Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:44:00 (2552)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Menn hafa hætt sér út á hálan ís. Ég held reyndar að sá ís sem hæstv. utanrrh. er kominn út á núna sé þess utan mjög þunnur orðinn og spurning hvenær hann fer niður úr.
    En hæstv. utanrrh. lét að því liggja í máli sínu áðan, eins og hæstv. ráðherra gerði í sjónvarpsviðtali í gærkvöld, að sú breyting hefði orðið á íslenska tilboðinu í fyrra og umræðugrundvelli Dunkels núna að útflutningsbætur lækki ekki um 65% eins og Íslendingar lögðu til heldur um 36%. Hæstv. utanrrh. hefur ítrekað látið að því liggja að hér sé um að ræða breytingu sem sé hagsmunum íslenskrar matvælaframleiðslu jákvæð. Þetta er alrangt og ég verð því miður að segja það, sem ég sagði í dag, að annaðhvort væri um að ræða þekkingarskort eða vísvitandi blekkingu. Því miður verð ég að segja að þessar umræður núna hafa staðfest í mínum huga að það er seinna atriðið sem er rétt. Miðað við þá landbúnaðarstefnu okkar Íslendinga að hætta útflutningsuppbótum er þetta okkur óhagstæðara en fyrra tilboð vegna þess að þetta þýðir einfaldlega að við verðum á aðlögunartímanum næstu sex árin að glíma við ódýrari innflutning en annars hefði verið. Þetta er borðliggjandi staðreynd, hæstv. utanrrh., og það er þess vegna blekking að láta að því liggja að þessi breyting sé íslenskum hagsmunum og íslenskri matvælaframleiðslu þóknanleg.