Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Fyrir mér hefur það legið fyrir í langan tíma að þessar samningaviðræður eru komnar í hið mesta óefni. Það væri óheillaspor fyrir Ísland að tengjast EB svo nánum böndum sem þessi samningur gerir ráð fyrir. Okkur er engin nauðsyn á að gerast aðilar að alþjóðasamningi eins og þessum til að aðlaga okkar löggjöf að því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Við þurfum ekkert að láta af hendi mikilvæg stjórntæki í efnahagsmálum og afsala okkur dómsvaldi í mikilvægum málum til erlendra dómstóla.
    Ég tel að það sem er að gerast þessar síðustu vikur og daga sýni alltaf betur og betur að þetta er ekki rétt leið sem valin var af stjórnvöldum á sínum tíma. Við hefðum strax átt að fara í tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um allt samningssviðið, bæði um sjávarútvegsmál sem og önnur mál sem við höfum haft.
    Ég skora á ríkisstjórnina að gaumgæfa vel hvert skref sem stigið er og hafa það í huga að það er erfiðara og erfiðara að koma til baka og slíta sig lausa ef svo stórt skref verður stigið inn í Evrópubandalagið sem nú virðist eiga að gera.