Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:37:00 (2762)


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Mér er ljúft að verða við því að ræða aðeins um gæslu þingskapa. Það er að sjálfsögðu í verkahring forseta að meta það á hverjum tíma hvaða tímalengd þurfi fyrir umræðu. Hér hefur það gerst sem öllum má ljóst vera að styttri tími hefur verið valinn en svo að um það ríki friður, enda málið nánast jafnóljóst og það var áður að undanskildu því að samgrh. og Samskip virðast ætla að bjarga Austfjörðum og auðvitað gerum við ekki lítið úr því. ( EgJ: Þó ekki væri.) Þó ekki væri, ég tek undir það hjá hv. 3. þm. Austurl.
    Herra forseti. Þetta þing er fyrir landið allt. Svo vill til að hinir hafa áhuga á því líka að vita hvað sé fyrir stafni og þess vegna vil ég skora á hæstv. samgrh. að beita sér fyrir því að gefa þinginu sem allra fyrst skýrslu um málið og hvaða hugmyndir hann hafi um það hvernig eigi að standa að þeim samgöngumálum sem nauðsynleg eru í þessu sambandi. Ég vil skora á hann að gera þetta vegna þess að ef hann hefur frumkvæðið þá á hann möguleika á að koma þessari skýrslu á dagskrá áður en þingið verður sent heim, en ef þingmenn biðja nú um skýrslu þá hefur hann að sjálfsögðu möguleika til að svara henni ekki fyrr en þingið kemur aftur til starfa. Það er fulllangur óvissutími svo ekki sé meira sagt um miðjan vetur fyrir sveitarfélög eins og Árneshrepp, svo ég nefni nú dæmi, og önnur sveitarfélög á Vestfjörðum sem vissulega þurfa á þessum tíma árs á sjósamgöngum að halda. Við gerum ekki ráð fyrir því að það verði 9 stiga hiti á Dalatanga það sem eftir er vetrar.