Ríkisfjármál 1991
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leitast við að svara nokkrum af þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða lengi efni þeirra ræðna sem hér hafa verið fluttar þótt full ástæða sé til, heldur mun ég reyna fyrst og fremst að beina sjónum mínum að fyrirspurnum sem beint hefur verið til mín.
    Það fyrsta sem verður á vegi mínum er að ræða þá fyrirspurn hvort fyrirhuguð skerðing á lánum úr Lánasjóði ísl. námsmanna væri tímabundin eða varanleg. Það eina sem ég get sagt um þetta á þessari stundu, og segi það auðvitað í forföllum menntmrh., er að það framlag sem gengur nú til Lánasjóðs ísl. námsmanna er heldur meira en stóð til að veita Lánasjóðnum á síðari hluta þessa árs. Niðurskurðurinn sem nú á sér stað miðar að því að ekki þurfi að leggja sjóðnum meira til á þessu ári. Hvort þessi ráðstöfun er tímabundin eða varanleg er heldur ekki hægt að segja um á þessari stundu því að þessar ráðstafanir sem nú eru gerðar eru eingöngu gerðar með útlánareglubreytingum og reglugerðarbreytingum. Á næstunni er fyrirhugað að setja á stofn nefnd sem endurskoðar lög Lánasjóðsins en þau hafa verið nánast óbreytt í tíu ár. Má þá gera ráð fyrir að gerðar verði breytingar á þeim lögum sem ugglaust geta orðið til þess að breyta útlánareglum jafnframt. Sú breyting yrði a.m.k. varanleg.
    Hér hefur verið spurst fyrir um það hvort þessar aðgerðir sem er að finna í skýrslunni verði lagðar fyrir þingið og það verður að sjálfsögðu gert. A.m.k. þær aðgerðir sem eru breytingar á lögum, enda er það skylda. Það er auðvitað skylda að leggja fyrir þingið í fjáraukalögum þar sem verið er að breyta fjárlögum, jafnvel þótt deildar meiningar séu um hvort skylt sé að setja fjármuni sem til eru á fjárlögum í ákveðna framkvæmd eða ákveðna rekstrarliði, því sumir hafa haldið því fram að fjárlög séu einungis heimildarlög fyrir ríkisstjórn, bæði hvað varðar tekjur og útgjöld. En samkvæmt venju mun það auðvitað verða gert að leggja fram fjáraukalög þar sem þessar breytingar verða sýndar.
    Ég vek athygli á því að fyrri ríkisstjórn gerði ýmsar útgjaldabreytingar frá fjárlögum án þess að hafa nokkra heimild Alþingis til þess, en ætlaði síðar á árinu að leggja þessar breytingar fyrir þingið í fjáraukalögum. Það er nákvæmlega sömu sögu að segja um þær breytingar eins og þær breytingar sem nú verða gerðar. Þær verða að sjálfsögðu lagðar fram í fjáraukalögum.
    Hv. 8. þm. Reykn. sagði að lítið væri að marka sumar tölur sem kæmu frá ráðuneytinu og benti máli sínu til stuðnings á skýrslu sem hefði komið fram á árinu 1990, ef ég man rétt. Ef ég veit rétt, þá mun sú skýrsla hafa fyrst og fremst verið um það að sýna fram á óskir viðkomandi ráðuneyta um það hvað ætti að setja í fjárlög. Af því tilefni vil ég segja að ef slíkar óskir yrðu skráðar í skýrslu vegna fjárlagaundirbúningsins, þá get ég vel ímyndað mér að sá óskalisti gæti numið tugum milljarða umfram það sem hægt er að verða við.
    Hv. þm. spurðist fyrir um það hvort ætlunin væri að sækja þær tekjur sem ákveðið hefði verið að sækja þegar fjárlög voru afgreidd. Í því sambandi vil ég segja þetta: Það var gert ráð fyrir því að sérstök hækkun á áfengi og jöfnunartollar gæfu 500 millj. Til þess að hægt hefði verið að ná tekjum með hækkun á áfengi og tóbaki hefði slík hækkun þurft að koma í upphafi árs. Það var ekki gert né heldur á þeim tíma sem eðlilegt hefði verið að hækka áfengið, sem hefði þá verið í mars, heldur var hækkunin dregin og fyrsti hluti þeirrar hækkunar kom ekki fram fyrr en nú fyrir nokkrum dögum. Með sama hætti eru ekki efni til þess að leggja á jöfnunartolla sem gefa þessar tekjur því að samkvæmt áliti tekjudeildar mun jöfnunartollurinn gefa um 80 millj. ef hann væri lagður á nú.
    Ég bendi enn fremur á að það sem hefur lækkað tekjuáætlunina eru 400 millj. sem áttu að koma frá Aðalverktökum á þessu ári, en fyrrv. fjmrh. heimti inn á sl. ári. Ég efast um að jafnvel hv. 8. þm. Reykn. geti farið aftur til Aðalverktaka og sagt: Ég vil fá þessar 400 millj. á nýjan leik.
    Hlutafjárkaup eru talin rýra tekjuskatt um 400 millj., þ.e. skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa. Það þyrfti lagabreytingu til þess að ná þessum fjármunum inn og dygði varla til því að þar yrði um afturvirka breytingu að ræða í orðsins fyllstu merkingu.
    Þá er til viðbótar þess að geta að 300 -- 500 millj. er upphæð sem tekjuáætlunin lækkaði um vegna þess að ákveðið var að setja minni skatta á fyrirtækin í landinu eftir viðræður við m.a. Vinnuveitendasambandið í framhaldi og meðfram þeim kjarasamningum sem gerðir voru á sl. hausti.
    Þetta vildi ég að kæmi fram því að þetta skýrir það hvers vegna tekjulækkun hefur orðið og jafnvel þótt veltuaukning verði á móti, þá efast ég um að tekjurnar náist. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að það verður varla hægt að ná í nýjar tekjur héðan af á árinu nema með lagabreytingu. Hann hefur að vísu nefnt jöfnunargjaldið, en það gildir það sama um jöfnunargjaldið. Ef heimta á inn jöfnunargjaldið allt árið, sem vissir aðilar segja að sé ekki hægt, allra síst núna þegar við stöndum í samningum vegna EES, þá þarf lagabreytingu til þess að af því geti orðið.
    Varðandi það að ekki sé hægt að sjá meira en 3,6 milljarða út úr áformum ríkisstjórnarinnar um aðhaldsaðgerðir vil ég segja það, og þarf ekki að nefna þessa 3,5 milljarða sem mér sýnist menn nokkuð sammála um, að munurinn felst í því að þeir sem gagnrýna þessar ráðstafanir taka ekki mark á því þegar Húsnæðisstofnun endurgreiðir lán sitt, en þess ber að geta að Húsnæðisstofnun og Byggingarsjóður ríkisins eru nú í betri efnum en áður til þess að endurgreiða þetta lán vegna vaxtahækkunarinnar. En það var alveg ljóst að að öðrum kosti hefði ekki verið hægt að greiða þessa upphæð til ríkissjóðs sem aftur hefði þýtt að ríkissjóður hefði þurft að taka ný lán til þess að standa undir sínum þörfum.
    Til viðbótar vil ég geta þess að vaxtabreytingin

hlýtur að leiða til þess að það hægist á á húsnæðismarkaðnum og leiðir til þess að samdráttur verður í útgáfu og kaupum með húsbréf. Ég nefni það jafnframt, og ég hygg að hæstv. félmrh. komi að því máli í sinni ræðu, að það er ætlunin að sú nefnd sem nú vinnur að þessu máli skili hugmyndum um það hvernig ná megi jafnvægi á þeim markaði.
    Ég ætla ekki að fjölyrða hér um vexti. Aðeins segja það að vissulega er rétt að það er erfitt að þurfa að taka jafnafdrifaríka ákvörðun og að hækka vexti jafnmikið og gert var. Ástæðan fyrir því er m.a. sú að fyrrv. ríkisstjórn hafði látið undir höfuð leggjast að fylgja markaðsvöxtum um langt bil. Og vegna þess sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykn. um stóra innlausn í febrúar þá er það að sjálfsögðu rétt. Það er einnig rétt hjá honum að það kann að hafa selst meira af bréfum en áður, en auðvitað ber ríkissjóði að líta á nettótölur. Ef um stóra innlausn er að ræða er það sjálfsögð skylda að reyna að sjá til þess að þeir sparendur sem hafa átt slík bréf spari aftur í nýjum bréfum, enda þekkja fyrrv. fjmrh. að það hefur verið eitt helsta einkenni á þeirra ráðstöfunum að reyna að ná áframhaldandi sparnaði hjá ríkinu, en ekki láta það gerast að sparnaðurinn fari annað.
    Ég ræddi það í minni ræðu og það kom enn fremur fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hver yrðu verðlagsáhrif af vöxtunum. Við höfum látið reikna út áhrifin á framfærsluvísitöluna og ég þarf ekki að ítreka það. Það sem hins vegar skiptir kannski máli er að samkvæmt nýrri spá um verðlagsþróun á þessu ári í ljósi ákvörðunar ríkisstjórnarinnar og einnig ákvörðunar aðila vinnumarkaðarins um sérstaka hækkun launa vegna viðskiptakjarabata er reiknað með að vísitala framfærslukostnaðar hækki um 7,8% innan ársins 1991 og 6,7% milli áranna 1990 -- 1991. Til samanburðar var gert ráð fyrir 7% hækkun innan ársins 1991 og 6,8% milli ára í spá sem lá til grundvallar framlengingu kjarasamninganna í nóvember sl. Ástæðan fyrir þessu ferli verðbólgunnar innan ársins og ástæðan fyrir þeirri breytingu sem hefur orðið á fyrri áætlunum er sú að framan af ári voru verðbreytingar hægari en búist var við, m.a. vegna hagstæðra ytri skilyrða, ekki síst lækkandi olíuverðs en einnig vegna þess slaka sem fram kom í ríkisfjármálunum. Vona ég að þetta svari að einhverju leyti þeim fyrirspurnum sem hafa komið fram um verðlagsáhrif aðgerðanna og reyndar verðlagsáhrif nýgerðra samninga um viðskiptakjarabætur.
    Ég get því miður ekki tímans vegna farið hér ítarlega út í það hvernig mætti hugsa sér að breyta greiðslum úr skattgreiðslum skattgreiðenda í neytendagreiðslur notenda eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. ræddi um. Hann bað mig um að skýra það hvernig á því stæði að Byggðastofnun fengi 300 millj. kr. minna lán. Því er til að svara að á sama tíma og ríkissjóður yfirtók 1200 millj. kr. lán af Byggðastofnun var samið um það við forstjóra Byggðastofnunar að Byggðastofnun tæki um það bil 300 millj. kr. minna lán á yfirstandandi ári, en það samsvarar nokkurn veginn því sem ríkissjóður þarf að greiða vegna 1200

millj. kr. lánsins á yfirstandandi ári.
    Hv. þm. gagnrýndi það einnig eins og margir fleiri að niðurskurðurinn bitnaði fyrst og fremst á landsbyggðinni. Því er til að svara að þeir sem skoða fjárlög á hverjum tíma verða strax áskynja um það að greiðslur fara að miklum hluta til út á landsbyggðina. Þess vegna er ekki óeðlilegt þegar þarf að skera niður að það lendi í sama mæli á framkvæmdum á landsbyggðinni.
    Ég ætla ekki að ræða hér um búvörusamninginn. Það verður sérstök umræða um búvörusamninginn í fyrramálið að tilstilli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.
    Það var gagnrýnt nokkuð í ræðu hv. 5. þm. Vestf. að verið væri að skera niður erlenda lántöku vegna RARIK annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Því er til að svara að ætlunin er að þetta framkallist ekki í gjaldskrá nema að mjög óverulegu leyti og ástæðan fyrir því er auðvitað sú að hér er um að ræða frestun á framkvæmdum.
    Ég ætla ekki heldur að ræða það sem kom fram í hans máli en hefði samt verið ástæða til, þ.e. vaxtahækkanir og skattahækkanir. Hv. þm. hélt því fram að vaxtahækkunin jafngilti skattahækkun og í raun væri enginn munur á þessu tvennu. ( SJS: Á húsnæðislánum aðallega.) Á húsnæðislánum aðallega, rétt er það. Á þessu er auðvitað sá mjög mikli munur að skattar eru greiddir vegna þarfa ríkissjóðs eftir föstum ákveðnum reglum sem Alþingi setur, en vextir eru eins og leiga eða annað afgjald og miðast við þá upphæð sem tekin er að láni og aðeins greiddir af þeim sem taka hlutina að láni. Ég veit ekki hvort það fer nú vel á því að ég sé með kennslu hér í því hvað séu vaxtahækkanir og skattahækkanir, en vegna þess að hv. þm. er fyrrverandi nemandi minn í stærðfræði skildi ég hann þannig að hann óskaði eftir því. Ég hef kennt honum það mjög vel eins og fram hefur komið í máli hans og reyndar atvinnu hans sem fjallar um tölur og ég hélt kannski að hann vildi að ég héldi sams konar fyrirlestur um þessi mál og ég gerði í stærðfræði á sínum tíma.
    Hv. 3. þm. Norðurl. e. Valgerður Sverrisdóttir minntist á búvörusamninginn. Ég ætla ekki að fjölyrða um hann, en
bendi aðeins á að 1700 millj. kr. sem koma fram í lánsfjárlögum á yfirstandandi ári eru skýrt afmarkaðar til ákveðinna hluta en ekki nauðsynleg forsenda heildarsamningsins og ætla ég ekki frekar að fara út í þau mál, enda verða þau til umræðu hér síðar.
    Þegar ég fylgdi skýrslunni úr hlaði ræddi ég nokkuð hvaða aðgerðir eru afturvirkar og hverjar ekki. Af því að svo mikil gagnrýni kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni kemst ég þó ekki hjá því að minna á það að efnahagsráðgjafar bæði forsrh. og fjmrh., þeir Már Guðmundsson og Bolli Héðinsson, komust að því ásamt öðrum nefndarmönnum sem fengu það hlutverk að gera tillögur um húsnæðismálin að hækka skyldi alla vexti í gamla húsnæðiskerfinu á öllum skuldabréfum frá 1984. Ég veit ekki betur en Már Guðmundsson sé flokksbróðir hv. þm. og

hann hafi setið í nefndinni á vegum Alþb. eða a.m.k. formanns Alþb.
    Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um að náðst hefur nokkuð víðtækur skilningur á því að þingi ljúki á morgun og þess vegna er hver mínúta dýrmæt í þessari umræðu. Ég hef þess vegna ákveðið að hafa þessi orð ekki fleiri að sinni en ég veit að fleiri ræðumenn eiga eftir að taka til máls og komi fram spurningar af þeirra hálfu mun ég að sjálfsögðu svara þeim síðar í umræðunni.