Starfslok efri deildar
Föstudaginn 31. maí 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil fyrir hönd okkar þingdeildarmanna þakka virðulegum forseta fyrir ágæta fundarstjórn á þessu stutta vorþingi.
    Þessi fundur er síðasti fundur þessarar hv. deildar, efri deildar Alþingis, en hún hefur starfað allt frá árinu 1875. Þetta er því söguleg stund.
    Á síðasta kjörtímabili átti ég sæti í neðri deild Alþingis. Ég hef því mjög skamma reynslu af starfi í efri deild. Þrátt fyrir stutta setu í deildinni vil ég taka undir það sem virðulegur forseti sagði áðan þegar hann mælti til okkar þingmanna að það er gott að starfa í deildinni. Ég vona að hv. þm. efri deildar flytji þann góða anda og þá eindrægni sem hér hefur ríkt með sér þegar deildirnar sameinast í eina málstofu.
    Ég vil að lokum þakka öllu starfsfólki fyrir störf þess. Ég flyt góðar óskir okkar allra til forseta og fjölskyldu hans um gleðilegt sumar. Ég bið hv. þingmenn að rísa úr sætum og taka þannig undir orð mín. --- [Þingmenn risu úr sætum.]