Þingsköp Alþingis
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir nál. stjórnskipunar- og þingskapanefndar með fyrirvara. Mínir fyrirvarar eru nokkuð almenns eðlis. Ég hef af því vissar áhyggjur að þessi þingsköp séu þannig að hægt sé að beita þeim á þann hátt að meiri hlutinn geti gengið fram hjá minni hlutanum. Ég hef þá í huga 3. gr. þar sem eru ákvæði um kosningu varaforseta og einnig 20. gr., sem mér yfirsást þangað til ég fór að kanna málið betur, en þar varð á breyting sem ég held að geti á vissan hátt verið eilítið hættuleg, þó svo að ég sé ekki þar með að segja að það sé ætlunin. Eins og greinin hljóðar núna er hægt að halda nefndafundi ef meiri hluti nefndar samþykkir það. Ég hef af því vissar áhyggjur að þar með sé hægt að halda nefndafundi á meðan á þingfundi stendur. Ég hef af þessu vissar áhyggjur þó ég sé ekki að segja að þetta sé sett þarna inn til þess að hægt sé að beita því þannig að meiri hlutinn geti alltaf haldið fundi þegar þeim dettur í hug þó svo að minni hlutinn vilji taka þátt hér í umræðum á þingfundi.
    Ég vil vekja máls á þessu hér, ekki svo að skilja að ég búist við því að þessu verði misbeitt heldur einungis að segja að ég samþykki þetta í trausti þess að þessum þingsköpum verði ekki beitt nema á jákvæðan hátt, ekki neikvæðan. En það eru t.d. þessar tvær greinar sem ég hef vissar áhyggjur af þó svo ég hafi enga ástæðu til að ætla það að núverandi meiri hluti sé að setja þetta þannig að þeir ætli sér að misnota þetta heldur er ég einungis að vara við því og ég vil ekki túlka þetta á neikvæðan hátt heldur eingöngu á jákvæðan.
    Mér er viss þyrnir í augum hve mikið ræðutími manna er takmarkaður, t.d. í utandagskrárumræðum, þó ég telji það sem hér hefur verið sæst á málamiðlun sem ég get sætt mig við. Ég er einnig ósátt við það hvernig er hægt að samþykkja mál hér í þinginu, þ.e. að ekki skuli einhver lágmarksfjöldi þingmanna þurfa að segja já til þess að frv. verði að lögum eða ályktun Alþingis samþykkt. Ég tel að það sé ekki heppilegt fyrirkomulag að
það skuli vera hægt að allt niður í einn geti sagt já ef allir hinir sitja hjá. Ég tel þetta ekki eðlilegt og er búin að margminnast á þetta bæði á fundum nefndanna og hér í þessari deild. En þetta er niðurstaðan og auðvitað sætti ég mig við þá niðurstöðu sem meiri hlutinn kemst að en ég vil lýsa því hér að ég tel þetta fyrirkomulag ekki heppilegt.
    Almennt vil ég segja að ég vonast til að þessi þingsköp verði Alþingi til farsældar og okkur sem hér störfum nú og í framtíðinni og að þeim verði aldrei beitt á neikvæðan hátt heldur einungis í anda lýðræðis.