Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hafa hafið þessa umræðu. Ég tek undir það að það er mjög nauðsynlegt að þjóðin viti hvar hún stendur og ekki hvað síst bændur í þessum málum áður en þingi verður slitið.
    Um þetta mál vil ég segja að það hefur um nokkurt árabil verið að þjóðfélagið hefur stutt að landbúnaðarstörfum með þeim hætti að ráðstafa almannafé til þess að halda uppi framleiðsluverði í landbúnaðarafurðum. Um þessa ráðstöfun hefur verið allsæmileg samstaða hingað til. En það virðist þó komið svo að samstaðan sé heldur að bresta og sýnt að við taki harðari afstaða stjórnvalda, sérstaklega gagnvart sauðfjárbændum.
    Fyrri búvörusamningur, sem ég held að hafi verið gerður 1986 eða 1987, var tilraun til að skipuleggja landbúnaðarstarfið í landinu. Sá samningur hefur orðið til þess að koma verulegu skipulagi á þessi störf, sérstaklega mjólkurframleiðsluna. Nýi samningurinn tekur sérstaklega á sauðfjárræktinni, eins og komið hefur fram í umræðum. Fulltrúar bænda voru að vissu leyti með í umræðum um þennan samning og við gerð hans. Þótt e.t.v. hafi ekki verið haft nægilegt samráð við sauðfjárbændur er þetta samt sem áður samningur sem gerður var milli ríkisvalds og bænda.
    Ég held að það verði fyrst og fremst að koma í ljós, eins og ég sagði, hvort staðið verður við þær fjárskuldbindingar sem ríkisvaldið hefur hér gert. Það er mjög mikilsvert fyrir bændur að vita að hverju þeir ganga. Þeir geta ekki tekið ákvarðanir um búrekstur sinn vikulega eða frá degi til dags og þess vegna m.a. var þessi samningur gerður og lokið við hann fyrir kosningar í vor þó að þar væri verið að binda hendur næstu stjórnar í stórum ákvörðunum sem má auðvitað gagnrýna en hefur þó alltaf viðgengist. Það er sífellt verið að binda hendur næstu ríkisstjórnar. Það er aldrei hægt að taka ákvarðanir á hv. Alþingi sem ekki binda ríkisstjórn eitthvað fram í tímann. Það er ekkert einsdæmi að slíkt sé gert. Þarna var verið að gera kjarasamning við heila stétt manna, við bændur, og þess vegna verður að standa við þennan samning.
    Mér finnst ekki hafa komið hér fram skýr afstaða af hálfu hæstv. landbrh., þótt hann segi að hann vilji virða samninginn. Það hefur tæplega komið nógu skýrt fram heldur af hálfu forsrh. og þess vegna er það sem þessi umræða fer fram. Við viljum fá skýr svör: Verður staðið við búvörusamninginn eða ekki?