan er gengið um það mál og þá samstöðu þó sem orðin var um það að hefjast handa um það verkefni að endurnýja björgunarþyrlukost Landhelgisgæslunnar, að hún skuli verða fyrir barðinu. Er það ekki ýmislegt annað, hv. þm., sem við gætum byrjað á fyrr? Eru ekki ýmsar byggingar í landinu eða ýmislegt annað af því tagi sem við gætum orðið sammála um að sé ekki jafnbrýnt að endurnýja og björgunarþyrlukost Landhelgisgæslunnar? Þannig háttar til, eins og menn vita, að núverandi þyrla er að eldast, hún fer í stóra skoðun á næsta ári og verður meira og minna úr leik til að sinna sínum björgunarstörfum, ef ekki verður þá búið að ráðast í endurnýjun. Það væri fróðlegt að fá hv. 5. þm. Reykv. Inga Björn Albertsson, sem fór hamförum í þessu þyrlukaupamáli fyrir þinglausnir og kosningar á s.l. vori, hér í ræðustólinn og heyra hann lýsa afstöðu sinni til þessa niðurskurðar á áformum um að endurnýja þyrlurnar. Það væri mjög fróðlegt. Hefur hv. þm. skipt algjörlega um skoðun? Styður hann þennan niðurskurð?
    Í öðru lagi er ákveðið að skera niður framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég ætla tímans vegna ekki að hafa um það mjög mörg orð enda held ég að ég þurfi þess ekki. Það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera er í hnotskurn það að kippa inn á einu bretti á nýjan leik skerðingum fyrrv. ráðherra Sjálfstfl. á námslánum, þeirra Sverris Hermannssonar, núv. bankastjóra, og Ragnhildar Helgadóttur, fyrrv. þingmanns. Ríkisstjórnin afrekar þetta á fyrsta mánuðinum sem hún lifir. Ég held að námsmenn og aðrir sem fyrir þessu verða þurfi ekki skýrari vitna við. Það verður gaman að vita hvað þeir segja, vökustaurarnir í Háskóla Íslands í næstu kosningum, hæstv. fjmrh., sem þú hefur stundum verið að reyna að styðja. ( Fjmrh.: Þetta eru ykkar tillögur.) Þetta eru ekki okkar tillögur, hæstv. fjmrh., vertu ekki að reyna að bjarga þér fyrir horn með því. Það er alveg skýrt að það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera er að innleiða á nýjan leik þær skerðingar sem menntmrh. Sjálfstfl. hafa jafnan beitt sér fyrir. Stjórnin er ekki mánaðargömul þegar núverandi hæstv. menntmrh. Sjálfstfl. er búinn að

koma því til leiðar að það eigi að skerða námslán um 16%. Til viðbótar er svo það að hæstv. ríkisstjórn er svo vitlaus og gæfulaus í þessum efnum að hún missir peninga út til baka með því að breyta útlánareglum og ívilna í auknum mæli þeim sem hafa góðar tekjur vegna sumarvinnu eða búa í heimahúsum. Það tekur auðvitað engu tali hversu gæfulaus hæstv. ríkisstjórn er í þessum efnum. Allir námsmenn eru sammála um það að aðstaða þessara aðila sé að sjálfsögðu betri og síður ástæða til að hafa áhyggur af þeim en t.d. einstæðum foreldrum í námi. En það er akkúrat það sem er gert hérna. Námslánin verða hækkuð til þeirra sem búa heima hjá foreldrum sínum og eru þar í fæði og húsnæði og öllu tilheyrandi og þau eru hækkuð hjá námsmönnum sem hafa góðar tekjur á sumrin, en lækkuð á hinum sem mesta hafa framfærsluþörfina. Skýrari skilaboð um þann ójöfnuð sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir er ekki hægt að gefa. Ég veit að námsmenn munu ekki þurfa frekari vitna við. Nú hefur það gerst trekk í trekk síðan 1982 að það sem Alþb. og vinstri stjórnir hafa beitt sér fyrir, jafnréttissinnað námslánakerfi og að skaffa þá peninga sem til þess þarf, rífur Sjálfstfl. jafnan niður þegar hann kemst í ríkisstjórn. Um það þarf ekki fleiri orð.
    Síðan kemur að því í fjórða lið að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að skera niður framlög til vegamála um 350 millj. kr. Sú lækkun kemur að sjálfsögðu að verulegum hluta til niður á framkvæmdafé Vegagerðarinnar, því það er ekki hægt að skera niður reksturinn í miðjum klíðum með sama hætti og framkvæmdirnar. Ég get endurtekið það sem ég sagði við Stöð 2 í gærkvöldi, að vísu margt fleira, að ég ætla ekki að ásaka hæstv. ríkisstjórn þó hún sé að reyna að sýna aðhald og ég mun koma að því í lokin að ég gagnrýni það ekki þó hæstv. ríkisstjórn reyni að spyrna við fótum. En ég gagnrýni sumt af því sem hún gerir í því sambandi. Ég tel það rangt og að hún hefði frekar átt að reyna að gera eitthvað annað. Ég verð að segja það alveg eins og er að vegaframkvæmdirnar úti um landið eru ekki sá liður sem ég tel skynsamlegt að byrja á. Þenslan er ekki á Austurlandi. Þenslan er ekki á Vestfjörðum, sem er að setja efnahagslífið úr skorðum að mínu mati. Þetta er auðvitað dapurleg ganga fyrir hæstv. samgrh. að þurfa að stíga sín fyrstu spor í því embætti með þessum hætti, að senda hv. þm. upplýsingar um að hann eða ríkisstjórnin hafi ákveðið að skera niður vegafé um 350 millj. kr.
    Þarna er ýmislegt sem mætti ræða í því sambandi. Það er t.d. ákveðið vegna þess að það var snjóléttur vetur framan af að þá sé bara allt í lagi að kippa þeim peningum í burtu. Það er eins og hv. ríkisstjórnarsinnar gleymi því að það kemur vetur að nýju og það byrjar oftast að snjóa í september - október á haustin og það þarf að fara að moka fjallvegi fyrir vestan og austan oft um miðjan september með ærnum kostnaði. Venjan hefur verið sú að þakka fyrir það ef menn eru ofan heldur en neðan við strikið að vori, því þá sé síður hætta á því að menn þurfi aukafjárveitingar vegna snjómoksturs á haustmánuðum. Þetta

er alveg nýtt í stöðunni að fara að eyða svona peningum áður en tilefni er til, eins og hér er áformað að gera.
    En að lokum um vegamálin, þá neyðist ég til þess sögunnar vegna að vitna til umræðna sem áður hafa orðið um svipaðar aðstæður og spurninguna um það hvort ríkisstjórn hafi stöðu til þess einhliða að ákveða slíkan niðurskurð framkvæmda sem Alþingi hefur samþykkt. Það sjónarmið hefur verið flutt hér á Alþingi oftar en ekki af miklum þrótti af sumum hv. þm. að hæstv. ríkisstjórn, framkvæmdarvaldið geti ekki í tilviki vegamálanna t.d. hróflað við ákvörðunum Alþingis nema fá fyrir því samþykki. Þetta hafa menn flutt ýmsir eins og fyrrv. formaður fjvn. og núv. hæstv. heilbrrh. Ég á honum í raun og veru skuld að gjalda fyrir hlýlegt orðalag í nefndaráliti fjvn. frá því fyrir einum þremur árum síðan þegar hann taldi þann sem hér stendur hafa verið algerlega umboðslausan til þess að áforma niðurskurð á vegaframkvæmdum og féllst ekki á þær eða fjvn. Sömuleiðis hefur hv. 2. þm. Norðurl. v., sem taldi sig þess umkominn að ausa hér fúkyrðum yfir ýmsa þingmenn, áður tjáð sig í svipuðum tilvikum. Hann gekk svo langt á sínum tíma að saka t.d. undirritaðan nánast um lögleysu og er þó hv. 2. þm. Norðurl. v. einn af fáum ráðherrum lýðveldissögunnar sem hefur sjálfur verið dæmdur fyrir löglausar stjórnarathafnir og ríkið þurft að borga skaðabætur fyrir. Það hefur ekki enn hent ræðumann þannig að ég verð að segja alveg eins og er, að mér fannst hv. 2. þm. Norðurl. v. vera furðu digurbarkalegur þegar hann talaði hér í gær. ( Gripið fram í: Hvar er hann?) Hann er flúinn af hólmi, hv. þm., og þorir greinilega ekki að sitja hér undir þessari umræðu. Ég skil hann vel af því að nú skal farið að vitna í hugarverk hans.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson sagði í umræðum um fjáraukalög á Alþingi 9. nóv. 1989 að ríkisstjórnin væri með áform um að lækka útgjöld ríkisins vegna fjárfestinga um 650 millj. kr. Þar af hafði þáv. samgrh., núv. ræðumaður, fallist tregur til á það að lækka útgjöld til vegaframkvæmda um 33 millj. heilar, 33 millj. En hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði um þetta mál, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel útilokað annað en að Alþingi taki þetta mál alveg sérstaklega fyrir og ef Alþingi ætlar sér að fallast á niðurskurð af þessu tagi sé það ákveðið hvar þessi niðurskurður á að koma niður en það sé ekki til frjálsrar meðferðar hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstjórnar hvernig því verður ráðstafað og hvaða ákvörðunum Alþingis við afgreiðslu fjárlaga eða afgreiðslu vegáætlunar fyrir þetta ár sé kippt til baka. Þetta vil ég að sé alveg skýrt, og ég tel það vitaskuld afar einkennilega að verki staðið,`` --- hæstv. samgrh., hlustaðu nú á flokksbróður þinn sem talaði á Alþingi 9. nóv. 1989, hv. þm. Pálmi Jónsson, 2. þm. Norðurl. v. sagði: ,,Ég tel það vitaskuld afar einkennilega að verki staðið, að maður taki nú ekki sterkar til orða, og afar óviðfelldið að um leið og verið er að taka ákvarðanir um það að auka útgjöld ríkisins um meira en 8 milljarða kr. umfram það sem fjárlög kveða á um

skuli á sama tíma verið að kippa til baka ýmsu af því sem Alþingi taldi við afgreiðslu fjárlaga og afgreiðslu vegáætlunar vera nauðsynjaverk í framkvæmdum og hefur samþykkt,`` --- afar ógeðfellt og afar einkennilega að verki staðið, sagði hv. þm. Er þetta sem sagt ekki lengur ógeðfellt, hv. 2. þm. Norðurl. v.? Ekki lengur afar einkennilega að verki staðið? Er ekki lengur ástæða til þess að Alþingi fjalli um þetta alveg sérstaklega? Er það ekki lengur óviðunandi að einstakir hæstv. ráðherrar ráðskist með þetta að geðþótta? Er það allt gleymt og allt í lagi?
    Hv. þm. Pálmi Jónsson talaði oftar um þetta mál en ég hef ekki haft tíma til þess enn þá að finna öll gullkornin sem út úr honum komu á þessum haustdögum og vetrarmánuðum 1989 og 1990. Ég veit t.d. að einhvers staðar í þingtíðindunum eða annars staðar sagði hv. þm. frá því til marks um níðingsskap þáv. samgrh. og fjmrh. að svo skepnulegir hefðu þeir verið í sér að þeir hefðu lagt til að skera niður 1 -- 2 millj. kr. í vegarspotta í Húnavatnssýslum sem lægi heim að bæ þar sem byggi hjartveikur bóndi. Þetta var innlegg í umræðuna af hálfu hv. 2. þm. Norðurl. v. á þessum árum til marks um skepnuskap auðvitað þess sem hér talar, að ég hafi lagt mig í líma við það að leita uppi vegarspotta heim að bæjum þar sem menn væru hjartveikir og koma í veg fyrir það að vegirnir væru byggðir upp sjálfsagt í von um að þeir hrykkju upp af í ófærðinni einhvern vetrardaginn. Svona var málflutningur hv. þm. og ég skal fara í það að leita þetta uppi í þingtíðindunum eða fjölmiðlum eða hvar þetta var, en ég man þetta mjög skýrt, út af 33 millj. kr. áformuðum frestunum á framkvæmdum sem þá var verið að ræða um. Meira var það ekki þá. Hér er verið að tala um 350 millj. kr.
    En síðan segir hv. 2. þm. Norðurl. v., og er þá orðinn enn skörulegri í málflutningi og afdráttarlausari um þessa ósvinnu ríkisstjórnarinnar, hinn 21. des. 1989 í umræðum um fjáraukalög á Alþingi, með leyfi forseta, upp úr þingtíðindunum:
    ,,Það er einnig sérkennilegt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að nýr meiri hluti á Alþingi, eins og hann kallaði það, geti breytt fyrri ákvörðun. Nú mega kannski vera deilur um það hvort nýr meiri hluti sé á hv. Alþingi. Ég lít ekki svo á. En þó nýr meiri hluti væri á Alþingi getur hæstv. ríkisstjórn ekki breytt ákvæðum vegáætlunar né ákvæðum fjárlaga án þess að fara með málið í gegnum löggjafarsamkunduna. Engin heimild er til þess, hvorki fyrir hæstv. samgrh. né hæstv. ríkisstjórn, að skera niður fé til einstakra verka upp á einsdæmi. Þess vegna verður málið að hljóta staðfestingu Alþingis og fá þá eðlilegu meðferð í þingmannahópum sem vegamál ævinlega hafa hlotið svo að þetta sé mögulegt,`` sagði hv. þm. Pálmi Jónsson, 2. þm. Norðurl. v. ,,Staðreyndir málsins eru þær`` sagði hann enn fremur síðar, ,,að Alþingi hefur afgreitt vegáætlun og henni verður ekki breytt nema með nýrri ákvörðun Alþingis.``
    Ég hef nú gert hv. þm. þann heiður að vitna í hugverk hans, ræður hans á Alþingi og hann talaði alveg skýrt þarna. Undir þetta tóku ýmsir fleiri. Hv. þáv.

formaður fjvn. studdi hv. þm. Pálma Jónsson í þessari afstöðu og fleiri garpar og skörungar gerðu það með drengilegum og eftirminnilegum hætti, m.a. í minn garð, og ég vænti þess að þessar hetjur séu sjálfum sér samkvæmar og engin breyting hafi orðið á þeirra sannfæringu í þessum efnum. Þá þarf auðvitað ekki vitnanna við að niðurskurður hæstv. samgrh. er með öllu ómark, algert bull og rugl, ekkert mark á honum takandi. Við þurfum engar áhyggjur að hafa af því. Vegaframkvæmdir verða ekki minnkaðar, þar sem ekkert liggur fyrir um að hæstv. ríkisstjórn hyggist afla samþykkis Alþingis við slíku. Hún hefur ekki óskað eftir því. Það liggur ekkert þingmál hér fyrir. Það er ekki beðið um afstöðu þingsins til þess. Málið er alveg skýrt, eða hvað? Ég veit að þeir garpar á landsbyggðinni hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. þm. Austurl. Egill Jónsson, gæti verið 3. þm. þvísa kjördæmis nú eða eitthvað svoleiðis, telja það ekki eftir sér að koma hér upp og staðfesta mín orð í þessu sambandi.
    Hæstv. heilbrrh. er ekki þekktur fyrir það að skipta um skoðun, fyrir það að komast í mótsögn við sjálfan sig, aldeilis ekki. ( ÓRG: Hvar er hann?) Aldeilis ekki. Hann hlýtur að styðja þetta. Var hann þá bara meðvitundarlaus á ríkisstjórnarfundinum þegar þetta var ákveðið, eða hvað? Eða ekki viðstaddur? ( Gripið fram í: Hann var á hælinu.) Hann hefur verið austur í Hveragerði líklega. En hvað um það, herra forseti. Ég læt þá lokið þessari umfjöllun minni um þennan niðurskurð. Ég skammast mín ekki fyrir að hafa tekið hér svolítinn tíma til þess að setja þetta mál í svona tiltekið sögulegt samhengi. Ég tel að ég hafi fullan rétt á því og það sé skylda mín sem þingmanns hér. (Gripið fram í.) Menn eru eitthvað órólegir út af fundatímanum. Það er kominn einhver óróleiki í vissa líkamshluta á sumum mönnum. (Gripið fram í.) Nei, það stendur ekki til, hæstv. fjmrh. og það eru nú einhverjir aðrir sem hafa þörf fyrir að gera það þessa dagana.
    Þá að lokum nokkur orð út af ummælum og umræðum sem hér hafa orðið um einn þátt ríkisútgjaldanna, þann sem tengist landbúnaðarmálum og svonefndum búvörusamningi í samkomulagi ríkisvaldsins og bænda um landbúnaðarstefnu og búvöruframleiðsluna næstu árin, sem óneitanlega er eitt af stórum málum fjárskuldbindinga ríkisins og ríkissjóðs hér á næstu árum. Sú umræða öll var svo sérkennileg, hæstv. forseti, sem ég veit að forseti gæti tekið undir ef hann væri að blanda sér í umræðurnar, að ég held að það verði í minnum haft af þeim sem með því fylgdust hvernig hún þróaðist, sú umræða um landbúnaðarmál og væri auðvitað ástæða til þess að fara rækilega yfir það hvernig yfirlýsingar gengu á víxl í þeim efnum. Tímans vegna sleppi ég því nú og líka af hlífð við hæstv. ríkisstjórn að vera ekki að tæta hana meira í sundur, þetta flak sem hún er þegar orðin, en ástæða er til. En því er nú þannig háttað að hér er alvörumál á ferðinni. Það er ekki bara þannig að það sé hægt að ræða þetta svona sem kennslubók um það að ríkisstjórnin hafi ekki stefnu og sé í mótsögn við

sjálfa sig, einn segi þetta og annar hitt. Ef það kæmi ekki öðrum við en hæstv. ríkisstjórn og aðrir yrðu ekki fyrir barðinu á því, þá mundi ég láta það eiga sig núna, 30. maí. Ég mundi gera það. En bara því miður stendur ekki þannig á. Hér er stórt og viðamikið hagsmunamál heillar atvinnugreinar og heillar stéttar í landinu á ferðinni og það er ekki hægt að una við það að Alþingi fari þannig heim að ekki skýrist línur í afstöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessu sambandi. Sá sem hér stendur getur ekki sannfæringar sinnar vegna annað en gert það sem í hans valdi stendur til þess að reyna að knýja fram slíkar skýrar línur af því að ég er svo sannfærður um að það væri mikið óhapp ef svo færi að þetta mál yrði í uppnámi eftir að þing færi heim, ef hæstv. ríkisstjórn gerir ekki með einhverjum hætti hreint fyrir sínum dyrum. Og auðvitað er best að hún geri það hér á Alþingi. Auðvitað er það langbest og langeðlilegast að hæstv. ríkisstjórn noti tækifærið þar sem umræður eru uppi um málið hér á Alþingi og geri þingheimi grein fyrir sinni afstöðu í þeim efnum. Við getum ekki beðið eftir því að búið verði að ritskoða eða ritstýra eða semja blöðin í hina hvítu bók þangað til hún kemur út í jólabókaflóðinu. Það er ekki nóg. Íslenskir bændur, forsvarsmenn landbúnaðarins, Stéttarsamband bænda, búnaðarsamböndin, Búnaðarfélagið og alþingismenn geta ekki látið bjóða sér það að þetta stóra og viðamikla hagsmunamál verði bara skilið eftir í uppnámi og haldist svo fram á haust - eða vetrardaga. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki búið við það. --- Og hvernig er það, herra forseti. Það er ekki nokkur leið að hæstv. ríkisstjórn tolli í þingsalnum. Þeir eru eins og fló á skinni, fjmrh., landbrh. og aðrir sem hefðu ástæðu til þess að sitja undir þessari umræðu. Ég er að vísu þakklátur fyrir að hæstv. sjútvrh. er hér og þykir mér nærvera hans betri mörgum öðrum úr þessum klúbbi í ríkisstjórninni. En ég hefði gjarna viljað hafa þá hér, fjmrh. og landbrh., eða hefur stjórnin ekki áhuga á því að greiða fyrir þessari umræðu?
    Þetta gekk þannig til í umræðum um landbúnaðarmálin að hæstv. utanrrh. sagði aðfararnótt þriðjudagsins að það væri alveg nauðsynlegt að skera niður útgjöld til landbúnaðarmála um marga milljarða króna til þess að unnt væri að ná endum saman í ríkisfjármálum. Og hann varð ekki skilinn öðruvísi, hæstv. utanrrh., en hann væri að vísa til búvörusamningsins og hann teldi að fjmrh. ætti að hafa óbundnar hendur af því að skera hugsanlega niður búvörusamninginn. Þetta þóttu okkur nokkur tíðindi og ill og hæstv. ráðherrar voru spurðir.
    Hæstv. landbrh. kom í ræðustólinn og sagði, eins og hann hefur gert nokkrum sinnum áður og þökk sé honum fyrir það: Ég vil virða búvörusamninginn. Og mikið meira var það ekki sem hæstv. landbrh. sagði, enda þurfti hann þess ekki. Það var gott og blessað sem hann sagði og hefði það bara fengið að standa, þá hefðu menn getað komið í ræðustólinn og þakkað fyrir og sagt: Gott, þetta er þá komið á hreint. Landbrh. ætlar að virða búvörusamninginn og því er ekki mótmælt af hálfu annarra aðila í ríkisstjórninni. En

því miður ( Gripið fram í: Þá er þingið bara búið.) Þá er þingið búið og ég farinn alla vega úr þessum ræðustól fyrir löngu. En því miður stóð það ekki. Því miður gerðist það ekki, því að hæstv. forsrh. tölti hér ekki færri en þrjár ferðir í ræðustólinn í gær og bætti um betur í hverri þeirra, fyrst með því að gera hæstv. utanrrh. náttúrlega algerlega ómerkan varðandi undirplaggið um landbúnaðarmálin. Hann berháttaði það svo gersamlega að það var ekki pappírsins virði í lokin. Fyrst var það bara eitthvert plagg stjórnmálaflokks. Síðan hafði það enga stjórnskipulega merkingu, tengdist ekki búvörusamningnum á nokkurn hátt og maður beið bara eftir að hann kæmi eina ferðina einn og segði að það væri ekki til, þetta plagg, sem utanrrh. hafði vitnað í. --- Ég bið hæstv. landbrh. að vera rólegan, þetta kemur allt saman. ( Fjmrh.: Það er hægt að skála við ræðumann.) Já, ég skála við hann við tækifæri, ég og hæstv. landbrh., og í öðru en vatni.
    Þetta fór auðvitað þannig að eftir þau ummæli sem hæstv. forsrh. lét falla hér var þetta mál aftur komið í uppnám og í raun og veru meira en það. Það var í verri stöðu en það var eftir blaðrið í utanrrh., m.a. vegna þess að við höfum verið að læra það þessa dagana að það á ekkert mark að taka á utanrrh. Skilaboðin frá hæstv. forsrh., sjútvrh. og hæstv. landbrh. hafa yfirleitt verið þau undanfarna daga: Æ, verið ekki að taka mark á Alþfl., takið ekki mark á utanrrh. Það er ekkert heiðursmannasamkomulag til eða það er alla vega ekki svona. Það verður engin veiðileyfasala. Búvörusamningurinn verður virtur. Það er ekkert plagg til sem neinu máli skiptir í landbúnaðarmálum. Þetta hafa alltaf verið skilaboðin, þess vegna kipptu menn sér ekki allt of mikið upp við það þó að hæstv. utanrrh. væri eitthvað að nudda um þessi landbúnaðarmál eins og þeir kratar yfirleitt eru því að það væri alveg marklaust og stæði ekki til í þessari ríkisstjórn að gera neitt með það. En það var því miður ekki hægt eftir að hæstv. forsrh. hafði talað svona.
    Svo kom hæstv. fjmrh. í gærkvöldi og var enn með nýja rós í þennan vöndul. Þá var það eitthvað um það, að búvörusamningurinn --- ja, það orkaði tvímælis að fyrir honum hefði verið þingmeirihluti. Og allt í einu var Alþfl. farinn að sverja hann af sér að fullu og öllu. Það er kannski nauðsynlegt að fara yfir það hvernig það mál formlega séð stóð. Það stóð þannig að Alþfl. lagðist ekki gegn undirskrift búvörusamningsins. Hann hafði fyrirvara þar um ákveðin atriði sem þyrftu að koma í framhaldinu. Það er rangt sem hæstv. utanrrh. kallaði fram í, að Borgfl. hafi haft þar til enda nokkurn fyrirvara. Það gerði hann ekki. Ég bið menn að kalla til vitnis þá forsvarsmenn Borgfl. á þeim tíma. Það var komið til móts við óskir þeirra um tvö tiltekin atriði í samningnum og þeir féllu frá öllum fyrirvörum og studdu samninginn eins og hann lagði sig. Síðan er rétt að minna á það að Alþfl. studdi samninginn á Alþingi í tvígang við atkvæðagreiðslu með atkvæði sínu áður en þing fór heim. Það er auðvitað alveg út í loftið að tala svo um það núna að ekki hafi verið eðlilegur bakgrunnur í þingræðislegum skilningi fyrir þessum samningi, alveg út í hött. Og þó svo menn vilji ræða um þessa lögformlegu hlið málsins og spyrja sig að því: Var þetta löggerningur? Er ríkisstjórnin bundin af samningnum? þá er það auðvitað pólitíkin í málinu sem mestu máli skiptir. Hvað vill hæstv. ríkisstjórn? Vill hún virða samninginn eða ekki? Hver er afstaða hennar, hvað sem lagakrókunum líður? Og eins og ég hef áður sagt trúi ég því ekki að hæstv. ríkisstjórn sé svo gæfulaus að hún ætli bara hugsunarlaust að henda þessari víðtæku samkomulagsgerð frá sér.
    En vegna þess að lagaatriði hefur borið hér á góma vil ég bera fram þá spurningu við hæstv. fjmrh., og ég geri það bæði sem þingmaður og fyrrv. landbrh. af því að mér er málið skylt: Vill hæstv. fjmrh. afhenda mér álit ríkislögmanns um lögmæti eða skuldbindingar búvörusamningsins gagnvart ríkisstjórninni? Vill hæstv. fjmrh. afhenda mér álit ríkislögmanns, sem ég veit að er til, um þetta atriði? Ég tel mig hafa nokkra heimtingu á því sem alþingismaður og sem fyrrv. landbrh. að fá það í hendur. Hæstv. fjmrh. er velkomið að afhenda mér það í trúnaði ef hann vill, en ég hefði gjarnan viljað fá það. Reyndar tel ég að allir hv. alþm. ættu að fá það því það á ekki að leyna Alþingi upplýsingum sem þegar liggja fyrir. Eða er það eitthvað sem er vandræðalegt fyrir hæstv. ríkisstjórn í þessu áliti ríkislögmanns? Getur það hugsast að ríkislögmaður segi í áliti sínu að ríkisstjórnin sé algerlega skuldbundin af þessum samningi? Getur það hugsast að ríkislögmaður segi, sem ég tel líklegast og get mér þess vegna til, að
þetta sé ósköp einfaldlega fullkomlega gildur löggerningur af hálfu ráðherranna sem undir hann skrifuðu og þar með sé það embættisskylda núv. hæstv. landbrh. og núv. hæstv. fjmrh. að framkvæma samninginn, að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar, að fullgilda hann og fullnusta og leggja þær fram hér á Alþingi? Það þykir mér langlíklegast að sæmilega góður lögmaður eins og ríkislögmaður og hans stafsfólk segi í sínu áliti af því að það er rétt. Af því að það er það sem er rétt. Ef þarna stendur eitthvað annað þá eru það tíðindi sem við hv. alþm. þurfum að fá fregnir af sem fyrst.
    Ég tel sem sagt, virðulegur forseti, og þess vegna tek ég þetta hér upp í umræðunni, mér er ómögulegt að gera annað, að samvisku minnar vegna geti ég ekki skilið við þetta mál svona. Það er allt of mikið í húfi til þess og Alþingi verður að vera að störfum á meðan það hefur brýnum skyldum og brýnum verkefnum að gegna, svo einfalt er það mál. Til þess er nú einu sinni þjóðþingið að halda vel utan um hagsmuni þjóðarinnar og láta sig varða hin mikilvægustu mál og þetta er tvímælalaust mjög mikilvægt mál. Ég get ekki farið frá þessu máli svona gjörsamlega í uppnámi eins og misvísandi yfirlýsingar ráðherra bera vott um, sem hafa skotið yfirlýsingar hvers annars niður hér á víxl eina og þeir væru á leirdúfuskytteríi með marghleypu. Ég get ekki skilið þannig við þetta mál. Það er algerlega óboðlegt að þingið fari heim og hæstv. ríkisstjórn ætli kannski að aka sér undan því að svara skýrt til um þetta mál.

    Það er ekki hægt líka vegna hæstv. landbrh. Það er ekki hægt að gera honum það að skilja hann aleinan eftir inni í ríkisstjórninni með málið í þessu ástandi. M.a. vegna þess að hæstv. landbrh. hefur gefið út starfsreglur um uppkaup á fullvirðisrétti og samninga við bændur sem tengjast aðlögun landbúnaðarins að breyttum aðstæðum og eru hluti af þessum samningi. Dettur mönnum virkilega í hug að forsvarsmenn bænda séu svo litlir karlar að þeir uni því að það sé verið að framkvæma hinn sársaukafulla hluta samningsins gagnvart þeim á sama tíma og ríkisstjórnin er með umræður um það uppi að skera hitt niður? Hvers konar samningar væru það? Hvers konar vinnubrögð eru það? Hvers konar framkoma er það gagnvart einum viðsemjanda? Að ætla honum að framkvæma það sem til hans heyrir og er honum óhagstætt en ræna svo e.t.v. af honum í haust öllu því sem hann á að fá á móti.
    Það gengur ekki svoleiðis fyrir sig. Þessi samningur er ein heild. Og ég veit að ríkislögmaður hlýtur að segja það í sínu áliti. Þess vegna var það alveg með ólíkindum að heyra hæstv. forsrh. tala um að fá á því álit hvort ríkisstjórnin væri bundin af þessum hluta hans, af einstökum hlutum samningsins. Þetta er ein heild. Viðauki II sem bæði landbrh. og fjmrh. skrifa undir er nákvæmlega jafngildur hluti samningsins og önnur ákvæði hans. Nákvæmlega eins. Og ég minni hæstv. núv. fjmrh. á það að forveri hans skrifar undir báða viðaukana um fjármálaskuldbindingar samningsins. Ég veit að hæstv. núv. fjmrh. hlýtur að átta sig á því hvaða þýðingu það hefur. Það var auðvitað ekki gert út í loftið. Að sjálfsögðu ekki.
    Hæstv. forsrh. hafði uppi þau orð hér í gær líka um þetta mál að það hefði verið óheppilegt að ríkisstjórnin gekk frá búvörusamningi skömmu fyrir lok kjörtímabilsins. Ég kemst ekki hjá því að svara þessu nokkrum orðum. Í fyrsta lagi segi ég nú: guði sé lof að það tókst. Og það held ég að margir fleiri segi þessa dagana vítt og breitt um landið, þakka sínum sæla fyrir að það eigi ekki undir þessa herra að sækja eins og þeir birtast okkur um þau mál. Ég veit meira að segja að ýmsir taka undir með mér í hjarta sínu þó þeir vilji auðvitað ekki viðurkenna það hér og ég ætlast ekki til þess. Ég ætla ekki að særa það út úr þeim.
    En þannig var þetta nú að það var unnið hörðum höndum að því að koma á þessum samningi samfellt í hartnær tvö ár. Þetta er ósköp einfaldlega svo viðamikið mál að það tók þann tíma að innsigla þetta samkomulag. Menn ættu að þekkja bakgrunninn í því sambandi. Í fyrsta lagi þurfti að útkljá ágreiningsefni sem voru uppi í framkvæmd gamla búvörusamningsins. Það þurfti að fara í viðamikla heimildasöfnun. Það stóðu yfir miklar viðræður og í þriðja lagi komu síðan aðilar vinnumarkaðarins inn í þessa vinnu og áttu sinn þátt í þeirri víðtæku sáttargjörð sem varð um þetta mál að lokum. Og ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. úr því að hann er einn hér eftir, nei fyrirgefðu, hæstv. landbrh., ykkur báða spyr ég: Skiptir það engu máli í þessu sambandi varðandi afstöðu ríkisstjórnar, hvað sem lagakrókum líður, hvað sem ríkisfjármálum

líður, að þessi búvörusamningur var innsiglaður með mjög víðtæku samkomulagi í þjóðfélaginu? Milli stjórnvalda, bændasamtakanna og aðila vinnumarkaðarins, sem áttu þátt í að móta þær tillögur sem mynda að nokkru leyti grundvöll samningagjörðarinnar. (Gripið fram í.) Og hæstv. landbrh. hefur talið að þetta skipulag hafi gefist svo vel að hann hefur ákveðið að setja þessa nefnd á eins og hann upplýsti hér í umræðunum í gær, hæstv. fjmrh., og lýsir þar með beinum stuðningi við það að halda þessu áfram.
    Sá var munurinn á, hæstv. fjmrh., og það er ástæða til að fara þá yfir það úr því að hér er kallað fram í, að sjö manna nefnd vísaði ákveðnum þáttum málsins til stjórnvalda af eðlilegum ástæðum og sagði: Það er ekki okkar að taka pólitískar ákvarðanir um byggðaáhrif þessara skipulagsbreytinga í landbúnaðinum. Það er ekki okkar að taka pólitískar ákvarðanir um gróðurverndarmál eins og þau tengjast landbúnaðinum. Það gera aðrir aðilar. Við erum hér að tala um innra skipulag landbúnaðarframleiðslunnar og skila tillögum um það.
    Þetta var hárrétt hjá sjö manna nefnd. Af eðlilegum ástæðum tók síðan ráðuneytið og samningsaðilarnir við málinu frá sjö manna nefnd eins og það kom og útfærðu tillögurnar á þessum sviðum. Það lá í hlutarins eðli, hæstv. fjmrh., að slíkar breytingar yrðu á samningnum á lokastigi. Og það var alltaf yfirlýst að þær mundu koma inn í samninginn. Þá skilur vonandi hæstv. fjmrh. það.
    En ég spyr um þetta. Og af því að það er verið að ræða um það að menn vilji halda í þjóðarsátt og framlengja hér skynsamlega kjarasamninga þá minni ég á að þetta samstarf aðila vinnumarkaðarins, bændasamtakanna og ríkisvaldsins er sprottið upp úr þjóðarsáttarsamningnum. Það var liður í þeim samningum að reyna að fara í þær skipulagsbreytingar í landbúnaði sem gætu leitt til lægra vöruverðs og minni útgjalda hjá ríkissjóði. Hæstv. ráðherrar eru hér að barma sér undan erfiðri stöðu í ríkisfjármálum. Eru þeir búnir að gleyma því að þessi búvörusamningur mun spara ríkinu milljarða króna á milljarða ofan miðað við þau útgjöld sem verið hafa til landbúnaðarmála ef óbreyttri stefnu hefði verið haldið? (Gripið fram í. ) Vill ekki hv. 3. þm. Austurl. koma hér í ræðustól á eftir og rökstyðja það þá?
    Mér finnst því dálítið sérkennilegt að það skuli eins og tapast út úr umræðunni hvað þarna er þrátt fyrir allt verið að reyna að gera. Eða ætlar ríkisstjórnin bara að henda því? Og hvað ætlar hún þá að gera ef hún ætlar ekki að virða búvörusamninginn? Hver er þá landbúnaðarstefna hennar? Þá er ég hræddur um að hæstv. landbrh. komist í vanda. Eða hæstv. forsrh. Hvað segir hann í sinni stefnuræðu um landbúnaðarmál? Muna menn það? Hann segir að stefna stjórnarinnar sé að framkvæma þá stefnu sem stjórnvöld og bændur hafi komið sér saman um á undanförnum árum. Það var nú það sem hæstv. forsrh. sagði. Hann er því ekki aðeins farinn að bora göt á vin minn landbrh. heldur er hann farinn að skjóta sjálfan sig í lappirnar í raun og veru með þeim yfirlýsingum sem hann gaf hér í gær. Þannig er nú það.
    Hvað heitir svo búvörusamningurinn, af því að hæstv. forsrh. talar um stefnumörkun milli bænda og stjórnvalda í landbúnaðarmálum? Hann heitir stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Hann heitir það. Það er yfirskrift plaggsins. Undirtitill er samningur. Ég taldi hæstv. forsrh. ekki geta talað skýrar en hann nákvæmlega sagði í sinni stefnuræðu. Að hann væri að tala um þessa stefnumörkun því þetta er það eina sem þessir aðilar hafa á síðustu missirum innsiglað með þessum hætti og heitir stefnumörkun.
    Ég held, herra forseti, og ég vona að þetta sé komið sæmilega til skila sem ég hef hér haft fram að færa um þetta mál. Ég bíð nú svaranna hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er gjörsamlega óhugsandi að stjórnin ætli sér að komast upp með það að fara heim án þess að gefa með einhverjum hætti á þessum dögum skýr svör. Best er auðvitað og eðlilegast að þau komi fram hér á Alþingi. Ef stjórnin vill gera það með bréfi til bændasamtakanna eða með einhverjum öðrum hætti er það í góðu lagi mín vegna. Mér er kunnugt um að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki ónáðað forustu Stéttarsambands bænda mikið undanfarna daga með þeirri undantekningu að hæstv. landbrh. hefur haft samband við forustu Stéttarsambandsins en aðrir ráðherrar hafa ekki gert það. Ekki hæstv. fjmrh., sem talar hér um fjárskuldbindingar með tilteknum hætti, ekki hæstv. forsrh., ekki hæstv. utanrrh. Það hefur lítið farið fyrir samráðinu við bændasamtökin sem eru þó viðsemjendur þeirra að þessu leyti.
    Nú, herra forseti. Ég læt þá lokið máli mínu og bíð hér svo svara hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra. Ég vona að þau verði gefin skýr og afdráttarlaus. Og ég vil að lokum taka það fram að ef þau svör koma ekki hér þá mun ég sjá mig knúinn til að óska eftir sérstakri umræðu um þetta mál áður en Alþingi fer heim. Það er óhjákvæmilegt. Svörin verða að fást.