Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ánægja að því að svara fyrirspurnum hv. 1. þm. Austurl. í tilefni af þessari Morgunblaðsfrétt og svörin eru einfaldlega þessi. Það hefur nánast ekkert breyst í samningsstöðu Íslands að því er þessi mál varðar eins og raunar kemur skýrt fram í svörum mínum við spurningum Morgunblaðsins. Samningsstaðan er algerlega óbreytt að því leyti. Samningarnir eru áfram á borðum EES - samninganna. Sameiginlegar kröfur EFTA eru óbreyttar. Við setjum fram óskir um tollfrjálsan aðgang, hindrunarlausan aðgang fyrir sjávarafurðir á mörkuðum Evrópska efnahagssvæðisins og við höfnum kröfum EB um veiðiheimildir.
    Það eina sem gerst hefur er það að aðalsamningamaður EB, Horst Krenzler, skýrði frá því á blaðamannafundi sl. mánudag að EB mundi nú leita eftir tvíhliða viðræðum við þær þjóðir innan EFTA sem þeir teldu málið helst varða. Síðar upplýsti hann að hér ætti hann við Íslendinga, Norðmenn, Svía og Finna, þ.e. þær EFTA - þjóðir sem ekki væru landluktar.
    Að því er Norðmenn varðar eru það einfaldlega viðræður á grundvelli rammasamnings sem þegar er í gildi á milli Noregs og Evrópubandalagsins. Sá samningur er frá árinu 1985. Hann kveður m.a. á um gagnkvæmar veiðiheimildir og reyndar voru það Norðmenn sem óskuðu eftir því að þær viðræður yrðu teknar upp nú.
    Að því er okkur Íslendinga varðar táknar þessi yfirlýsing Krenzlers þá breytingu af hálfu EB að þeir segjast nú vera við því búnir að taka aftur upp þráðinn um tvíhliða viðræður um einhvers konar samstarfs - eða rammasamning við Ísland af því tagi sem hæstv. sjútvrh. skýrði frá hér í ræðu sinni áðan að Íslendingar hefðu áður rætt við EB. ( HÁ: Fyrrv.) Fyrrv., já. Að vísu höfum við ekki enn fengið neina formlega tilkynningu um að EB fylgi þessu eftir þannig að hér er ekki meira fram komið en þessi yfirlýsing Krenzlers frá umræddum fréttamannafundi. Formlega hefur því enn ekki verið farið þess á leit af hálfu EB að taka þessar viðræður upp. Við erum hins vegar við því búnir og ég hef svarað því.
    Allt frá því að fríverslunarsamningur Íslands var gerður við EB 1972 og varð virkur með bókun 6 var ráð fyrir því gert að efnt yrði til slíkra viðræðna um einhvers konar rammasamning af þessu tagi. Íslendingar eru eina þjóðin sem hefur ekki slíkan rammasamning. Á tímabili var lítt eftir því leitað af hálfu Íslendinga. Þó var það svo að árið 1981 voru til drög að slíkum samningi sem Íslendingar hins vegar höfnuðu. Síðan hefur þráðurinn verið tekinn upp, m.a. í tíð hæstv. fyrrv. sjútvrh., eins og hann vitnaði til, árið 1989. Það er prentvilla í Morgunblaðinu, ártalið 1987, að sjálfsögðu var það 1989 í mars og október. Það eina sem er um þetta með öðrum orðum að segja er þetta:
    EB mun þá væntanlega óska formlega eftir því núna að hefja þessar tvíhliða viðræður. Þau formlegu

tilmæli hafa enn ekki borist þannig að það hefur nákvæmlega ekkert gerst formlega í þessu máli. Við höfum hins vegar lýst því yfir að við erum sömu skoðunar nú af hálfu þessarar ríkisstjórnar og fyrrv. ríkisstjórnar, við erum tilbúnir til þess að taka þessar viðræður upp ef EB óskar eftir.
    En ég legg áherslu á það að lokum að samningsstaðan er algerlega óbreytt. Það hefur hvergi verið hreyft þeirri hugmynd að taka þessi mál af borði EES - samninganna. Samningsstaða EFTA er alveg óbreytt og þessar tvíhliða viðræður tákna undir engum kringumstæðum það að við séum fallnir frá þeirri grundvallarstefnu að við föllumst ekki á að veita veiðiheimildir til EB í íslenskri fiskveiðilögsögu.