Framhald umræðna um skýrslu Byggðastofnunar

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 13:40:00 (2520)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir hið efnislega svar sem hér var gefið. Ég skil það svo að hér séu ákveðin mál sem ætlunin sé að ræða og að þeim frágengnum megi gera ráð fyrir að þetta mál fari á dagskrá. Ég mun ekki gera athugasemd við það. En hitt finnst mér mjög óeðlilegt ef þingið verður sent aftur heim og þetta mál órætt. Það tel ég eiginlega ekki ásættanlegt og bið hæstv. forseta að hugleiða hvort ekki hljóti að vera eðlilegt að menn starfi þar til búið er að afgreiða það sem nauðsynlegt er að afgreiða í þinginu eins og t.d. að ljúka þessari umræðu. Blasi svo verkefnisleysi við þinginu mun ég að sjálfsögðu ekki gera athugasemdir við það að menn geri hlé, en ég er ekki búinn að sjá að það blasi neitt verkefnaleysi við þinginu og þess vegna finnst mér mjög undarlegt ef menn telja að nú sé skynsamlegt í upphafi ársins að skipuleggja það að senda þingið aftur heim. Ég minni á að miklar tafir eins og Norðurlandaþing hafa löngum orðið til þess að setja hér margt úr skorðum og er ákaflega hæpið að það sé í anda lýðræðisins að starfa á þann hátt að það sé nauðsyn að senda þingið heim. Til þess að gera hvað? Til þess að ríkisstjórnin hafi þá vinnufrið fyrir þinginu? Er það hugsunin? Ef það er aðgerðarleysi og ekkert hér að gera horfir málið allt öðruvísi við. En annars hlýt ég að spyrja: Er ekki eðlilegt að sú ákvörðun að senda þingið heim verði tekin til umfjöllunar með stjórn og stjórnarandstöðu og metin út frá því hvort um verkefnisleysi hjá þinginu er að ræða?