Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
114. löggjafarþing. – 2 . mál.


Ed.

13. Nefndarálitum frv. til l. um þingsköp Alþingis.

Frá stjórnskipunar- og þingskapanefnd.    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og er sammála um að það verði afgreitt óbreytt frá deildinni eins og það liggur fyrir á þskj. 11. Nefndin hélt sameiginlega fundi með neðrideildarnefndinni og ræddi þá efnisatriði frumvarpsins og hafði samþykkt fyrir sitt leyti þær breytingar sem neðrideildarnefndin flutti á þskj. 6.
    Nefndin ræddi einnig ýmis önnur atriði þinghaldsins sem ekki varða þingsköpin sérstaklega og vill gjarnan koma þeim atriðum á framfæri í þessu nefndaráliti.
     Stöðugt útvarp frá Alþingi. Nefndin leggur til að forsætisnefnd láti kanna sem fyrst tæknilega möguleika og kostnað við að útvarpa stöðugt á sérstakri rás umræðum á Alþingi. Bendir nefndin á að slíkt verður auðveldara þegar Alþingi er komið í eina málstofu.
     Fundatímar þingsins. Nefndin beinir þeim tilmælum til forsætisnefndar að hún kanni hvort unnt verði að breyta fundatíma þingsins í haust þannig að þeir hefjist eitthvað fyrr en nú er.
     Meðferð fjárlagafrumvarpsins. Nefndin hvetur til þess að fjárlaganefnd, þeir sem unnið hafa undirbúningi þingskapalagafrumvarpsins og þeir sem starfað hafa fyrir fjárveitinganefnd á undanförnum árum, þ.e. starfsmenn fjármálaráðuneytis, Fjárlaga- og hagsýslustofunar og Ríkisendurskoðunar, ásamt starfsmönnum þingsins, ræði nú í sumar um hið nýja fyrirkomulag á afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins, sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, og móti framkvæmd þessarar nýjungar í einstökum atriðum áður en þingstörf hefjast að nýju í haust.
     Störf fastanefnda. Nefndin hvetur til þess að fastanefndir komi saman í sumar eftir því sem þykir henta til að undirbúa störf fyrir haustið í ljósi breyttra verkefna nefndanna.
     Húsnæðismál Alþingis. Nefndin beinir því til forsætisnefndar að hún hraði athugun á húsnæðismálum Alþingis í því skyni að fá niðurstöðu um þau mál.

Alþingi, 29. maí 1991.Halldór Ásgrímsson,


form., með fyrirvara.

Björn Bjarnason,


frsm.

Svavar Gestsson,


fundaskr.


Kristín Einarsdóttir,


með fyrirvara.

Salome Þorkelsdóttir.

Karl Steinar Guðnason.


Jón Helgason,


með fyrirvara.

Egill Jónsson.

Eiður Guðnason.