Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Frsm. stjórnskipunar- og þingskapanefndar (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Mér er ánægja að mæla hér fyrir nál. frá stjórnskipunar - og þingskapanefnd hv. deildar um frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem nefndin hefur fengið til meðferðar.
    Þingmál þetta er hv. deildarmönnum ekki ókunnugt. Þetta er staðfestingarfrv. á þeirri breytingu sem Alþingi samþykkti að gera á stjórnarskránni fyrr á þessu ári. Þessi breyting hefur þegar fengið staðfestingu hv. Ed. þingsins.
    Þessi stjórnarskrárbreyting er forsenda þess að Alþingi megi starfa í einni málstofu framvegis og er jafnframt skilyrði þess að þau áform um breytingar á þingsköpum sem hér hafa verið til umræðu nái fram að ganga.
    Í stuttu máli, herra forseti, er það álit nefndarinnar að þetta frv. beri að samþykkja, að sjálfsögðu óbreytt. Var fullur einhugur í nefndinni um að mæla með samþykkt frv. Það má geta þess til gamans, virðulegi forseti, að nefndarfundurinn sem þessa afstöðu tók í stjórnskipunar - og þingskapanefnd í gær mun verða, ef öll áform ganga hér eftir, síðasti nefndarfundur sem haldinn hefur verið í deildum Alþingis.
    Að svo mæltu, herra forseti, vil ég leyfa mér að leggja til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.