Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég árétta það enn sem svar við fyrirspurn hv. 1. þm. Austurl. að það er ekki verið að flytja samninga okkar við Evrópubandalagið yfir í tvíhliða viðræður. Að því er varðar við hverja verður rætt ef formleg ósk berst frá EB um að taka upp þráðinn um rammasamning, þá höfum við lýst því yfir af okkar hálfu að þær viðræður eigi að fara fram við utanríkisdeildina, þótt það sé hennar mál hvort hún kveðji DG 14, sjávarútvegsdeildina, til þeirra viðræðna. Við ræðum við utanríkisdeildina alveg eins og við svöruðum því til þegar ósk barst um tvíhliða viðræður um landbúnaðarmálin. Við erum að vísu eina EFTA - ríkið sem tók ekki upp slíkar tvíhliða viðræður vegna þess að við erum í samningum við framkvæmdastjórnina samkvæmt hennar umboði og ræðum því við utanríkisdeildina eina, þótt hún megi kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar.
    Ég vil, virðulegi forseti, árétta það í tilefni af orðum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að það hefur engin breyting orðið á því að EFTA talar einni röddu í þessum samningum. Samningsstaðan er enn sameiginleg og sameiginlega flutt af formennskulandi EFTA og þessi mál hafa ekki verið tekin út af því samningsborði.
    Hver er þá samningsstaðan? Hún er einfaldlega sú að mínu mati að ég held að sú stund sé að nálgast að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins geri sér grein fyrir því að synjun Íslendinga á einhliða veiðiheimildum til EB í okkar lögsögu er pólitísk alvara sem verður ekki breytt. Spurningin er miklu fremur um mat á jafnvægi í þessum samningum, þ.e. þetta sem hv. þm. þekkja orðið mjög vel, að leggja mat annars vegar á kröfu okkar um hindrunarlausan tollfrjálsan aðgang gegn kröfum EB um rýmri innflutning landbúnaðarafurða og svo hugsanlega sjóðsstofnun.
    Við Íslendingar höldum því fram að við þurfum ekki að taka á okkur neinn fórnarkostnað sérstaklega sem aðgöngumiða að þessu svæði. Hitt er svo annað mál að jafnvægi einstakra ríkja er mismunandi. T.d. er það ljóst að jafnvægismatið fyrir hönd Noregs er meira. Þeir hafa hagstæða niðurstöðu úr þessum samningum eins og þeir standa nú og það hefur komið skýrt fram, m.a. af hálfu forsætisráðherra Noregs eftir Vínarfundinn, og þá vísa ég til norskrar pressu, að þeir gefa fyllilega í skyn nú orðið að þeir væru hugsanlega reiðubúnir að verja nokkru meiru til en Íslendingar, sem eru að verja þjóðarhagsmuni, til þess að koma slíkum samningum á.