Þingsköp Alþingis
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Frsm. stjórnskipunar - og þingskapanefndar (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég tel að þessar umræður sem hér hafa farið fram endurspegli þær umræður sem fóru fram í nefndinni og hér hafi komið fram þau atriði sem á var drepið í umræðum innan nefndarinnar. Mér finnst að vísu heldur fast að orði kveðið þegar það er kallað mistök að fjölgað hafi verið úr níu í ellefu í fjárlaganefndinni. Eins og ég sagði þá deildu menn um aðferðina en um hina efnislegu niðurstöðu er víðtæk samstaða og greinilega og, eins og hér hefur komið fram, út fyrir raðir stjórnarflokkanna. En ég tel að ekki eigi að líta á þessa aðferð sem þarna varð að nota á þessu stigi málsins sem neina vísbendingu um það hvernig menn ætla að vinna á grundvelli hinna nýju þingskapa, þvert á móti tel ég að í þingsköpunum séu ýmis ákvæði sem eigi að tryggja sem víðtækasta samstöðu um meðferð mála hér á Alþingi og unnt verði að leysa úr þeim ágreiningi sem þar kemur á sem málefnalegastan hátt og sem lýðræðislegastan og þingsköpin miði að því að tryggja slíka málsmeðferð. Er það mikils virði og fer náttúrlega eftir hugarfari hvernig að er staðið. En það hlýtur að verða markmið allra sem hér eru og allra á Alþingi að fyrstu skrefin verði á þann veg að þessi samstaða verði sem víðtækust og góður samstarfsandi myndist á grundvelli hinna nýju reglna.
    Ég vildi aðeins í tilefni af orðum hv. 9. þm. Reykv. um nauðsyn þess að kallað yrði saman sérstakt þing í sumar ef þróun mála í viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins um Evrópskt efnahagssvæði gæfi tilefni til minna á það að í hinum nýju þingsköpum er gert ráð fyrir að fastanefndir þingsins starfi allt árið. Menn verða í umræðum um annars vegar nauðsyn þess að kalla saman aukaþing og hins vegar þau málefni sem fyrir þingið koma að huga að hlutverki nefndanna og að allar nefndirnar sitja nú allt árið en ekki aðeins utanrmn. eins og áður var. Og að það komi til álita almennt þegar menn velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að kalla þing saman eða Alþingi taki afstöðu til einstakra mála sem upp koma hverju sinni. Þá er auðvitað mun viðaminna að kalla fastanefndir saman til fundar til að ræða um einstök málefni. Í þingsköpum eru líka ákvæði um það að þessar nefndir geti haldið fundi fyrir opnum tjöldum þannig að þingmenn gætu látið að sér kveða um málefni án þess að ráðist yrði í jafnviðamikið verkefni og það að kalla þingið allt saman til fundar.
    Við höfum nú verið hér að störfum í bráðum þrjár vikur. Eins og við vitum þá var þetta þing kallað saman til þess að samþykkja og staðfesta þær breytingar sem við erum hér að fjalla um. Í raun og veru held ég að tæknilega séð hafi verið unnt að vinna það verk á rúmlega viku eða svo. Við höfum þó gefið okkur þrjár vikur til að vinna þetta starf og þar hefur blandast náttúrlega inn í að við erum með nýja ríkisstjórn sem hefur gert grein fyrir stefnu sinni. En ég vona að þetta þinghald, þótt það hafi verið gagnlegt allt saman, gefi ekki vísbendingu um það að aukaþing sem kölluð yrðu saman þyrftu að dragast á langinn eins og raun hefur orðið hér. Það væri æskilegast að sjálfsögðu, eins og hæstv. umhvrh. nefndi, að þegar menn ákveða að kalla saman þing af sérstöku tilefni sé alveg búið að ákveða það fyrir fram í samvinnu milli þingflokka hvernig að málsmeðferð verði staðið.
    Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram og ítreka að í umræðunum annars komu fram þau meginsjónarmið sem komu fram í umræðunum í nefndinni.