Þingsköp Alþingis
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. þá skrifa ég undir nál. án fyrirvara og stend þannig fyrir hönd Alþb. að þessum breytingum sem hér er verið að gera á þingsköpum Alþingis í tilefni af því að verið er að breyta stjórnarskrá landsins.
    Ég tel að þau þingsköp sem hér er verið að samþykkja hafi mjög marga kosti. Í fyrsta lagi þá geti þessi þingsköp tryggt opnara þinghald en verið hefur t.d. með þeim ákvæðum sem þar eru um hugsanlega opna nefndafundi og um beint útvarp frá Alþingi. Í öðru lagi þá geti þessi þingsköp tryggt lýðræðislegra þingstarf en ella, m.a. með því að stjórnarandstaða eigi lögbundna aðild í raun og veru að kosningu varaforseta og vegna yfirlýsinga sem fram hafa komið frá stjórnarliðinu um að það verði rætt að stjórnarandstæðingar geti átt formenn í einstökum nefndum. Í þriðja lagi tel ég að þingsköpin eins og þau líta hér út muni í raun og veru tryggja allvel rétt minni hluta, m.a. vegna þess að þröskuldurinn til þess að samþykkja bráðabirgðaafbrigði er hærri en hann var.
    En það ber líka að viðurkenna það sem fram kom hér hjá hv. 15. þm. Reykv. að samkvæmt þessum þingsköpum hefur meiri hlutinn mjög mikinn rétt. Það veltur því mjög mikið á meiri hlutanum núna fyrstu skrefin hvernig þróunin verður við framkvæmd hinna nýju þingskapa og að meiri hlutinn misbeiti ekki valdi sínu á neinn hátt gagnvart minni hlutanum. Það væri náttúrlega mjög alvarlegur hlutur ef menn áttuðu sig ekki á því að við erum núna að ganga inn í algerlega nýtt skeið við framkvæmd þinghaldsins og að við skiljum það, bæði sem erum í minni hlutanum og þeir sem skipa meiri hlutann núna, að það er um að ræða alveg sérstakar skyldur sem á báðum þessum mikilvægu þáttum þingsins liggja, stjórnarliði og stjórnarandstöðu.
    Eitt af því allra mikilvægasta við breytinguna sem nú er að ganga yfir er það að gert er ráð fyrir að þingmennirnir séu í raun og veru starfandi allt árið og það sé hægt að kalla þingið saman hvenær sem er. Ég bendi í þessu sambandi á það að nú er rætt um að hugsanlega verði gengið frá samningum í næsta mánuði um Evrópskt efnahagssvæði. Við þær aðstæður að við höfum ný þingsköp og þar með nýjan þátt í stjórnskipuninni þá tel ég að ætti að kalla þingið saman til aukafundar til að fjalla um slíkt mál fremur en að ríkisstjórnin ein afgreiði málið með þeim hætti sem verið hefur.
    Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þarna reynir í raun og veru mjög mikið á ríkisstjórnina varðandi framkvæmd hinna nýju þingskapa. Ef ríkisstjórnin afgreiðir mál eins og EES-málið svo að segja með hefðbundnum gamaldags hætti, þeim að ljúka málinu af sinni hálfu einhvern tímann snemma sumars og leggja það svo fyrir þingið í haust, þá er það í raun og veru mjög slæm byrjun á framkvæmd hinna nýju þingskapa.
    Í þessum efnum geri ég ráð fyrir því að stjórnarliðar kunni að segja: Já, en þá verðum við að hafa

tryggingu fyrir því af hendi stjórnarandstöðunnar að málefnalega verði um málið fjallað og menn séu ekki að ræða um mjög marga aðra hluti á slíku sérstöku þingi en það er boðað saman til að fjalla um. Þá liggur auðvitað sú skylda á okkur stjórnarandstæðingum að halda þannig á málum. En aðalatriðið er það að menn bindist samtökum um það, stjórn og stjórnarandstæðingar, að framkvæma hin nýju þingsköp í anda þeirrar umræðu sem fram hefur farið og að menn loki ekki máli eins og t.d. EES-málinu öðruvísi en að þingið verði kallað saman. Ég er alveg sannfærður um það að við þessar aðstæður, að ný ríkisstjórn og nýtt þing standi svona að málum á grundvelli hinna nýju þingskapa, þá munum við strax geta í sameiningu mótað hér allt önnur og mér liggur við að segja með fullri virðingu fyrir öllum þroskaðri þingræðisleg vinnubrögð en stundum hafa sést hér án þess að ég sé að nefna einstök nöfn í þeim efnum og á sjálfur vafalaust þátt í því að hlutirnir hafa verið alla vega hér eins og fleiri.
    Þetta vildi ég nefna til að undirstrika það að hér er um að ræða mikilvægt mál sem ég sem fulltrúi og minn flokkur, sem nú er í stjórnarandstöðu, lítur þannig á að honum beri skylda til að vanda sig við að framkvæma. Ég tel t.d. að sumt af því sem er í nál. og hv. 3. þm. Reykv. gerði grein fyrir hér áðan sé mjög mikilvægt. Varðandi fjárlaganefndina alveg sérstaklega að hún temji sér allt önnur vinnubrögð heldur en verið hefur. Og að þarna sé mikil skylda bæði á okkur í stjórnarandstöðunni en líka stjórnarliðinu. Og að menn reyni í raun og veru að setja sig inn í alveg nýja tíma og ímyndi sér svo að segja að við séum að ganga hér að ónumdu landi og ætlum að byggja það eins og við teljum skynsamlegast, en ekki eins og var gert í fyrra og hittiðfyrra og fyrir 20 árum og 30 árum og 40 árum.