Þingsköp Alþingis
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Frsm. stjórnskipunar- og þingskapanefndar (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá stjórnskipunar- og þingskapanefnd á þskj. 13 um frv. til laga um þingsköp. Um efnisatriði vísa ég til þess sem fram kom þegar formaður nefndarinnar, hv. 1. þm. Austurl., gerði ítarlega grein fyrir málinu við 1. umr. hér í vikunni. Eins og kom fram í máli hans hélt nefndin sameiginlega fundi með neðrideildarnefndinni og ræddi þá flest atriði frv. og samþykkti fyrir sitt leyti þær brtt. sem afgreiddar voru í Nd. og fluttar voru af stjórnskipunar- og þingskapanefndinni þar. Nefndin hefur einnig komið saman eftir að afgreiðslu Nd. á málinu lauk og er sammála um að mæla með því að frv. verði afgreitt óbreytt frá deildinni eins og það liggur fyrir á þskj. 11.
    Þrír hv. þm. skrifa undir nál. með fyrirvara, þ.e. fulltrúar Framsfl. í nefndinni, hv. 1. þm. Austurl. og hv. 2. þm. Suðurl. Enn fremur skrifar fulltrúi Kvennalistans, hv. 15. þm. Reykv., undir nál. með fyrirvara en ég býst við að þau geri grein fyrir því á eftir í hverju fyrirvari þeirra er fólginn.
    Í nefndinni urðu töluverðar umræður um þá breytingu sem varð á 14. gr. frv. í meðförum Nd. þegar ákveðið var að fjölga nefndarmönnum í fjárlaganefnd úr níu í ellefu. Menn deildu í sjálfu sér ekki um þá ákvörðun að fjölgað skyldi í nefndinni, að vísu voru athugasemdir við það, en meginatriðið í umræðum nefndarmanna var aðferðin sem var beitt við þetta. Menn töldu að þar sem stefnt hefði verið að því við afgreiðslu málsins að samstaða yrði milli þingflokka um málið þá hefði verið betur staðið að málinu með því að hugmyndin um ellefu manna fjárlaganefnd hefði komið fram á fyrri stigum þess en rétt á þessu lokastigi sem raun bar vitni um í Nd. og voru menn í sjálfu sér sammála um það að æskilegt hefði verið að standa þannig að málinu. Á hinn bóginn var á það bent að hér væri um atriði að ræða sem samið hefði verið um milli flokka á þessu stigi og í sjálfu sér væri ekkert óeðlilegt við það að þannig væri staðið að afgreiðslu mála hér á hinu háa Alþingi. Þótt það væri mikilvægt atriði þá væri hitt aðalatriðið, að menn væru í megindráttum sammála um ágæti þess að ellefu manns yrðu í fjárlaganefndinni.
    Á fundum nefndarinnar komu fram nokkur atriði sem nefndin taldi ástæðu til að geta um sérstaklega í nál. þótt ekki væru lagðar fram neinar brtt. frá henni. Þessi atriði eru talin upp í nál. og ég skal gera örstutta grein fyrir þeim.
    1. Stöðugt útvarp frá Alþingi. Nefndin er á einu máli um að kanna beri hvort það sé tæknilega mögulegt og hvaða kostnaður því fylgir að útvarpa á sérstakri rás umræðum frá Alþingi. Slíkt er miklu auðveldara nú eftir að Alþingi verður komið í eina málstofu en þegar tvær deildir störfuðu samtímis. Nefndin leggur til að forsætisnefndin óski eftir því við Ríkisútvarpið að kannað verði hvaða kostnaður fylgi þessu.
    2. Fundatímar þingsins. Nefndin beinir þeim tilmælum til forsætisnefndar að hún kanni nú í sumar

hvort ekki gæti náðst samstaða um að breyta fundatímum þingsins þannig að þeir hefjist eitthvað fyrr en nú er. Áður fyrr hófust þingfundir kl. 1.30 en síðan var reglulegum fundatíma breytt til kl. 2, eins og hann er núna, en fyrir örfáum árum var líka gerð sú breyting að hefja fundi í sameinuðu þingi á fimmtudögum kl. 10, fyrirspurnafundi, og mun það vera mál flestra að það hafi gefist vel. Nefndin er ekki með ákveðnar hugmyndir um hvernig þetta ætti að vera en beinir þessum tilmælum til forsætisnefndar. Eitt ber þó að nefna í þessu sambandi sem ekki má gleymast og það er að fyrir hádegi fer nú fram allt nefndastarf þingsins og það má ekki ganga á þann tíma sem nefndunum er ætlaður til starfa nema gera jafnframt einhverjar ráðstafanir til þess að það starf geti gengið eðlilega fyrir sig.
    3. Meðferð fjárlagafrv. Nefndin er í megindráttum samþykk þeirri skipan sem taka á upp en beinir þeim tilmælum til væntanlegrar fjárlaganefndar og forseta þingsins að gengist verði fyrir því í sumar áður en nefndin hefur störf að setja strax í upphafi einhverjar starfsreglur sem bæði nefndin og fastanefndirnar geta starfað eftir. Að dómi nefndarinnar er hyggilegt að að þessu verki komi bæði fjárlaganefndin, þeir þingmenn sem hafa átt hvað mestan þátt í þeirri vinnu sem fram hefur farið við undirbúning þingskapafrv. og mótuðu þessar hugmyndir á fyrra stigi um breytingar á meðferð fjárlagafrv. og þeir aðilar sem hafa haft mest samskipti við nefndina, þ.e. fjmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun annars vegar og Ríkisendurskoðun hins vegar ásamt auðvitað starfsmönnum Alþingis. Þetta telur nefndin mjög hyggilegt að gera frekar fyrr en seinna.
    4. Störf fastanefnda. Nefndin hvetur til þess að fastanefndir hefji þegar í sumar störf. Þær hafa til þess umboð fram til 1. okt. Það er mikilvægt að þær noti sumarið til þess að undirbúa haustþingið eftir því sem ástæða þykir til.
    5. Húsnæðismál Alþingis. Um þau urðu talsverðar umræður hér við 1. umr. um frv. til stjórnarskipunarlaga. Nefndin beinir því til forsætisnefndar að hún hraði athugun á húsnæðismálum Alþingis í því skyni að fá niðurstöðu í þau mál.
    Ég skal svo ekki, herra forseti, lengja þessa umræðu en legg til að málið verði afgreitt óbreytt til 3. umr.