Kosning varaforseta
Föstudaginn 31. maí 1991


     Geir H. Haarde (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa að tekist hefur samkomulag milli þingflokka um kjör fjögurra varaforseta sem ásamt nýkjörnum forseta Alþingis munu mynda hina nýju forsætisnefnd þingsins. Því verður aðeins lagður fram einn listi í þessari kosningu.
    Í þessu samkomulagi felst að Sjálfstfl. hefur gefið eftir einn varaforseta sem flokkurinn hefði fengið í sinn hlut ef hann hefði kosið að beita þingstyrk sínum til fulls. Ég vil taka það fram að þetta er gert til að undirstrika þá samstöðu sem verið hefur milli þingflokka um þær breytingar sem gerðar hafa verið í dag á starfsháttum Alþingis og í þeirri von að samstarf verði áfram með sama hætti í hinni nýju forsætisnefnd. Við sjálfstæðismenn viljum láta á það reyna hvort samstarf allra þingflokka í forsætisnefnd um þingstörfin getur orðið farsælt. En ég vil láta það koma jafnframt skýrt fram að þessi ákvörðun okkar nú hefur ekki sjálfstætt fordæmisgildi, hvorki þegar kosnir verða varaforsetar næsta haust né síðar.