Þingsköp Alþingis
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Jón Helgason :
    Herra forseti. Mér finnst það satt að segja dapurlegur endir á meðferð þessa máls sem búið er að leggja mikla vinnu í að ná samstöðu um og allir hafa lagt sig fram um það að þá skyldu stjórnarflokkarnir taka til þess bragðs að ákveða að afgreiða það með meirihlutavaldi eftir að nefndarvinnu var lokið. Það er ástæðan fyrir mínum fyrirvara.
    En ég vil láta í ljós þá von og einlægu ósk að þessi vinnubrögð, sem þarna voru tekin upp, boði ekki framhald þeirrar vinnu sem nú þarf að fara fram um þetta mál hér í þinginu.
    Í nefndarstarfinu lögðum við nefndarmenn einmitt áherslu á það að við stjórn þingsins nú að lokinni breytingu yrði reynt að ná sem víðtækastri samstöðu allra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi þannig að um stjórn þingsins, stefnu og vinnubrögð næðist sem best samkomulag. Það veitir sannarlega ekki af því. Að sjálfsögðu hefur þessi breyting í för með sér að að mörgu þarf að hyggja og það nú þegar eftir að breytingin hefur átt sér stað.
    Ég vil taka undir það sem stendur í nál. að nú þegar kjósi fastanefndir sér forustu þannig að þær séu reiðubúnar að hefja störf.
    Þessi breyting þarf að leiða til þess að nefndastörf verði mikilvægari og að einhverju leyti draga úr umræðum um mál í Alþingi. Kannski getur sú hugmynd sem hér er varpað fram um opna nefndafundi og útvarp frá Alþingi, útvarp frá nefndafundum þar sem menn skiptast á skoðunum um málið, komið að nokkru leyti í staðinn fyrir umræðu í þinginu. En ég held að það sé mjög mikilvægt að skipuleggja starfið vel til þess að tíminn nýtist sem best.
    Eitt atriði annað langar mig að minnast á við þetta tækifæri og það eru erlendu samskiptin. Mér finnst það ekki vera mikið sem um þau er fjallað í þessum þingsköpum þó að umfang þeirra fari sífellt vaxandi. Því hlýtur að reyna mjög á ákvæðið sem er í þingsköpunum um það að stjórn þingsins setji þarna ákveðnar reglur til þess að þessi samskipti verði í eðlilegu horfi og sem markvissust og þannig að allir þingmenn geti fylgst með því sem þar fer fram.
    Það er margt meira sem hægt væri að fjalla um en aðalatriðið er þetta að menn taki nú höndum saman og verði samtaka um að vinna að framkvæmd þessarar breytingar þannig að sem best megi fara.