Starfslok neðri deildar
Föstudaginn 31. maí 1991


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil flytja virðulegum forseta þessarar deildar þakkir okkar þingmanna í neðri deild fyrir hans mildu og hógværu fundastjórn, sem hann hefur sýnt á þeim stutta tíma sem hann hefur verið forseti þessarar deildar.
    Virðulegur forseti rakti hér í ávarpi sínu þá merku sögu sem þessi deild hefur átt. Og fyrir okkur sem lítum með nokkrum ljóma sögu Vestfjarða þá er það ánægjulegt samhengi sögunnar að hinn síðasti forseti þessarar virðulegu deildar skuli, líkt og hinn fyrsti, vera úr hópi þingmanna Vestfirðinga.
    Ég vil flytja forseta árnaðaróskir okkar. Það eru e.t.v. nokkrar ýkjur að óska honum góðrar heimferðar og heimkomu því hann mun ásamt okkur hinum koma aftur til þings hér síðdegis í dag. En engu að síður geri ég það hér úr stólnum að óska honum og fjölskyldu hans allra heilla og bið deildarmenn að sýna þakklæti okkar og virðingu við hinn síðasta forseta neðri deildar með því að rísa úr sætum og flytja honum þakkir okkar. --- [Þingmenn risu úr sætum.]
     Forseti (Matthías Bjarnason) :
     Ég þakka hv. 8. þm. Reykn. fyrir góðar óskir í minn garð og minnar fjölskyldu og hv. þm. þessarar deildar fyrir að taka undir þær óskir. Ég ítreka heillaóskir til deildarmanna.
    Fleira liggur ekki fyrir þessum fundi. Síðasta fundi neðri deildar er slitið.