Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Í upphafi þessarar umræðu bar hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. sjútvrh., fram tvær meginspurningar til hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. hefur ekki svarað annarri þessara spurninga. Satt að segja er það mikilvægara, virðulegi forseti, að gefa utanrrh. tækifæri til að svara henni sem þarf ekki að taka lengri tíma en það að segja eitt já hér í stólnum en halda upp á mínútu við ákveðinn hálftíma.
    Þetta atriði sem hér um ræðir er sú spurning hv. 1. þm. Austurl. hvort ítrekað verði við Evrópubandalagið ef formleg beiðni berst um viðræður frá Evrópubandalaginu að þær viðræður yrðu eingöngu á grundvelli þeirra viðræðna sem fram hafa farið frá 1976. Þetta er lykilatriði málsins og hæstv. utanrrh. þarf ekki annað en koma hér upp í stólinn og segja já við þessari spurningu hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. sjútvrh., til þess að málið liggi ljóst fyrir. Þetta er mikilvægasta hagsmunamál Íslands ( Utanrrh.: Ég get sagt já úr sæti mínu.) og getur líka sagt já úr sæti sínu. Ég vil nú biðja virðulegan forseta að skilja að þetta mál er svo stórt að það er satt að segja ekkert mál stærra sem við munum fjalla um hér á síðasta degi þingsins. Ég bið þess vegna um það að hæstv. utanrrh. verði gefið færi á því, jafnvel undir forminu þingsköp, að koma hér upp í ræðustólinn og svara því að það sé skýrt og ljóst af hans hálfu að ef til þeirra viðræðna verður stofnað, þá verði það sagt formlega af Íslands hálfu að það verði eingöngu á grundvelli þeirra viðræðna sem staðið hafa frá árinu 1976. Því ef það já kemur ekki hér í þingsalnum, þá hefur þessi umræða satt að segja orðið til lítils. ( Utanrrh.: Spurningunni var þegar svarað svo það er óþarfi að fara í stólinn.)
    Hæstv. utanrrh. kallaði fram úr sæti sínu, virðulegi forseti: Spurningunni hefur þegar verið svarað. Það er rangt, hæstv. utanrrh. Spurningunni var ekki svarað af hæstv. utanrrh.
    Hv. 1. þm. Austurl. sagði hér í inngangsræðu sinni að það væri mikilvægt í þessu máli að utanrrh. gerði tvennt í senn: Talaði skýrt og greindi rétt frá. Ef hæstv. utanrrh. segir nú úr sæti sínu: Þessari spurningu hefur þegar verið svarað, þá er hann ekki að tala skýrt vegna þess að það má fara í gegnum orð hans hér í stólnum í þessari umræðu. Hann hefur ekki vikið einu orði að því að því verði lýst yfir af Íslands hálfu að ef til þessara viðræðna verði stofnað, þá verði það sagt af Íslands hálfu að þær verði á grundvelli viðræðnanna frá 1976. Og fyrst hæstv. utanrrh. segir það hér úr sæti sínu og ætlar að standa við það og láta það verða sín síðustu orð hér í dag um þetta mál að því hafi þegar verið svarað, þá er alveg ljóst að þetta mál er ekki skýrt af Íslands hálfu og það er einhver maðkur í þessari mysu. Það er því ekki ljóst hvað er verið að gera af hálfu ríkisstjórnar Íslands í þessu mikilvægasta máli sem, og hv. 1. þm. Austurl. bendir réttilega á, er höfuðatriði að gert sé ljóst af Íslands hálfu að verði eingöngu á grundvelli þeirra viðræðna sem staðið hafa frá 1976.

    Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að tala hér um þingsköp. Ég ítreka enn að ef hæstv. utanrrh. vill skilja við málið og þingið með þeim hætti að ró og samstaða sé með þjóð og þingi um framhald málsins, þá komi hann upp í ræðustólinn og segi já við þessari spurningu þó undir forminu þingsköp sé.